sunnudagur, 20. mars 2011

BRÉF TIL LEIKARA


Fyrir ellefu árum var ég á leið heim til mín eftir ljúfan kvöldverð á veitingastað í miðbænum með konu minni sem þá var ófrísk að okkar fyrsta barni.

Þetta var vetrarkvöld, dimmt og kalt úti, snjókoma, rok og hálka.

Allt í einu stöðvast bíllinn okkar við umferðarljós á Hverfisgötunni og hann vill alls ekki fara í gang á nýjan leik, enda orðinn lúinn eftir langa ferð.

Út úr bílnum fyrir aftan okkur stekkur maður - ljúfmennskan uppmáluð og býður fram aðstoð sína; hjálpar mér að ýta sofandi bílnum upp á gangstéttina og spyr hvort við séum með síma, annars geti hann lánað okkur sinn. Þessi maður er landsfrægur leikari og er þarna eflaust að koma beint af sýningu í leikhúsinu neðar í götunni.

Ég segi honum að við séum bæði með síma og þakka honum kærlega fyrir aðstoðina, hún sé vel þegin.

Ég og konan mín hinkrum stutta stund í bílnum áður en leigubíllinn sem við hringjum á kemur og sækir okkur. Tölum um hvað fólk sé misjafnlega hjálpsamt og hvað maður sé alltaf þakklátur fyrir veitta aðstoð í erfiðum aðstæðum. Að fleiri mættu nú vera eins og þessi ljúfi leikari.

Mörgum árum síðar lágu leiðir mínar og þessa leikara saman en þá á allt annan hátt, á allt öðrum forsendum. Hann enn þá leikari en ég í hlutverki blaðamanns. Flest sem tengdist því máli var umdeilt, svo ekki sé meira sagt.

Þá gleymdi ég að þakka honum fyrir hjálpina ellefu árum áður, mundi það ekki fyrr en nú.

Allir geta gert mistök; lífið er fullt af þeim. Það er ekkert að því að viðurkenna þau og biðjast afsökunar; ég veit það nú.

Og oft má satt kyrrt liggja.

Svanur Már Snorrason

(Leiðari Séð og Heyrt, 42. tbl., 14. október 2010)

Engin ummæli: