laugardagur, 12. janúar 2019

Eins árs gamall Texti - til hamingju með daginn Texti

Það er gott að Aron er ekki með: Hugleiðingar um handbolta
Enn eitt stórmótið í handbolta karla hafið, og við Íslendingar með, enn eina ferðina. Ég veit ekki hversu mörg stórmót við höfum farið á í heildina, enda eru stórmót í handbolta haldin árlega (síðan 1994) og fjórða hvert ár eru þau tvö.
Þetta er alltof mikið af mótum.
Nú er það HM í Frakklandi, og ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hefur áhuginn á stórmóti í handbolta þar sem karlalandsliðið er þátttakandi verið minni, og aldrei hafa væntingar verið eins litlar. Þetta eru breyttir tímir.
Einu sinni (fyrir ekki langalöngu) var íslenskt samfélag nánast heltekið þegar karlalandsliðið var að spila á stórmóti - skipti engu hvort það var HM, EM eða ÓL. Stuðningsmenn fylltu yfirleitt nokkrar vélar og strákarnir gátu alltaf treyst á góðan stuðning úr stúkunni og áhorf á leiki liðsins í sjónvarpinu var með mesta móti.
Árangur liðsins í gegnum tíðina hefur verið upp og ofan, eitt silfur, eitt brons, tvisvar-þrisvar í undanúrslit, fimmta sætið, sjötta sætið - og stundum þar fyrir neðan. Í heildina hefur árangurinn verið mjög góður þegar litið er til hinnar frægu smæðar Íslands, og margir stórkostlegir sigrar unnist.
En hvað hefur breyst? Af hverju er áhuginn núna svo lítill að ekki náðist að fylla eina rellu til Frakklands? Það er nánast enginn að tala um handbolta að neinu ráði, jú, vissulega er fylgst með úr fjarlægð og horft með öðru auganu, en ekki meira en það (þetta mun auðvitað breytast ef landsliðið stendur sig vel).
Þær eru nokkrar ástæðurnar fyrir minnkandi áhuga á handboltalandsliði karla, og þær ástæður haldast í hendur við minni væntingar.
Núna eru liðin 23 ár frá því að byrjað var að halda árlega stórmót (og rúmlega það). Auðvitað var ástæðan fyrir þessari fjölgun stórmóta sú að reyna að auka vinsældir þessarar litlu en skemmtilegu íþróttagreinar - fá meiri umfjöllun og allt það.
En nú er alveg komið nóg, og það er töluvert síðan komið var nóg.
Svona mörg stórmót í svona langan tíma gengisfella vægi þeirra einfaldlega; þegar svona stuttur tími er á milli stórmóta minnkar tilhlökkunin og einnig löngunin í að komast á þau - sérstaklega hjá leikmönnum sem eru komnir með reynslu og hafa upplifað stórmót oft og mörgum sinnum.
Ég held að ég geti fullyrt að langflestir handboltamenn myndu velja að komast á ÓL frekar en HM eða EM. Auðvitað eru Ólympíuleikarnir stærsta íþróttahátíð/mót heims, sem hefur auðvitað mikið að segja, en hitt skiptir líka miklu, það eru einfaldlega haldin svo mörg stórmót að mönnum hættir einfaldlega að hungra eins mikið í þau og hér áður fyrr. Og þessu þarf að breyta - það þarf að fækka stórmótum, ég held að flestir sem fylgjast með handbolta taki undir þetta.
Það er ekki bara að áhuginn minnki með fleiri mótum heldur hefur álag á landsliðsmenn vegna þessara móta aukist svo mikið að það kemur niður á þeim sem atvinnumönnum. Við megum einna verst við því, enda breiddin eðlilega ekki eins mikil hjá okkur og stórþjóðum.
Of mikið af einhverju í of langan tíma gengur ekki upp, veldur ógleði en ekki gleði. Áhuginn minnkar, getan minnkar og væntingarnar hverfa nánast. Hér þarf ekki viagra - hér þarf að fækka ferðunum en gera þær betri í alla staði.
En það er líka meira.
Ótrúlegur uppgangur karla- og kvennalandsliðsins í fótbolta hefur mikið að segja um dvínandi áhuga á handbolta. Íslendingar hafa nú upplifað það nokkrum sinnum að stelpurnar hafa komist á stórmót og í sumar spiluðu strákarnir síðan á sínu fyrsta stórmóti.
Fótboltinn er ferskur og hundrað og fimmtíu sinnum stærri íþróttagrein en handbolti. Svo hefur karlalandsliðið í körfubolta slegið í gegn og er bráðum á leiðinni á sitt annað stórmót. Þetta er eitthvað nýtt fyrir okkur Íslendinga. Þetta er eitthvað sem við áttum einfaldlega ekki von á. Handboltinn var aðal og við vorum ekkert spes í fótbolta og körfu. Breyttir tímar, en við erum samt ennþá góðir í handbolta. Samkeppnin er bara orðin miklu meiri en áður.
Langflestir myndu miklu frekar vilja panta sér far á stórmót í fótbolta eða körfubolta eins og staðan er í dag - það er alveg augljóst, það tókst ekki að fylla vél til Frakklands núna í janúar, en í sumar sem leið fóru svo margar stútfullar vélar til Frakklands að horfa á karlalandsliðið í fótbolta spila að það var með algerum eindæmum - aldrei hefur eins hátt hlutfall einnar þjóðar skroppið til útlanda að horfa á landslið spila. Aldrei. Áhuginn á fótbolta og körfubolta hér á landi er einfaldlega orðinn mun meiri en áhuginn á handbolta.
Svo eru líka handboltalegar (veit ekki með Þetta orð) ástæður fyrir þessu:
Eftir að hápunkti handboltasögunnar, hingað til (liðið þá undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar), var náð með silfrinu í Kína 2008 og bronsinu í Austruríki 2010, hefur leiðin að mestu legið niður á við.
Aron Kristjánsson tók við af Guðmundi Guðmundssyni og náði góðum árangri á einu móti en var svo í frjálsu falli með liðið næstu tvö mót á eftir. Aron var ekki rétti maðurinn til að taka við af Guðmundi. Aron er mjög góður þjálfari, kraftmikill, agaður, skapstór og hefur ástríðu fyrir þjálfarastarfinu. En honum hentaði greinilega ekki að vera með landsliðið, það er augljóst þegar árangur hans með félagslið og landsliðið er borinn saman. Hann hefur náð, og er að ná, frábærum árangri sem þjálfari hjá félagsliði, en var hreinlega eins og skugginn af sjálfum sér sem landsliðsþjálfari; hann þarf stöðugt að vera í baráttunni; stöðugt að spila og það að kalla saman landslið einu sinni á ári var einfaldlega ekki að gera honum gott sem þjálfari - var líklega ekki nóg fyrir hann. Honum tókst alls ekki að mynda nægilega góða liðsheild, en aðalmálið var hins vegar að honum tókst ekki að endurnýja landsliðið - hverju sem um var að kenna (eflaust margar ástæður).
Aron hefði þurft að gera eins og Viggó Sigurðsson gerði þegar hann tók við landsliðsþjálfarastöðunni árið 2004 - hann bjó til nýtt landslið; nýtti það góða sem var til staðar og kastaði því út sem ekki var lengur nothæft. Slíkt verður að gera nokkuð reglulega og tímasetningin verður að vera eðlileg. Viggó var einfaldlega með góða yfirsýn og mikinn skilning auk þess sem hann treysti leikmönnum sem hann valdi, og hann valdi þá með það að leiðarljósi að láta þá spila og verða betri á skömmum tíma. Og það tókst. Með þessu lagði Viggó upp í hendurnar á Alfreð Gíslasyni og Guðmundi Guðmundssyni jafnbesta íslenska handboltalandslið sögunnar. Alltof margir eru búnir að gleyma þessum mikilvæga þætti Viggós.
Eftir að Aron hætti sem landsliðsþjálfari tók við löng leit. Geir Sveinsson var svo ráðinn sem þjálfari liðsins, og nú fer að koma í ljós hvort hann er rétti maðurinn eða ekki.
Ég fór ekki leynt með þá skoðun mína að við hefðum ráðið næstbesta þjálfarann sem var á lausu - ég vildi sjá Kristján Arason taka við liðinu, en hann tel ég vera jafnbesta þjálfara sem við höfum átt, og set ég hann hiklaust í flokk með Alfreð Gíslasyni, Guðmundi Guðmundssyni, Viggó Sigurðssyni og Degi Sigurðssyni. Bakka ekkert með þessa skoðun.
En Geir er góður þjálfari, hefur náð ágætis árangri, en ekki ennþá sýnt fram á að hann sé mögulega efni í heimsklassaþjálfara. Vonandi verður hann það og tekur íslenska landsliðið aftur upp á þann stall sem það eitt sinn var á. Það gæti alveg gerst - það er ekkert útilokað, en kemur fljótlega í ljós. Geir fær allavega tvö eða þrjú stórmót nema eitthvað stórkostlega slæmt gerist.
Að lokum ætla ég að segja að mér létti mikið þegar ég heyrði þær fréttir að Aron Pálmarsson yrði ekki með á HM vegna meiðsla. Hljómar kannski skringilega, en ekki þegar nánar er að gáð.
Það gengur ekki að láta jafnbesta leikmann heims spila meiddan á stórmóti - það er slæmt fyrir Aron, það er slæmt fyrir landsliðið og það er slæmt fyrir félagslið Arons. Það er alltaf slæmt og hreinlega rangt og heimskulegt að láta meidda leikmenn spila. Aron þarf hvíld eigi ekki að fara eins fyrir honum og öðrum snillingi, Loga Geirssyni. Álag og pressa í kringum stórmót með landsliðinu í bland við langt og strangt keppnistímabil getur snúist upp í martröð sína og það vill enginn að Aron leggi skóna á hilluna fyrir þrítugt. Aron kemur aftur sterkari en nokkru sinni fyrr. Hann þarf bara hvíld.
Svo er þetta spurning um viðhorf og sjónarhorn; ef einhver dettur út kemur annar í staðinn. Þegar lykilmaður eða jafnvel lykilmenn detta út táknar það í raun ný tækifæri fyrir aðra leikmenn til að sýna sig og sanna. Það þýðir ekkert að festast í einhverju væli um að þennan eða hinn vanti, það er núið sem gildir og góður þjálfari vinnur einfaldlega úr aðstæðum hverju sinni með bros á vör; hann leggur traust sitt á alla í hópnum og skapar metnaðarfulla liðsheild þar sem trú á eigin getu er leiðarstefið, ásamt gleðinni. Geir getur það alveg.
Íslenska landsliðið á eftir að spjara sig betur á HM núna en fólk reiknar almennt með. Kannski af því að flestir reikna ekki með neinu. En það hefur gjarnan hentað okkur Íslendingum að vera vanmetnir, og ef illa gengur á undirbúningstímanum (eins og núna) fylgir yfirleitt góður árangur þegar út í alvöruna er komið. Vonandi gerist það núna. Vonandi.

Engin ummæli: