laugardagur, 12. apríl 2008

Minningar & músík VI

Laugardaginn 5. apríl, 2008 - Menningarblað/Lesbók Mbl.
Poppklassík: Eftir Svan Má Snorrason
sms@utopia.is

Algleymi án aukaverkana

Íslenska hljómsveitin Soma gaf út sína fyrstu og einu plötu árið 1997 og bar hún nafnið Föl. Nokkur lög af henni fengu spilun í útvarpi og þá sérstaklega Grandi Vogar 2 sem heyrðist ótt og títt sumarið þetta sama ár og var alveg þrælgott og grípandi. En það var miklu meira spunnið í þessa hljómsveit en þetta eina vinsæla lag.

Föl með hljómsveitinni Soma er verk sem undirituðum finnst hafa týnst eftir að það kom út fyrir ellefu árum sé mið tekið af þeirri músík sem heyrðist hvað mest á þessum tíma. Og kannski fannst verkið aldrei. Föl er meira en prýðileg áheyrnar og hefði átt skilið að fara víðar og heyrast meira en hún gerði. Fékk gripurinn til að mynda góða dóma í Morgunblaðinu hjá Árna Matthíassyni tónlistargúrú.

Nafn hljómsveitarinnar er fengið úr hinu útópíska skáldverki Aldous Huxley Veröld ný og góð (Brave New World) en þar er Soma heiti á algleymislyfi sem er dreift til almennings með samþykki yfirvalda. Hver tafla framkallar þægilegt algleymi án sérstakra aukaverkana – nema þeim að halda skoðunum og viðhorfum almennings niðri. Hvort það sé aukaverkun eða ekki verður hver að gera upp við sjálfan sig.

En aftur að hljómsveitinni Soma. Hana skipuðu Guðmundur Annas Árnason söngvari, Snorri Gunnarsson gítarleikari, Halldór Sölvi Hrafnsson gítarleikari, Þorlákur Lúðvíksson hljómboðsleikari, Kristinn Jón Arnarson bassaleikari og trommuleikarinn Jónas Vilhelmsson.

Tónlist Soma er á stundum nokkuð þunglyndisleg en án þess þó að vera niðurdrepandi. Það er stutt í rokkið og áttu þeir félagar auðvelt með að keyra upp alvöru rokk og fara þaðan niður í dökkbláan dapurleikann. Hygg ég að meðlimir hafi tekið sig og tónlist sína nokkuð alvarlega, enda kunnu þeir meira en vel til verka. Voru aldrei leiðinlegir eða tilgerðarlegir, metnaðurinn mjög mikill og þeir Somadrengir sýna á Föl að þeir gátu margt.

Þótt undiraldan sé þung er spilamennskan til fyrirmyndar. Söngurinn er mjög góður og ég er hissa, jafnvel svekktur að söngvarinn sé ekki þekktari en raun ber vitni. Guðmundur Annas er miklu betri söngvari en flestir þeir sem tröllriðu tónlistarsenunni árið 1997 og reyndar má segja að í heildina sé hann ekkert annað en fantagóður söngvari. Hann er með breitt raddsvið, er ófeiminn í tjáningu án þess að örli á stælum eða getuleysi földu í hljóðversgöldrum.

Það er líkt og hljómsveitin Soma hafi stokkið fram alsköpuð árið 1997 – algjörlega tilbúin í slaginn eins og glöggt má heyra á Föl. Í heildina eru lagasmíðar sterkar og fjölbreyttar, textarnir hins vegar misjafnir að gæðum og hefði hljómsveitin haft yfir að ráða góðum textahöfundi hefði Föl orðið frábært verk. Lög eins og Bram Stoker, titillagið og nokkur önnur geta ekki talist neitt annað en góðar tónsmíðar sem flestar hafa borið aldurinn vel. Útsetningar eru smekklegar og lausar við alla tilgerð.

Þeir sem myndu heyra tónlistina í dag og ekkert vita útgáfuár hennar myndu kannski segja að söngvarinn væri á vissum stöðum að herma eftir Magna Ásgeirssyni, söngvara Á móti sól. En þetta er nokkru áður en Magni slær í gegn og hins vegar ekki ólíklegt að Magni hafi hlustað á Soma og lært eitt og annað af Guðmundi Annasi.

Platan Föl með Soma er poppklassík þar sem finna má tónlist sem hefur staðist tímans tönn og hún er klárlega eitt af bestu byrjendaverkum íslenskrar rokkhljómsveitar.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já maður lærir alltaf einhvað nýtt þegar maður kíkir á bloggið hjá þér:)

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir það Harpa. Og virkilega gaman að heyra í þér. Kv, Svanur

Hjalti sagði...

Svanur er fróðleiksbrunnur. Fáum við ekki pistil um Aldous Huxley fljótlega?

Nafnlaus sagði...

Spurning um að ég reyni að tækla Huxley. En þessi bók hans sem nefnd er í textanum hér að ofan er fjári góð. Dálítið gaman af þessum útópísku bókmenntum. Kveðja, Svanur