miðvikudagur, 30. apríl 2008
Girl From The North Country
Trén eru alltaf að færast nær. Ég færist fjær. En ekki alltaf. Hef alltaf gaman af samræðum við skemmtilegt fólk. Vil ekki af þeim missa. Missi þó oft af þeim því ég er svo oft heima og mér leiðist yfirhöfuð að tala í síma. Undantekningar á því. Stundum er allt að gerast - allt í virkni - stundum er allt stopp og maður getur ekkert að því gert - allt í óvirkni. Sumir dagar eru dagar virkni og óvirkni en eru í raun allir dagar þegar þú hugsar til baka. Rennur oft saman í einn grjónagraut með fullt af kanilsykri og rúsínum. Stundum lifrarpylsu. Ekki slæmt. En ég og þú, tortímendurnir sjálfir, veigrum okkur ekki við að líta framhjá fullt af hlutum. Og sjáum það sem við viljum sjá. Höldum að við séum á réttri leið og ekki allir eins vissir og við. Sumir vita betur en vita samt ekki neitt. Eru fangar eigin fávisku en var ekki gefið að sjá sig sjálfa með augum annarra. Fátt er fólki hollara en að sjá sig sjálft með augum annarra. Ef þið getið það - látið vaða - þið græðið mjög mikið - andlega og líkamlega - á því að sjá ykkur með augum annarra. Og ekki taka of mikið mark á fólki þótt það meini vel. En taktu mark á fólki sem segir þér eitthvað af viti, hvort sem það meinar vel eða ekki. Það er til fólk sem elskar sjálft sig svo mikið að jafnvel eigin afkvæmi þess eru bara númer tvö eða jafnvel enn neðar. Það er til fólk sem gerir sér enga grein fyrir því hversu gott það hefur; getur ekki borið líf sitt við líf annars fólks hér á þessari jörð sem er að svelta heilu hungri og lifir varla af þessa setningu. Góðmennska er ekki bara tengd við eigin afkvæmi, stundum, og því miður alltof oft, er það ÉG sem allt snýst um. Og ég er ekki að tala um mig. ÉG er fólk sem á erfitt með að sætta sig við að það sé ekki í raun sólin sem snúist um það - ekki jörðina - hún er bara aukatriði. ÉG er að tala um að sólin snúist í kringum MIG. Hvernig er hægt að elska nokkurn meira en eigin afkvæmi? Það er ekkert til í þessu ágæta og skapandi jarðlífi sem er þess virði að elska meira en eigin afkvæmi. Sú ást er ekki til sem er dýpri og meira gefandi en sú sem þú berð til eigin afkvæma. Hún er sú sem drífur þig áfram og gefur þér fyllingu. Ást makans er mikil og ég er ekki að gera lítið úr henni en hún er ekki með þessum hætti sem afkvæmin gefa af sér. Lífið er svo mikið. Lífið er allt draslið og ég held að sjálft lífið fyrirlíti væmni og tilgerð og fals um að það sé æðislegt. Lífið er allur skalinn en það að eignast börn er fyllingin og skilningurinn á því að það verði að halda áfram. Love Of My Live með Queen er ágætur endir á þessum pistli. Kíkið á það lag á youtube.com. Það fjallar um ástir samkynhneigðs karls og gagnkynhneigðrar konu. Fjallar um lífið. Fyllingu lífsins.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Get nú ekki sagt að ég deili andúð þinni á símtölum, mér þykja þau reyndar hin dægilegasta skemmtun. "Hringdu ef þú hefur síma", segir í einhverju lagi frá þeim tíma þegar Bubbi var bara byrjendakapítalisti. Ég tek mark á þessum orðum Bubba, verst bara með símann, ég á engan síma nema gsm-síma, og það getur verið kostnaðarsamt að blaðra lengi í hann. Ætla að drífa mig fljótlega í Góða hirðinn og kaupa mér notaðan heimasíma. Ég lofa að hringja þegar hann er kominn í samband, við getum þá spjallað um lífið og allt draslið en æ ég gleymdi því þér leiðast símtöl.
Ekki öll símtöl. Kv, Svanur
Skrifa ummæli