föstudagur, 18. mars 2011
KRAFTUR ALMENNINGS
Það var mögnuð tilfinning að ganga um Austurvöll á mánudagskvöldið, þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu sína, og skynja og bókstaflega sjá þunga undiröldu almennings í landinu brjótast upp á yfirborðið í annað sinn á tæpum tveimur árum.
Í Búsáhaldabyltingunni var markmiðið að koma ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá, og það tókst á skömmum tíma.
Við tóku Vinstri-grænir og höfðu með sér Samfylkinguna og sú ríkisstjórn hefur haft eitt og hálft ár til að taka rækilega til hendinni. Mótmælin á mánudagskvöldið segja með áþreifanlegum hætti að sú tiltekt hafi ekki tekist sem skyldi, og reyndar langt frá því, og almenningur vill breytingar; núverandi stjórn burt og að öll áhersla verði lögð á að hjálpa almenningi en ekki bönkunum og öðrum lánastofnunum.
Og er það líka eðlileg krafa – hin svokallaða skjaldborg sem slá átti um heimilin er hvergi sjáanleg og hefur aldrei verið sjáanleg. Frekar mætti tala um verndun lánastofnana, jafnvel friðun. Og það er einfaldlega eitthvað mikið rangt við það.
Þegar núverandi ríkisstjórn fer frá og ný tekur við völdum verða vonandi sömu leikendurnir og voru á stóra sviðinu á Alþingi fyrir hrun á bak og burt. Fólk með spillingarstimpil úr viðskiptalífinu á ekki að koma nálægt stjórn landsins frekar en þeir sem voru í ríkisstjórn fyrir hrun. Það er eðlileg og skýlaus krafa og í takt við það sem maður skynjaði í mótmælunum á Austurvelli þetta fallega mánudagskvöld.
Þegar fólkið í landinu rís upp getur engin ríkisstjórn haldið því niðri. Kraftur almennings er töfrum líkastur, loksins þegar hann spyrnir við fótum og þá fara stjórnmálamennirnir fyrst að hlusta og gera lífið aðeins betra og skemmtilegra, eins og við á Séð og Heyrt leggjum svo mikla áherslu á.
Svanur Már Snorrason
(Leiðari Séð og Heyrt, 41. tbl., 7. október 2010)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli