sunnudagur, 19. október 2008

Loftið var tært

Steig í vitið í dag. Var skemmtileg gönguferð í góðu veðri með syni mínum sem talaði um heima og geima á meðan við mættum hundum og köttum og töluðum í risastóran listaverkasíma sem var þó ekki í sambandi. Kipptum okkur ekkert upp við það þarna á Víðistaðatúni heldur héldum ótrauðir áfram upp göngustíginn og komum við í Samkaup og keyptum Púkanammi, sem Valur Áki át með bestu lyst, en einnig kanilsnúða sem ég hitaði í örbylgjuofninum hjá Rúnu ömmu. Og allir voru sáttir. Héldum svo út á róló og þá voru Elísa og Ólöf með. Eltingarleikur, og rólað á fullu. Ég er með strengi í aftanverðunum lærunum. Góður dagur.

1 ummæli:

Hjalti sagði...

Hljómar snilldarlega. Verst náttúrlega með hauskúpunammið, það er eiginlega hætt að fást í Samkaup. Og ég sem gerði mér sérferð þangað um daginn til að kaupa mér hauskúpunammi. Fattaði ekki að ég hefði getað bætt mér það upp með púkanammi. Annars get ég aldrei stigið fæti inn í Samkaup án þess að það rifjist upp fyrir mér augnablikið þegar ég og Atli bróðir vorum þar eitt sinn sem snáðar (þetta var árið sem fyrri rokklingaplatan kom út, og þá hét búðin Miðvangur). Við stóðum drykklanga stund fyrir framan tónlistarrekkann, hlógum og grínuðumst að rokklingaplötunum sem við handlékum óhikað og fannst ýkt hallærislegar (þetta var reyndar áður en "ýkt" komst inn í málfar ungs fólks). Þegar við svo gengum út úr búðinni kom askvaðandi búðarkona sem stoppaði okkur og leitaði innan í úlpum okkar og í öllum vösum. Var handviss um að við værum að stela, enda hafði búðarþjófnaður verið vaxandi vandamál þann áratuginn, einkum á kexi og svala (stundum hárlakki). Ekkert fannst eftir nokkurra mínútna lúsarleit og við vorum ekki einu sinni beðnir afsökunar. Hef ég rifjað þessa sögu upp áður á þessu méli? Fyrir nokkrum vikum lærði ég að Hanna Birna Kristjánsdóttir hefði verið að vinna í Miðvangi á umræddum tíma, og þegar ég hugsa um það mjög stíft þá er ég ekki frá því að þetta gæti hafa verið hún.