Sverrir, ég bað þig um að fara út með ruslið fyrir hálftíma. Það er liðinn klukkutími síðan ég bað þig að taka úr þvottavélinni og skella þvottinum í þurrkarann. Sverrir, þú hlýðir engu. Viltu ekki hlýða?
Sverrir, er lengi til svars, en síðar um kvöldið ákveður hann að svara konu sinni með tölvupósti: Nei, ég vil ekki hlýða, það er svo leiðinlegt og niðurlægjandi. Ég vil frekar lesa góða bók, helst ljóðabók eftir Sigurð Pálsson. Hann er uppáhalds ljóskáldið mitt. Uppáhalds íslenska ljóðskáldið mitt. Uppáhalds útlenska ljóðskáldið mitt er Walt Whitman. En uppáhaldsljóðaþýðandinn minn í öllum heiminum er Magnús Ásgeirsson.
Jæja, jæja, var það eina sem heyrðist í konu Sverris þegar hún var búin að lesa tölvupóstinn frá honum. Svo fór hún að ryksuga því saumaklúbburinn var að koma í heimsókn eftir þrjár klukkustundir og þrjá stundarfjórðunga.