sunnudagur, 10. apríl 2011

John Lennon - In memoriam



Það var óvenjudimmt og þungt yfir þennan morgun í desember fyrir þrjátíu árum þegar ég, þá níu ára gutti, rölti leiðina frá Tunguvegi 1 í Hafnarfirði yfir í Víðistaðaskóla. Þó að morgnarnir í desember séu dimmir og þungir var þó sem eitthvað grúfði yfir – níðþung ský og svört. Þó að lífið léki við mig var enga gleði að finna þennan morgun og ég vissi ekki af hverju. Hafði vaknað seint, henst af stað og þegar ég gekk inn í skólastofuna var sama andrúmsloftið ríkjandi – þungt yfir. Kennarinn hvergi sjáanlegur og nemendur virtust úti að aka. Fljótlega fékk ég fréttirnar – það var búið að myrða John Lennon. Ég man það þyrmdi yfir mig og ég átti erfitt með að berjast við tárin – og dimmur morgunninn varð kolbikasvartur.

Ég man ekki hvernig bekkjarfélagar mínir tóku tíðindunum. Það virtist sem öllum væri brugðið, en svo komu frímínúturnar, það birti úti, tók að snjóa og það heyrðist hlátur á göngunum, en hann kom ekki frá mér.

Ég man þennan ömurlega morgun betur en þegar 11. september 2001 gekk í garð, mun betur en daginn þegar Kurt Cobain endaði sitt líf og jafnvel enn betur en þá daga þegar jörð hefur skolfið hvað mest hér á Íslandi. Morðið á John Lennon var svo hryllilega tilgangslaust að það tók á sig ótrúlega margar myndir af tilgangslausum morðum á andlitslausu fólki. En enginn skyldi af hverju.

Í John Lennon var að finna birtingarmyndir af svo mörgu góðu í mannfólkinu, þrátt fyrir að hann væri enginn engill. Hann var frjór, skapandi, kraftmikill, lífsglaður, jákvæður, sveiflukenndur, fyndinn og með ólíkindum hæfileikaríkur tónlistarmaður.

Þegar geðsjúklingurinn Mark David Chapman skaut John Lennon í bakið var eins og tilgangsleysið og eyðingarhvötin hefði tekið völdin þó ekki væri nema í skamma stund. Þessi skamma stund gerði dimman desembermorgun hjá níu ára gömlum dreng að morgni sem hann myndi aldrei gleyma – og aldrei skilja.

Þetta var einfaldlega eitt af þessum tilhæfulausu óhæfuverkum sem við mannfólkið gerum hvert öðru. Gjörð sem ekkert kom út úr nema sorg og minning um mann sem hafði gefið okkur svo mikið. Ég sakna hans enn þá.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 50. tbl., 2010, 9. des.)

Engin ummæli: