þriðjudagur, 19. apríl 2011

DRAUMALANDIÐ: VG + BESTI = MÖGULEIKI



Íslendingar hafa alltaf verið heppnari með tónlistarmenn en stjórnmálamenn – miklu heppnari. Í gegnum tíðina höfum við átt ótrúlegan fjölda af frábæru tónlistarfólki sem hefur skapað risastóran fjársjóð sem við sækjum í aftur og aftur. Hér þarf ekki einu sinni að nefna nöfn. Það sama er ekki hægt að segja um stjórnmálamenn; það fólk sem hefur náð langt á sviði stjórnvalda í gegnum söguna á Íslandi hefur sjaldan haft mikið til málanna að leggja og skilið lítið eftir sig annað en sviðna jörð. Enda hefur það verið svo að Íslendingar þeir sem sótt hafa í stjórnmálin hafa langflestir keppst við það af mikilli hörku og útsjónarsemi að skara eld að eigin köku og árangurinn í þeirri ógöfugu íþrótt oft og tíðum verið framúrskarandi en þjóðin hefur hins vegar setið eftir með sárt ennið. Og gerir enn.

En það er alltaf von og þótt ég hafi nefnt það áðan að ekki þurfi að minnast á neinn ákveðinn tónlistarmann vegna mikils fjölda þeirra sem skarað hafa fram úr, verð ég þó að minnast á lagið Draumalandið eftir Sigfús Einarsson sem er eitt það fegursta sem Íslendingur hefur samið, eitt það fegursta sem ég hef heyrt. Í því lagi finn ég alltaf von þegar andlega ljósið er ekki nægilega sterkt. Og síðast þegar ég hlustaði á þennan íslenska gimstein fylltist ég von og fékk hugmynd varðandi íslensk stjórnmál og það fólk sem er þar.

Hún er svona:

Að Vinstri grænir og Besti flokkurinn sameini krafta sína því þarna eru á ferð einu stjórnmálaflokkarnir á Íslandi, að mínu mati verð ég að sjálfsögðu að taka fram, sem hugsa meira um hag fólksins í landinu en sinn eigin. Þeir eru báðir mistækir, brokkgengir, en vilja vel og sameinaðir myndu þeir stjórna vel. Þarna er á ferð hugsjónafólk. Vinstri grænir vilja ekki selja landið burt fyrir skjótfenginn gróða og þeir horfa til Skandinavíu og norræna velferðarkerfisins sem þar er að finna. Í Besta flokknum er að finna hugmyndaríkt og frjótt fólk sem hafnar úreltum starfsaðferðum þeirra sem voru fyrir og vilja, hafa og munu brjóta blað í sögunni varðandi hugsun stjórnmálamanna – að þeir séu í raun að vinna fyrir fólkið, vinna með því, en ekki að reyna að koma sem flestum flokksfélögum á spena eða hanga á embættum sínum eins og hundar á roði. Ég treysti þessum flokkum til að falla ekki í græðgis- og spillingargryfjuna sem flestir aðrir flokkar hafa fallið í, lítið kvartað yfir og lítið reynt að krafsa sig þaðan upp.

Lagið Draumalandið er fallegt og textinn við það, eftir Jón Trausta (sem hét reyndar Guðmundur Magnússon), er ekki síðri. Þarna er allt að finna og það held ég að Vinstri grænir og Besti flokkurinn viti best af flokkunum hér á landi. Við getum alveg gert titil þessa lags að veruleika ef við hættum að hugsa bara um okkur sjálf og förum að standa saman sem eitt og gerum þannig lífið betra og skemmtilegra eins og Séð og Heyrt gerir einmitt í viku hverri.

Ó, leyf mér þig að leiða / til landsins fjalla heiða / með sælu sumrin löng.
Þar angar blómabreiða / við blíðan fuglasöng.
Þar aðeins yndi fann ég, þar aðeins við mig kann ég,
þar batt mig tryggðarband, því þar er allt sem ann ég.
Það er mitt draumaland.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 1. tbl. 2011)

Engin ummæli: