miðvikudagur, 23. mars 2011
ER BOB DYLAN EINHVERFUR?
Las viðtal við leikstjórann Friðrik Þór Friðriksson, sem slegið hefur í gegn á nýjan leik hérlendis sem erlendis með kvikmyndinni Mömmu Gógó og heimildarmyndinni Sólskinsdrengnum, þar sem umfjöllunarefnið er einhverfa.
Í áðurnefndu viðtali vill Friðrik Þór meina að mesti skákmaður allra tíma, ásamt Garry Kasparov, Bobby Fischer, hafi verið einhverfur. Hann nefndi einnig tónlistarmanninn Bob Dylan; að ýmislegt í fari hans bendi til einhverfu.
Hvað ætli hefði gerst hefðu þessir tveir risar á sínu sviði fengið greiningu og meðferð á ungaaldri? Hvernig persónuleikar hefðu þeir orðið? Gaman að velta því fyrir sér.
Ekki misskilja mig, framfarir í læknavísindum eru hið besta mál, en það er mitt mat að við eigum að fara varlega í greiningum á ungum börnum og leyfa persónuleikum þeirra að þróast og þroskast þótt þeir séu kannski aðeins öðruvísi eða sérstakari en þeir sem normin best fylla. Við eigum að hugsa málið vandlega áður en börn eru sett á lyf.
Það er ánægjulegt að fylgjast með sögunni af drengnum í heimildarmynd Friðriks Þórs – hvernig hann tekur framförum, og frábært að þeir sem eru virkilega mjög einhverfir, en eru ekki einungis með einkenni einhverfu, fái þá hjálp sem þeir eiga skilið og auðgar líf þeirra.
En ekki hefði ég viljað að Bob Dylan hefði verið öðruvísi en hann er. Þá væru kannski lög eins og Stuck Inside of Mobile with the Memphis Blues Again, Jokerman og Lay Lady Lay ekki til. Og þó að ég ætli frænda mínum, Kjartani Sveinssyni, og félögum hans í Sigur Rós ekki einhverfu, er þó margt galnara en að þeir séu með snert af henni; í það minnsta er eitthvað öðruvísi við þá hljómsveit en nokkra aðra í alheimi, sem hefur gert það að verkum að þeir hafa búið til alla þá dásamlegu tóna sem þeir hafa gert. Og þannig, eins og Bobby Fischer og Bob Dylan, gert með sköpun sinni lífið skemmtilegra.
Svanur Már Snorrason
(Leiðari Séð og Heyrt, 43. tbl., 21. október 2010)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli