miðvikudagur, 6. apríl 2011

TÖKUM Á LEIKARASKAP



Ég er enginn aðdáandi forsjárhyggju eða rétttrúnaðarsamfélaga og finnst oft hefðir vera lítið annað en afsakanir fyrir stöðnun; íhaldssömum og leiðinlegum skoðunum. Skemmtilegra að prófa eitthvað nýtt með umburðarlyndið að leiðarljósi, kærleikann sér við hlið og einhvern sprelligosa sem förunaut.
 
Einu vil ég þó láta taka hart á sem kannski þykir léttvægt í lífinu. Það er leikaraskapur í boltaíþróttunum en þeim er ég hrifinn af, enda starfaði ég lengi sem íþróttablaðamaður og skrifaði um ótal marga leiki.
 
Hér á landi er leikaraskapur sem betur fer nánast óþekktur. Íslendingar eru harðir í horn að taka í boltagreinum en heiðarlegir, alla vega flestir. Tuðum dálítið mikið en bellibrögð heyra til undantekninga.
 
En það sama er ekki hægt að segja um ýmsa af stærstu íþróttastjörnum heimsins og þá sérstaklega í vinsælustu greininni, knattspyrnu. Gleymi því aldrei þegar einn besti knattspyrnumaður heims á þeim tíma, Brasilíumaðurinn Rivaldo, kastaði sér á jörðina og greip um andlit sitt eins og hann hefði verið sleginn með gaddakylfu af snarbrjáluðum manni, þegar raunin var sú að tyrkneskur leikmaður sparkaði boltanum léttilega í hné hans, á HM 2002. Tyrkinn var rekinn út af og á þeirri stundu missti ég alla virðingu fyrir Rivaldo.
 
Í dag er Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, óneitanlega einn af bestu knattspyrnumönnum heims – klárlega sá þekktasti, kannski sá vinsælasti. Hefur nánast allt – hæfileikana, hraðann, kraftinn og snerpuna – svo er hann ægilega sætur. En ég hef alltaf átt erfitt með að bera virðingu fyrir honum sem leikmanni því hann notar leikaraskap óspart, sem er eitthvað sem hann þarf ekki á að halda nema hann sé í heilagri krossferð með það að markmiði að eyðileggja sitt sólbrúna og vel gelaða orðspor.
 
Leikaraskapur á ekki að sjást inni á vellinum; hann er íþróttamönnum til skammar sem og íþróttinni sjálfri. Það á að refsa mönnum fyrir gróf brot og að sjálfsögðu fyrir að brúka kjaft og almennan dónaskap, en það á jafnvel að refsa enn harðar fyrir leikaraskap, enda er þetta það sem ungviðið sér nánast á hverjum degi, þökk sé Netinu, og gæti allt eins tekið sér til fyrirmyndar. Það vil ég ekki því það gerir lífið ekki skemmtilegra eins og við á Séð og Heyrt höfum að leiðarljósi.
 
Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 47. tbl., 18. nóvember 2010)

Engin ummæli: