Gaflaraleikhúsið hefur vakið athygli fyrir sýningar sínar og starfsemi undanfarin ár. Framkvæmdastjóri leikhússins er Lárus Vilhjálmsson og Gaflari settist niður með honum til að ræða starfsemina sem óhætt er að segja að sé viðamikil, fjölbreytt og verður sífellt öflugri.
"Gaflaraleikhúsið hóf síðasta leikár á sama tíma og Hafnarfjarðarbær gerði nýjan þriggja ára samning við leikhúsið, og Gaflaraleikhúsið tók algerlega yfir rekstur húsnæðisins, greiðslu leigu, hita og rafmagns frá Fasteignafélagi Hafnarfjarðarbæjar. Styrkur til félagsins var því hækkaður í samræmi við þann kostnað sem bærinn hafði borið af húsnæðinu. Leikhúsið sótti um samstarfssamning við Mennta og menningarráðuneytið í gegnum Leiklistarráð í september og það var mikil ánægja meðal Gaflara þegar gerður var tveggja ára samstarfsamningur við leikhúsið í febrúar 2015, sem tryggir tíu milljón króna framlag á ári til verkefna á samningstímabilinu. Þetta sýnir mikla viðurkenningu á listrænu starfi Gaflaraleikhússins síðustu ár og setur það í fremstu röð sjálfstæðra atvinnuleikhópa á Íslandi."
Lárus er ánægður með síðasta leikár. "Eftir frábært gengi Unglingsins á Grímunni, íslensku leiklistarverðlaununum, þar sem sýningin fékk tilnefningar fyrir Barnasýningu ársins og Sprota ársins, var Framtíðardeild leikhússins sett formlega á laggirnar í október með sýningunni Heila, Hjarta, Typpi. Var hún sýnd við ágæta aðsókn í haust. Æfingar hófust á sýningunni Konubörnum í október og var hún frumsýnd í janúar. Hún fékk frábærar viðtökur og var komin í sextán sýningar og þrjú þúsund áhorfendur þegar sýningum lauk í vor. Í nóvember var hafist handa við æfingar á Bakaraofninum eftir þá Gunnar Helgason og Felix Bergsson og var sýningin frumsýnd í lok febrúar 2015. Sýningin vann strax hug og hjörtu áhorfenda og þegar sýningum var hætt í apríl voru tólf sýningar að baki og tvö þúsund áhorfendur. Á Grímunni hlaut Bakaraofninn tilnefningu sem Barnasýning Ársins."
Það er mikið líf í kringum Gaflaraleikhúsið og gestir skipta þúsundum. "Það er vinsælt að vera með danssýningar og danskeppnir í leikhúsinu, og það var einnig leigt út til leikhópa. Við fengum einnig erlenda leikhópa í heimsókn og í september 2014 kom Menningarhús Wroclawborgar í Póllandi með einleik í heimsókn. Gaflaraleikhúsið er í samstarfi við Menningarhúsið um verkefnið „Ísland og Pólland gegn mismunun í listum“ þar sem blindum og sjónskertum er gert kleyft að njóta lista með sjónlýsingu. Leikfélag Hafnarfjarðar var með verk á fjölunum á síðasta leikári og setti upp leikritið Ubba Kóng í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Tónleikar og ýmsar uppákomur hafa einnig fengið rými í húsinu og gestir í húsinu á síðasta leikári voru liðlega ellefu þúsund."
Lárus segir mikinn metnað innan leikhússins. "Leikárið 2015-2016 byrjaði með menningarútrás: í byrjun júní var farið til Wroclaw í Póllandi þar sem Unglingurinn var sýndur fyrir blind og sjónskert ungmenni. Í ágúst fara unglingarnir síðan til Tianjin í Kína þar sem þeim er boðið að sýna á einni stærstu Listahátíð Ungmenna í heiminum. Í sumar hefur Gaflaraleikhúsið umsjón með listahóp Vinnuskólans sem ætlar að troða upp á hátíðum bæjarins og við skemmtiferðaskipin. Þau ætla líka að setja upp spunasýningu í leikhúsinu í ágúst. Í haust ætlar leikhúsið að halda áfram sýningum á Bakaraofninum og er stefnt að sýningum fram að áramótum, og einnig verður haldið áfram sýningum á Konubörnum. Stefnt er að frumsýningu nýs ungmennaverks í Framtíðardeildinni í október og heldur Björk Jakobsdóttir um taumana."
Í október hefjast æfingar á nýrri leikgerð Karls Ágústs Úlfssonar á „Góða dátanum Sveijk". sem verður í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, með Karli Ágústi í aðalhlutverki, og áætlað er að frumsýna verkið í janúar 2016. Þá hefur Gaflaraleikhúsið tryggt sér sýningarrétt á verðlaunasýningunni „White“ frá Catherine Wheels leikhúsinu í Skotlandi. "Verkið hefur farið sigurför um heiminn og er fyrir börn á aldrinum 2-4 ára; fjallar á skondinn og fróðlegan hátt með trúðslátum, tónlist og töfrabrögðum, um það hvernig heimurinn fær lit. Sýningin, sem er leikstýrð af Gunnari Helgasyni og með Ágústu Skúladóttur og Virginiu Gillard í aðalhlutverkum, verður frumsýnd í febrúar."
"Ýmislegt nýtt er í gangi," segir Lárus og bætir við: "Í fyrra gerði Gaflaraleikhúsið samning við Flensborgarskóla um að sjá um leiklistarkennslu, leikstjórn og uppsetningu á verki með nemendum skólans. Þetta verkefni er í fullum gangi og verður sýning skólans frumsýnd næsta vetur."
Fyrir tveimur árum tók Gaflaraleikhúsið þátt í umsókn til Menningarstyrkja Evrópska Efnahagssvæðisins (EEA sjóðnum) með Menningarhúsinu í Wroclaw í Póllandi, Bíó Paradís og Myndlistarskóla Reykjavíkur um verkefni sem heitir „Ísland og Pólland vinna á móti aðskilnaði í listum“ og fjallar um að sýna leikverk með hljóðlýsingu fyrir blinda og sjónskerta. "Verkefnið fékk þrjátíu milljón króna styrk frá EES sjóðnum og var fyrsta verkefnið sýnt í Bíó Paradís árið 2013. Gaflaraleikhúsið hefur á undanförnum árum myndað erlent tengslanet í gegnum þáttöku í Samtökum sjálfstæðu leikhúsanna og Assitej, samtökum leikhúsa fyrir unga áhorfendur. Gaflaraleikhúsið mun taka þátt í að skipuleggja Alþjóðaleikhúshátið Assitej á Íslandi í apríl 2016 á Barnamenningarhátíð í Reykjavík."
Lárus segir að á síðasta leikári hafi hafist nýtt tímabil atvinnuleikhúss í Hafnarfirði með frumsýningum á þremur nýjum íslenskum verkum. "Fjárhagsstaða leikhússins með stuðningi bæjaryfirvalda og samstarfssamningi við Mennta og Menningarráðuneytið gerir það loksins mögulegt að leikhúsið geti framleitt að minnsta kosti tvö verk á ári með þeim metnaði og gæðum sem sæmir atvinnuleikhúsi. Eins er nú loksins mögulegt að búa leikhúsið nútíma tæknibúnaði og plana framtíðina. Okkur finnst nú sem leikhúsið hafi náð þeim áfanga að taka sér sterka stöðu í leiklistarheiminum á Íslandi sem listrænn vettvangur og sem vinnustaður sviðsslistafólks. Okkur finnst einnig miða vel áfram í þeim markmiðum okkar að gera leikhúsið að leikhúsi bæjarbúa og hlúa að leiklistarupplifun og kennslu fyrir börn og ungmenni. Okkar aðalmarkmið er og verður að gera skemmtilegt og skapandi leikhús fyrir hafnfirðinga og nærsveitamenn. Það eru bjartir tímar framundan."
Engin ummæli:
Skrifa ummæli