miðvikudagur, 25. júní 2008

Silfurramminn

Gekk niður brekku sem virtist engan endi ætla að taka. Tölti síðan upp hlíðina sem var í sömu götu en það tók langan tíma eftir allan niðurgang brekkunnar. Efst á hlíðinni fann ég illa farið tímarit - gulnað og vel máð. Fletti því og fann þar mér til mikillar furðu grein eftir sjálfan mig. Grein sem ég hafði ekki lesið áður, fannst hún góð. Þetta getur maður, hugsaði ég upphátt. Næsta hugsun (ekki upphátt) var á þá leið að ég ætti kannski oftar að fara í göngutúr. Ég samþykki þessa hugsun en um leið og ég geri það kemur vindhviða og feykir gulnaða og máða tímaritinu út í buskann. Ég reyni að hlaupa á eftir því en finn strax að ég er orkulaus eftir allt labbið og hætti samstundis öllum tilraunum til að fanga tímaritið. Oh, ég sem vildi eiga þetta tímarit og monta mig af greininni sem ég reit í það. Jæja, ég verð þá bara að sýna fólkinu mínu greinina um stelpuna sem fór með blóm í brúðkaupið hans Bubba. Eða um leikhúsparið sem er bæði nýhætt saman og nýbyrjað saman. Og svo börnuðu þau hvort annað. Ég tók líka ljósmynd af þeim í gegnum símann af afloknu viðtalinu og ætla að ramma hana inn í silfurramma sem ég keypti í Stefánsblómum fyrir mörgum árum síðan. Hvar ég hengi myndina upp er ég ekki alveg viss um en hún á skilið að vera hengd upp. Eruð þið með einhverjar tillögur?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er fólk ekki búið að fá nóg af þessu rugli.Gulnað tímarit? Stefánsblóm? Hvernig stendur á því að maður les aldrei neitt af viti á þessari síðu. Ég hef reynslu af lestri margra viðlíka síðna. Á flestum þeirra er verið að ræða eitthvað sem fólki finnst skipta máli. Stóriðjuofforsið. Hrun krónunnar. Verkfall flugumferðarstjóra. Ofurlaun lækna. Ofsóknir á hendur hjúkrunarfræðingum. Álvæðing Össurar. Dráp ísbjarnanna. Gengisfelling menntunar. Rándýrt framhaldsnám röntgenlækna. Áhrif bankanna og Landsvirkjunar í ríkisstjórn. En hér birtist þá bara frásögn af einhverjum manni sem fer á röltið og verður orkulaus og spyr þá lesandann hvort hann hafi einhverjar tillögur um upphengingu myndar í silfurramma sem hann keypti í Stefánsblómum. Ég gat bara ekki orða bundist. Kveðja, Bjarni Helgason [dulnefni].

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála Bjarna. Fólk er algerlega búið að fá nóg af þessu þvaðri. Er ekki hægt að ræða mál sem skipta einhverju af skynsemi? Kveðja, Ingimundur Jónsson [einnig dulnefni].

Hjalti sagði...

Stefánsblóm voru með opið allan sólarhringinn ef ég man rétt, þannig að ef mann bráðvantaði silfurramma og klukkan var tvö um nótt var málinu auðreddað. Verst samt með greinina sem fauk, ég hefði gjarnan viljað glugga í hana. Þess má þó geta að gullið, hesturinn og vagninn eru nú loksins komin á varanlegan stað uppi á vegg.