miðvikudagur, 13. apríl 2011

KÆRI JULIAN


Við erum jafngamlir og erum af þessari skrýtnu X-kynslóð sem hefur gert meira gott en slæmt og af slíku geta ekki margar kynslóðir státað. Langaði að senda þér smálínu – lítið bréf – og það væri gaman að fá að hitta þig einn daginn. Ég ber mikla virðingu fyrir þér.

Ég skrifa þessi orð til að hvetja þig áfram – hvetja þig eindregið til að gefast ekki upp þótt mótlætið sé mikið um þessar mundir. Það er án efa erfitt að berjast við ósýnilegan andstæðing sem og sjálfan sig en þú verður að halda áfram – og þú gerir það. Ég er viss um það.

Það sem þú hefur gert með birtingu allra þessara gagna er að sýna fram á að hið dimma og dökka vald er ekki lengur öruggt í sínu kalda skjóli. Þú ert búinn að hræða valdið en munurinn á þeim sem það hafa gert áður og þér er tíminn og tæknin. Áður var auðveldara að ná taki á andstæðingnum og fella hann án þess að það væri áberandi. Nú sér fólk æ betur að valdið ósýnilega er ekki ósigrandi, heldur frekar að komið að fótum fram því óttinn hefur læst sig um það. Valdið hefur nýtt sér óttann hjá fólki hingað til og mun reyna það svo lengi sem það getur en nú hefur taflið snúist við – og það er ekki síst þér að þakka.

Þó að á þig verði áfram ráðist máttu vita að það er ótrúlega mikill fjöldi af fólki sem er tilbúinn að koma í þinn stað – og þá meina ég ekki að fólk vilji taka þitt pláss – heldur frekar halda áfram þínu starfi verði þér það af einhverjum ástæðum ekki kleift. Því máttu treysta.

Mig langar bara í lokin að biðja þig um að fara varlega, svona stundum. Ekki láta veikleika þína verða þér að falli – renndu frekar upp eða settu öryggið á oddinn. Þú veist mætavel að ef þér verður á, verður það notað gegn þér af fullri hörku og vægðarleysi; valdið þekkir ekkert annað og veit hvað virkar. Þú veist líka hvað virkar, það sem þú ert að gera virkar, virkar vel á heiminn og mig.

Þinn
Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 52. tbl., 2010, 23. des.)

Engin ummæli: