þriðjudagur, 12. apríl 2011

ER LÍÐA FER AÐ JÓLUM



„Drungi í desember, dagskíman föl svo skelfing lítil er,“ syngur Raggi Bjarna í einu af fáum jólalögum sem hafa heillað mig upp úr skónum og ég nenni að hlusta á aftur og aftur, ár eftir ár, Er líða fer að jólum.

Þegar dimmasti tími ársins gengur í garð er gott að fá birtuna sem stafar frá jólunum sem eru rétt handan við hornið. Í desember vakna flestir Íslendingar og halda til vinnu eða skóla í myrkri og þegar þeir halda aftur heim á leið er myrkrið komið aftur á kreik eins og köttur í kringum skál, fulla af rjóma, eða opinn poka af rækjum. Þetta er sumum frekar þungbær tími því svona mikið myrkur með aðeins örfáar stundir dagsbirtu á sólarhring geta auðveldlega truflað sálarlífið – hvað þá ef þungar áhyggjur af jólunum og öllum þeim efnishyggjukröfum sem þeim því miður fylgja hvíla á herðum fólks.

Einmitt vegna þessa er gott að jólaljósin séu kveikt sem víðast og skreytingarnar fái gott pláss með það að markmiði að lýsa aðeins upp tilveruna í svartasta skammdeginu.
Jólin eiga að vera gleðitími og eru það í bland við áhyggjurnar; þessar sterku andstæður ljóss og skugga, birtu og svartnættis kallast hraustlega á. Jólin eiga ekki að vera tími þar sem stress og ömurleg efnishyggja ræður ríkjum – reyndar ekki heldur níska og sinnuleysi – heldur frekar hófstillt gjafmildi sem endurspeglar raunverulegt efnahagsástand fólks og kærleika; kærleikurinn er jú inntak jólanna: Það er ekkert gaman að því að kaupa þarflausa hluti fyrir peninga sem eru ekki til, enda fullkomlega tilgangs- og innihaldslaust.

Í lagatextanum sem pistillinn byrjaði á er minnst á drunga, en einnig birtu: Glóandi í gluggunum glöð ljósin víkja burtu skuggunum.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 51. tbl., 2010, 16. des.)

Engin ummæli: