föstudagur, 15. apríl 2011
SKÓLABÚNINGAR ROKKA!
Þegar minnst er á skólabúninga hér á landi virðast margir draga upp mynd í höfðinu á sér af breskum einkaskóla í einhverri klassískri kvikmynd. Sumir eru hrifnir af hugmyndinni, aðrir ekki, burtséð frá eigin reynslu eða upplifun, í einhverjum tilvikum að minnsta kosti eins og svo gjarnt er um okkur Íslendinga.
Ég er hrifinn af hugmyndinni um að skólabörn hér á landi klæðist skólabúningum því ég hef reynslu af hvoru tveggja; skólabúningum og „venjulegum“ fötum.
Fyrir það fyrsta er það einfaldlega mun minni vinna fyrir foreldra að sjá um skólafötin fyrir börnin þegar um er að ræða skólabúninga, og það er engin spurning um val – ekki misskilja mig, ég er hrifinn af valfrelsi og vil ekki hefta frjálsan vilja – en þetta er bara betra. Þessi föt eru til að fara í í skólann, punktur.
Allur metingur um flottustu fötin og fáránleg tískudýrkun, bæði foreldra og sumra barna (sem er afleiðing af sjúkri neyslu- og efnishyggju samfélagsins), er því fyrir bí, að minnsta kosti á meðan á skólatíma stendur.
Það er blessun.
Það fer alveg nægur tími hjá okkur blessuðu mannfólkinu í meting og stærilæti – keppnin um ekki neitt stendur sem hæst yfir þar sem fyrstu verðlaun eru tómleiki og tilgangsleysi.
Legg til að við afnemum þessa keppni.
Einn liðurinn í því væri að börn í grunnskólum landsins, jafnvel í mennta- og fjölbrautaskólum, klæddust skólabúningum. Það er mín skoðun, byggð á reynslu.
Að lokum vona ég að þið hafið það sem best á næsta ári, takk fyrir að gera lífið skemmtilegra með okkur hér á Séð og Heyrt. Gleðilegt nýtt ár.
Svanur Már Snorrason
(Leiðari Séð og Heyrt, 53. tbl., 2010, 30. des.)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli