mánudagur, 7. október 2013

Persónur undir jökli

Biskup Íslands sendir ungan guðfræðing út á Snæfellsnes til skýrslugerðar um ástand trúmála þar. Biskup segir: “Vér biðjum um skýrslu, það er alt og sumt.” (18). Með þessa fyrirskipun í farteskinu og segulbandstæki fer hinn ungi guðfræðingur, sem fyrst er nefndur umboðsmaður biskups en síðan einfaldlega Umbi, af stað vestur á Snæfellsnes til að grafast fyrir um hvað sé að gerast í trúmálum þar.

Í bók Halldórs Laxness, Kristnihald undir jökli, er að finna mikið af áhrifaríkum náttúrulýsingum, litríkum og skemmtilegum persónum og meitluðum samtölum þeirra. Þessar persónur sögunnar eru stundum, jafnvel oft, öfgakenndar og þær binda allajafna ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn þeirra.

Í þessari ritgerð er ætlunin að skoða aðeins nokkrar af þessum litríku persónum, fyrst aukapersónurnar, svo aðalpersónur en einkum sóknarprestinn, séra Jón Prímus, sem mörgum hefur orðið tilefni aðhláturs en jafnframt alvarlegra umþenkinga um lífið og tilgang þess og tilveruna í heild.

Aðeins um aukapersónur

Helgi á Torfhvalastöðum minnir stundum á persónu úr einhverjum farsa eftir Dario Fo; hann týnir þeim gráa en finnur þann rauða. Hann er öfgafullur maður og sannfærður, trúir fullkomlega á heimspeki Dr. Sýngmanns. Hann hefur gefið út bindin hans sex en fékk ekki krónu til baka. Hann var þó svo sem ekki að gera sér rellu út af því!
Tumi Jónsen, safnaðarformaður, er maður sem kippir sér ekki upp við hvað sem er. Hann er að mörgu leyti líkur séra Jóni, til dæmis hvað varðar skoðanir þeirra á trúmálum. Tal þeirra og tilsvör eru svipuð, einkum þó þegar þeir eru spurðir um sjálfa sig:

Umbi: Eruð þér Tumi Jónsen safnaðarformaður?
Bóndi: Svo er sagt. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti. (47)

Umbi: Ég vona að þér séuð þó séra Jón.
Séra Jón: Það er af og frá. (97)

Tumi Jónsen er ekkert ósáttur við ástand kirkju og trúmála eins og það er í söfnuðinum, enda sjálfur safnaðarformaður, og allra síst er hann ósáttur við gjörðir séra Jóns eins og eftirfarandi samræður vitna um:

Umbi: Svo einu má gilda þó gleymist að jarða.
Tumi Jónsen: Sumum finst það kannski dálítið skrýtið. Þó veit ég ekki betur en allir komist á sinn stað á endanum.
Umbi: Og kenningin góð hjá honum?
Tumi Jónsen: O seisei, ekki er hætt við hann tali af sér hann séra Jón.
Umbi: Á hvað leggur hann áherslu í kenníngunni?
Tumi Jónsen: Við höfum ekki orðið varir við að hann séra Jón hefði neina sérstaka kenníngu; og það líkar okkur vel. (50-51)

Þetta samtal segir allnokkuð um persónu og embættisstörf séra Jóns og um leið lýsir það vel því afslappaða andrúmslofti sem ríkir í trúmálum í söfnuði séra Jóns. Þar er enginn “besservisser”, engin óskeikul kenning að fara eftir, ekkert virðist skipta máli nema þetta eðlilega og daglega amstur safnaðarbarnanna að hafa í sig og á í sátt við Guð og náttúruna.

Hnallþóra virðist ekki vera alveg eins og fólk er flest. Hún bakar kökur og tertur allan daginn og virðist eins og sprottin upp úr húsinu sem hún býr í. Kannski hefur hún það hlutverk að vera persónugervingur þeirra kvenna sem Laxness fannst einkenna húsfreyjur til sveita á Íslandi á ferðum sínum. Þær buðu ævinlega upp á kaffi og tertur og töldu saltfisk, kjöt og velling, þennan venjulega sveitamat, ekki við hæfi handa gestum. Auðvelt er að skilja löngun Umba í fiskbita og þrumara með smjöri eftir allt köku- og tertuátið hjá Hnallþóru.

Dr. Sýngmann, alheimsgrósséri, sem nánar verður vikið að á eftir, hefur haft með sér til Íslands þrjá menn, er Umbi nefnir beitarhúsamenn. Þeir eru lærisveinar Dr. Sýngmanns og eru einnig svokallaðir lífmagnarar. Þeirra málpípa er Saknússemm II og virðist sem hann sé þeirrar skoðunar að maðurinn hati sjálfan sig svo mikið að hann verði ávallt að vera í einhverju stríði, en um leið sé þetta mikla hatur tákn um mjög djúpa ást mannsins á sjálfum sér:

Umbi: Hversvegna viljið þér drepa þessa fugla?
Saknússemm 2.: Af því við elskum þá Sir. (147)

Með beitarhúsamönnunum er komin skírskotun í Víetnamstríðið og því er kannski hægt að líta á þá sem einhverskonar erindreka Bandaríkjanna. Eftirfarandi orð Saknússemms II má þó líta á sem ádeilu á Bandaríkjamenn og kannski stríðsbrölt almennt:

Af hverju ferðumst við bandaríkjamenn yfir hálfan hnöttinn með flóknustu byssur veraldarsögunnar að skjóta nakta kotbændur í landi sem við vitum ekki hvað heitir? Það er af því við elskum þessa menn einsog sjálfa okkur. Við dáum þá. Við borgum fegnir miljón dollara fyrir að mega skjóta einn bónda. (150)

Aðeins um aðalpersónur

Deilt hefur verið um það hver sé aðalpersóna sögunnar, enda erfitt að gera upp á milli. Hins vegar eru í aðalhlutverkunum þau séra Jón prímus, Umbi, Dr. Goodman Sýngmann og Úa. Þau geta öll talist aðalpersónur sögunnar, hvert með sínum hætti.

Dr. Sýngmann, alheimsgrósséri, er sú persóna sem einna minnst kemur við sögu í eigin persónu, en einna mest er rætt um. Hann er að mörgu leyti hreyfiafl sögunnar því hann er óhemju ríkur og getur veitt sér, að því er best verður séð, allt sem honum sýnist. Svo virðist sem hann geti framkvæmt lífganir, það er reist upp frá dauðum, og heimspeki hans er þess eðlis að hún hreyfir við kirkjuyfirvöldum í Reykjavík. Hann tekur sköpunarverkið ekki gilt og reynir af fremsta megni að sigrast á þeim takmörkunum sem okkur, mannfólkinu, er gert að sætta sig við.
Dr. Sýngmann kemur fram sem neikvæð og afvegaleidd persóna. Hann er vopnasali og vopnasmiður. Um hann segir Jódínus Álfberg, einn af hans fylgimönnum:

Penínga! Gróssérinn! Veistu ekki að hann hefur stórbúðir um allan heim? Veistu ekki að hann er sá sem fann upp trixið í kafbátinn og fallhlífina? (121)

Sumir hafa séð í Dr. Sýngmann sjálfan Kölska. Aðrir sjá hann sem fulltrúa einhvers heimsveldis. Sjálfur hefur hann birt, í sex binda ritverkinu sínu, lausn á lífsgátunni. Einhvernveginn fer samt svo að þessi mikli maður hverfur út í vindinn þegar hann óvænt og öllum að óvörum gefur upp öndina kvöldinu áður en lífgunarleiðangur hans átti að leggja upp á jökulinn.

Umbi er aðalpersóna að því leyti að hann segir sjálfa söguna. Hann verður fyrir mestum áhrifum í þessari ógleymanlegu ferð undir jökulinn, enda ungur og óreyndur. Hann kemst í kynni við allskyns fólk og furðuverur á meðan á ferð hans stendur, enda reynist honum erfitt að halda sjálfum sér utan við skýrsluna, eins og biskup mælti fyrir. Í samtölum sínum við fólk gerir hann oft á tíðum lítið úr sjálfum sér, stöðu sinni og gjörðum. Að vissu leyti er það eðlilegt vegna þess að menn og konur þarna fyrir vestan ávarpa hann gjarnan sem biskup sjálfan, eða svo gott sem.
En Umbi er ekki bara umboðsmaður biskups heldur er hann líka “umboðsmaður lesandans ekki síður en biskupsins og við verðum að rýna í það “bréf” sem til okkar berst frá honum” (Ástráður Eysteinsson 1993: 172).
Í lok sögunnar stendur Umbi nokkurn veginn í sömu sporunum og séra Jón þrjátíu og fimm árum fyrr, þegar Úa hafði hlaupist á brott frá honum. Umbi glatar í sögunni sakleysi sínu og um leið hlutleysi sem skýrslugerðarmaður þegar Úa flekar hann, óreyndan og hreinlífan.

Þá er komið að henni Úu sem sennilega er áhrifamesta persóna sögunnar. Hvað hún heitir réttu nafni skiptir ekki öllu máli en hún hefur mjög djúpstæð áhrif, að því er virðist, á flestar þær þær persónur sem hún kemst í kynni við.
Hún er kona séra Jóns, en hefur ekki verið hjá honum í áratugi. Ekki er ósennilegt að ætla að það sé ástæðan fyrir því að séra Jón er eins og hann er. Þegar Úa, ung að árum, hljópst á brott með Dr. Sýngmann, þá má segja að sú ákvörðun hennar sé skiljanleg að mörgu leyti. Það er öllu meira spennandi að halda út í heim með milljónamæringi en eyða ævinni á Íslandi í útnesjaprestkalli lengst norður í rassgati. En þegar Úa kemur loks aftur til Íslands þrjátíu og fimm árum síðar, daginn eftir útför Dr. Sýngmanns og er orðinn einkaerfingi auðæva hans, þá lætur hún eins og ekkert hafi í skorist:

Umbi: Biskup vill heyra um status.
Konan: Status, hvað er það?
Umbi: Hvað þér séuð.
Konan: Ég er prestskonan hérna. (263)

Það lítur því út fyrir að þrátt fyrir allt sem hún hafði reynt erlendis, meðal annars rekið hóruhús í Argentínu, verið nunna í spænsku klaustri og líka gift kona og móðir í Bandaríkjunum, þá hafi hún fyrst og síðast litið á sig sem prestskonu undir jökli.

Aðeins um séra Jón Prímus

Séra Jón Prímus er án efa orðin ein allra þekktasta sögupersóna í íslenskum bókmenntum fyrr og síðar. Það er hann sem hefur vakið ugg meðal kirkjunnar manna, ekki fyrir gjörðir sínar heldur fremur fyrir það sem hann hefur ekki gert. Hann gerir næstum því ekkert sem venjulegur prestur í góðu brauði ætti að gera. Lítið sem ekkert er um messur, jarðarfarir og skírnir og önnur þau skyldustörf sem hann ætti að inna af hendi. Hann er í raun sannkallað náttúrubarn, maður sem virðist una sér best einn og engum háður, vinnandi smáviðvik hér og þar og fær í staðinn smá bita af borðum samtíðarmanna sinna. Fábreytni og einfaldleiki eru hans ær og kýr og svo virðist sem hann sé sáttur við lífið og tilveruna. Ekkert raskar ró hans og hann hefur svör á reiðum höndum við öllum spurningum. En ekki hefur séra Jón alltaf verið svona maður. Hvað er það sem gert hefur hann að þeim manni sem hann er orðinn?

Í bókinni fáum við að vita að þrjátíu og fimm árum fyrr stingur verðandi eiginkona hans af, rétt fyrir brúðkaupið, með besta vini hans til útlanda. Menn þurfa að vera ansi sterkir persónuleikar til að þola slíkt áfall og sennilega er ekki til sá maður sem ekki léti svona lagað eitthvað á sig fá.
Jón Prímus tekur lífið gilt en hvergi segir að hann taki manninn gildan eða samfélagið, enda hefur hann að ýmsu leyti sagt sig úr lögum við samfélagslega starfshætti.” (Ástráður Eysteinsson 1993: 174).

Með hliðsjón af því áfalli sem séra Jón varð fyrir, skoðunum hans og lífsháttum, er ekki úr vegi að álíta að hann hafi staðnað. Svo virðist sem hann hafi einfaldlega dregið sig inn í eigin skel og ekki getað tekist á við þetta áfall. Að minnsta kosti virðist hann ekkert hafa gert í því að reyna að ná Úu til sín aftur. Lausn séra Jóns gagnvart þessu áfalli virðist vera sú að ná sáttum við menn og skepnur og sjálfa náttúruna. Séra Jón er ekki maður sem slær til baka heldur býður hann hinn vangann og hann nýtur virðingar og er elskaður af sóknarbörnum sínum, eða eins og segir í bréfi Tuma Jónsen safnaðarformanns:

Ekki skepnubarn í þessu plássi mundi kjósa að vera einn dag án séra Jóns. Mundi öll bygðin harmi lostin ef skert væri hár á höfði slíkum öðlingi. (15)

En hvers vegna skyldi svo vera? Gæti það ekki verið vegna þess að séra Jón treður engu upp á menn en er engu að síður til staðar ef menn þurfa að leita á hans náðir? Að vísu, eins og áður hefur verið bent á, er hann ekki fljótur að afgreiða málin, en gerir það að lokum. Menn komast á sinn stað.

Séra Jóni verður tíðrætt um snjótittlinga:

Um snjótitlíng hef ég aungvu að bæta við það sem ég sagði um daginn við úngan mann sem var að leita að sannleikanum: ef til er almætti í himingeimnum, þá er það í snjótitlíngum. Hvað sem á dynur, snjótitlíngurinn lifir af; stórhríðarnar eru ekki fyr um götur geingnar en hann er orðinn sólskríkja. (230)

Það má í raun segja að þessi lýsing eigi einnig mjög vel við um séra Jón sjálfan. Hann hefur staðið af sér lífsins ólgusjó og sæst við menn og skepnur og ber ekki kala til neins þó svo að hann hafi verið mikið særður af fólki sér nákomnu; hann minnir að sumu leyti á Krist og boðun hans um fyrirgefningu.
Þá verður séra Jóni nokkuð tíðrætt um samkomulag, sem kemur ekki á óvart, því það sem Úa gerði var einmitt að rjúfa þeirra samkomulag um giftingu. En séra Jón virðist frekar hafa styrkst við þetta heitrof í þeirri trú að samkomulag sé það sem málin gangi út á í samskiptum manna:                                                                                                                                                             
Séra Jón: Alt líf rís á samkomulagi. Ég hélt þér vissuð að við verðum að koma okkur saman um hvort við eigum að lifa; annars verður stríð. (295)


Heimildaskrá:

Ástráður Eysteinsson. 1993. “Í fuglabjargi skáldsögunnar.” Halldórsstefna,
bls. 171-185. Rit Stofnunnar Sigurðar Nordals 2, Reykjavík

Gunnar Kristjánsson. 1993. “Liljugrös og járningar.” Halldórsstefna,
bls. 146-156. Rit Stofnunnar Sigurðar Nordals 2, Reykjavík.

Halldór Laxness. 1990. Kristnihald undir jökli. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

Peter Hallberg. 1969. “Kristnihald undir jökli.” Skírnir, 143. ár, bls. 80-104.

mánudagur, 30. september 2013

Hin eilífa hringrás sköpunar og eyðileggingar




Til örlítillar athugunar og umfjöllunar er hér smásagan Undir Eldfjalli eftir Svövu Jakobsdóttur sem er að finna í samnefndri bók sem kom út árið 1989 hjá Forlaginu og inniheldur sex smásögur.

                                                                        I

Hjónin, Gerður og Loftur, sem komin eru á efri ár hafa nýlega fest kaup á landskika sem er rétt undan eldfjallinu fræga, Heklu; - þau hafa hugsað sér að græða skikann upp og byggja sér þar bústað. Þegar sagan hefst liggja þau við í tjaldi á nýkeyptu eignarlandinu og eru að bíða eftir komu sonar síns sem heitir Yngvi og konu hans, Heiðu, og barni þeirra sem er varla meira en nokkurra mánaða gamalt. Þau bíða spennt eftir komu þeirra og áliti á þessum kaupum og virðist það skipta þau hjónin þó nokkuð miklu máli hvaða álit ungu hjónin fá á ráðagerðum þeirra og þó alveg sérstaklega eftir skoðun sonarins. Það er eins og þau vilji fá staðfestingu á því að það, sem þau ætla sér með kaupum á landinu, sé bæði gott og rétt:

Yngvi þagði svo lengi að vart var einleikið. Svo slakaði hann á einbeitingunni, svipurinn óræður, í mótsögn við léttleika raddblæsins þegar hann kvað upp dóminn: Til ills fórum vér um góð héruð. Merkikerti sagði móðir hans. Hann ætlaði þá ekki að láta neitt uppskátt. Nú yrði að draga þetta upp úr honum, hvað honum raunverulega fyndist. (13-14)

Í sögunni er fylgt sjónarhorni Gerðar og verður hún lesandanum nokkurskonar leiðarvísir í gegnum landskikann og náttúru hans og söguna sjálfa (Í fimm af þeim sex sögum sem eru í bókinni er sjónarhorn konu notað).

                                                                           II

Þegar við kynnumst persónum sögunnar og fylgjum þeim síðan um landskikann virðist sem svo að eitthvað kraumi undir niðri á milli eldri hjónanna annarsvegar og sonarins hinsvegar. Ekki þannig að það sé bein óvild þeirra í millum en eitthvað er það þó sem sækir þannig á hugann og veldur því að maður fær á tilfinninguna að eitthvað óbeint sé að, einkum og sér í lagi gagnvart Yngva, en skynjar það einnig úr huga Gerðar og Lofts. Það er einna líkast því að Yngva sé illa við þetta brölt foreldra sinna og finnist þau vera komin yfir þann aldur að vera að taka á sig nær óvinnandi verkefni þegar þau gætu og ættu frekar að una vel sínum hag heima hjá sér þar sem garðurinn er fullræktaður og aðeins þarf að halda við:

Og í svipleiftri, í sömu mund og Loftur dró hann burtu og sagðist ætla að sýna honum tætturnar, hafði Gerður séð inn í hug hans og varð undrun slegin. Sonur þeirra hafði áhyggjur af þeim! Þungar áhyggjur. Hann óttaðist að þau væru ekki fær um þetta! (16)

Kannski má segja að í vantrú Yngva á fyrirætlunum foreldra sinna felist raunsæi blandað kærleik; auðvitað vill hann þeim ekki illt, en hann metur stöðuna þó kalt: Landskikinn er örfoka svæði undir eldfjalli og þau komin á efri árin. Ef til vill finnst honum að hlutverki þeirra sem ræktenda sé lokið; hann er floginn úr hreiðrinu og búinn að koma sér ágætlega fyrir og – eins og áður er vikið að – þá er fullræktaður og fallegur garður heima fyrir hjá þeim. Hann er sjálfur byrjaður að rækta garðinn sinn, kominn með konu og barn, finnst ef til vill að nú sé sinn tími í garð genginn hvað þetta varðar, en tími kominn á þau að slaka á og njóta elliáranna sem framundan eru í kyrrð og rólegheitum. Það er eins og honum finnist þau vera að ryðjast inn í hans hlutverk – hlutverk sem hann hafði tekið við af þeim:

hjálpi mér, hugsaði Gerður, þetta er svipurinn sem hann fæddist með … undrandi, ráðvilltur, áhyggjufullur … hvað hafði hann brotið af sér?
Og stamaði: Ég meinti bara … Ég meinti bara … Þetta er verra en ég bjóst við! (16)

                                                                         III

Gerður og Loftur eru einskonar landnemar sem horfa ekki með hryllingi til allrar vinnunnar sem framundan er heldur með tilhlökkun þess manns sem horfir bjartsýnn og jákvæður fram á veginn – burtséð frá aldri og fyrri störfum. Þau hafa gróðursett þúsund birkiplöntur og maður skynjar að áður en um langt líður verði þarna allt komið á fullt. Þau eru í raun og veru að leggja til atlögu við óblíð náttúruöflin, en það kemur fram í sögunni að fyrr á tímum hafi verið þarna gróðursælt og fallegt land sem nánast hafi þurrkast út gróðurfarslega á skömmum tíma í umbrotum náttúrunnar. Nálægð hinna óblíðu náttúruafla – eyðileggingaraflanna – virðist fremur hvetja en letja; - kannski tengist þetta hinni eilífu baráttu mannsins við náttúruna og tilraunum hans til að temja hana – ná valdi yfir henni og stjórn. En hvort heldur það er nú málið eða eitthvað annað, þá eru þau hjónin meðvituð um fallvaltleika lífsins og tengsl þess við náttúruna:

Það var blæjalogn og skafheiðríkt, einn af þessum sjaldgæfu hitabreyskjudögum sem gefur ekki á Íslandi nema fyrir einstaka náð. Aldrei gerir fólk ráð fyrir tveim þess konar dögum í röð, hvað þá þrem. Hver slíkur dagur er hinn síðasti. Nauðugur viljugur nærist því fögnuður þessara fögru daga á djúplægum grunni um fallvellti lífsins. Á morgun skellur á slagveður! (9)

En þrátt fyrir allt þetta og efasemdir Yngva eru þau ekki tilbúin að leggja árar í bát – þau vilja halda áfram að skapa og byggja upp. Þau virðast sátt við lífsbaráttuna eins og hún hefur verið og er og það er meginorsökin fyrir því að þau eru í sátt við sjálfa sig og umhverfi sitt. Sáttin við sjálfa sig veldur því að þau eru reiðubúin að takast á við ný verkefni; þau girnast ekki rólegheit og kyrrstöðu þótt komin séu nokkuð til aldurs, þau vilja lifa lífinu lifandi meðan heilsa og kraftar endast. Þannig koma þau mér fyrir sjónir, hjónin Gerður og Loftur.

                                                                     IV

Eins og áður sagði er það sjónarhorn Gerðar sem höfundur notar í sögunni; - um leið og hún fylgir Yngva og Heiðu um landskikann, þá sýnir hún lesandanum náttúruna sem er næstum því við hvert fótmál og það er greinilegt að Gerður er mjög næm á hana. Hún virðist skynja vel það líf sem þarna lifir og hún sér fyrir þá möguleika sem þarna eru fyrir hendi til starfs og ræktunar þrátt fyrir hraun og hrjóstur. Á þessum landskika ber margt fyrir augu sem vitnar um hina eilífu hringrás sköpunar og eyðileggingar:

Undir barðinu breytti landið um svip. Þar rann lækjarspræna sem spratt undan hraunbrúninni í norðri. Vöxtur lyngs og víðikjarrs á lækjarbakkanum kom á óvart og gladdi hraunþreytt augu, en handan lækjar blasti við gamalt valllendi sem hrossanálar höfðu lagt undir sig þó seigur grávíðirinn tregðaðist við. Fjær skiptust á móar og þunngrónar hraunöldur. Í fjarska, langt utan girðingar, trónaði grá melbunga alauð, yfirgefin af öllum nema þyrpingum af kolsvörtum dröngum, líkastir skessum sem dagað hefði uppi á þingi. (21)

                                                                     V

Sumir menn vilja ávallt feta troðnar slóðir og ekki taka mikla áhættu. Yngvi virðist vera einn af þeim. Þar með er ekki sagt að hann sé verri maður eða heigull því að hann hefur tekist á við nám og starf og á þar að auki góða fjölskyldu. Hann hugsar ólíkt foreldrum sínum en skoðanir hans á brölti þeirra á landskikanum jaðra við forsjárhyggju – og það er ekki af hinu góða. Honum finnst sennilega að athæfi þeirra hæfi ekki aldrinum en gleymir því að aldur er, oft og tíðum, ekki endilega mælikvarði á getu fólks. Hinar troðnu slóðir mannanna geta í sumum tilvikum snúist í andhverfu sína, til dæmis gagnvart dýrum, og orðið hið mesta hættusvæði þar sem enginn er óhultur og hættur leynast við hvert hjólfar, en geta þó um leið orðið táknrænar fyrir leit mannsins að vísum vegi og öruggu skjóli; - en sértu ósáttur við framgöngu þína, líf þitt og starf, þá ertu hvergi óhultur:


Sandlóuungarnir. Einkennilegt háttalag á þessum ungum. Þau höfðu sjálf orðið fyrir þessu. Örsmáir fuglsungar, nýskriðnir í heiminn, virtust sækja í hjólförin … eða lentu þangað óvart … og hlupu síðan langar leiðir undan bílnum, ruglaðir og sprengmóðir, riðandi á mjóum, veikburða títlunum. (11)

Texti: Svanur Már Snorrason. Ritgerð - Hugtök og heiti í almennri bókmenntafræði. Kennari: Guðni Elísson.

sunnudagur, 15. september 2013

Breyttir tímar

Bókasafn er staður þar sem öllum á að líða vel: fullorðnum, unglingum og börnum.
Og í dag er raunin sú.
En það hefur margt breyst í áranna rás þegar að bókasöfnum kemur; þegar ég var lítill var mín tilfinning að bókasafnið væri staður fyrir útvalda; námsfólk, fræðimenn og grúskara – fullorðna. Ekki börn og unglinga.
Sem barn og unglingur var tilfinningin sú að maður væri ekki neitt sérstaklega velkominn á safnið, og það mátti hvorki heyrast hósti né stuna. Bókasafnið minnti mig oft á grafhýsi þar sem varðveittar voru bækur sem einungis fáir máttu lesa.
En batnandi mönnum er best að lifa, og í dag er staðan allt önnur og betri.
Bókasöfn í dag eru lifandi og hlýlegir staðir, öllum opnir – þangað eru allir velkomnir.
Þessar breytingar tóku sinn tíma, en sem betur fer heyra úreldar og leiðinlegar hugmyndir um bókasöfn sem stað fyrir fáa útvalda fortíðinni til.
Í dag er bókasafn ekki síst staður barna og unglinga, og þau finna það sjálf; finna að þau eru velkomin. Og þangað sækja þau líka í stórum stíl. Dvelja þar með vinum, skoða bækur og önnur gögn, sér til gamans og fræðslu.
Á bókasafninu er líka alltaf eitthvað í gangi. Í sumar, hjá okkur í Hafnarfirði, var til dæmis sumarlestur barnanna, frá júní og fram í miðjan ágúst, þar sem allir fengu umbun fyrir þátttökuna. Þar eru börn hvött til lesturs, og ekki bara þau hraðlæsu – hæglæs og lesblind börn eru hvött áfram, enda eiga þau jafnmikið erindi á bókasafnið. Og úrvalið er mikið; skáldsögur, ljóð, fræðsluefni, hljóðbækur, tímarit og teiknimyndabækur, Andrésblöð og ég veit ekki hvað og hvað. Allt sem ýtir undir aukinn áhuga á lestri er hið besta mál.
Þá er vert að geta þess að börn og unglingar eru dugleg að koma á safnið til að afla sér upplýsinga og heimilda varðandi ritgerðarskrif og önnur verkefni í skólanum. Einnig er boðið upp á sögustundir á barna- og unglingadeildinni, og leikskóla- og grunnskólakennarar eru duglegir við að koma í heimsókn með bekkina sína. Og þá er svo sannarlega líf og fjör á bókasafninu, eins og það á að vera.
Í gamla daga var stórt nei svarið við spurningunni: eiga börn og unglingar erindi á bókasöfn?
Í dag er svarið já. Já með stóru joði.
Í dag er bókasafnið ígildi góðrar félagsmiðstöðvar, og það kostar ekkert inn fyrir börn og unglinga.
Verið velkomin, öll.



Svanur Már Snorrason, þjónustufulltrúi á Bókasafni Hafnarfjarðar, rithöfundur og fyrrv. ritstj.

(Morgunblaðið, 10. september 2013)

miðvikudagur, 11. september 2013

mYnd mÁnaðarins


Sigmundur Davíð, hvað ætlarðu að gera?


Ég var ekki einn af þeim mörgu sem trúðu loforðum þínum, Sigmundur Davíð, í aðdraganda kosninganna, enda erfitt að trúa og treysta Framsóknarflokknum, flokki sem hampaði mönnum eins og Finni Ingólfssyni og Halldóri Ásgrímssyni – mönnum sem flestir vilja gleyma.


En þrátt fyrir að ég hafi ekki trúað fagurgala þínum, Sigmundur Davíð, gerðu margir Íslendingar það, og með honum vannstu ekki bara stórsigur heldur varð fagurgalinn þess valdandi að þú fórst alla leið í stól forsætisráðherra.


Að loknu leikriti eftir kosningarnar – sem flestir sáu að var bara lélegur farsi – myndaðirðu að sjálfsögðu stjórn með Sjálfstæðisflokknum, enda þægilegt að hafa góðan þingmeirihluta og fólk sem er að mestu leyti sammála þér í flestum málum. Já, kjósendur sögðu sitt og umboðið var þitt.


En hvað ætlarðu að gera, Sigmundur Davíð?


Ætlarðu að fara í sögubækurnar sem mesti svikari kosningaloforða Íslandssögunnar? Þar myndirðu tróna á toppnum í stórum og hræðilegum hópi, og þar mun þér kannski bara líða vel. Líkur sækir jú líkan heim.


Eða ætlarðu raunverulega að standa við loforð þitt um aðstoð við mörg bágstödd heimili landsins? Ertu maður orða þinna? Mér þætti gaman að sjá það, því sjálfur er ég láglaunamaður sem á í erfiðleikum með að ná endum saman um mánaðamót, og berst við að halda minni íbúð. Ætlarðu að gera eitthvað fyrir mig, þótt ég hafi ekki kosið þig?


Byrjun þín sem forsætisráðherra er sú versta og sorglegasta í sögu íslenska lýðveldisins, þrátt fyrir að í þeim efnum sé af nógu að taka. En batnandi mönnum er jú best að lifa, og best að klifa aðeins á frösunum – fall er faraheill, og allt það.


Byrjun þessi fólst í að draga öll kosningaloforðin í land og kenna gömlu stjórninni um hversu slæm staða ríkissjóðs væri; mun verri en þú áttir von á – þrátt fyrir að allar tölur væru uppi á borðinu og í raun öllum aðgengilegar. Nema þér og Bjarna Ben. Og ekki gleyma því að flokkum ykkar er hrunið alfarið að kenna – reyndu ekki einu sinni að þræta fyrir það – yrði þér einungis til minnkunar.


En aftur að byrjun þinni: Að sjálfsögðu var keyrt í gegnum þingið á ógnarhraða að gera þá vellauðugu enn vellauðugari, enda verður að passa vel upp á kvótafólkið. Það má auðvitað ekki missa spón úr aski sínum, þótt barmafullur sé.


En lítið hefur heyrst af loforðinu um lækkun skulda heimilanna – bara ekki neitt. Það loforð kom þér, Sigmundur Davíð, til valda, en ef þú stendur ekki við það verðurðu ekki lengi við völd. Almenningur mun sjá til þess.


Það er kannski ekki skrýtið að menn eins og þú og Bjarni Ben eigið erfitt með að samsama ykkur sauðsvörtum almúganum sem heldur uppi samfélaginu og bankakerfinu með hörku og dugnaði þótt lítið sé eftir í buddunni þegar búið er að borga af öllu. Þið tveir eruð moldríkir og hafið aldrei þurft að hafa neitt fyrir lífinu, og þekkið ekki basl né fjárhagsáhyggjur.


En þótt raunin sé sú er staðan engu að síður grafalvarleg fyrir ykkur og ríkisstjórnina. Í margar aldir voru Íslendingar kúgaðir og létu margt yfir sig ganga, og gera því miður enn. Hins vegar breyttist margt eftir hrun og búsáhaldabyltingin og mótmælin í október 2010 eru gott dæmi um það. Ég er hins vegar hræddur um að næsta skref í mótmælum verði töluvert öðruvísi en áður, og að við eigum eftir að horfa upp á mjög harða og jafnvel blóðuga byltingu, ef þú stendur ekki við stóru orðin, Sigmundur Davíð.


Svanur Már Snorrason þjónustufulltrúi á Bókasafni Hafnarfjarðar og fyrrv. ritstj.



(Greinin birtist í Fréttablaðinu og á Vísi, 22. ágúst, 2013)

föstudagur, 16. ágúst 2013

Ljóð í ljótum búning

05.00.65 – Gagnrýni og ritdómar
Kennarar: Ástráður Eysteinsson og Auður Aðalsteinsdóttir


Dálítil greinargerð

Það er dálítið skrýtið með þetta val mitt á þessari ljóðabók, Ljósar hendur, sem Fjölvaútgáfan gaf út árið 1997. Hún vakti athygli mína fyrir það hversu óhemjuljót í útliti mér finnst hún vera. Æpti á mig, taktu mig, taktu mig! Tók hana, las hana og sá ekki eftir því. Er ekki líka einhversstaðar skrifað að útlitið sé ekki allt og einnig að ekki skuli bók dæmd eftir kápunni? En hins vegar er það nú líklegt að ljótt útlit bókar fæli frá frekar en hitt – að ég sé frekar undantekning, að fæstum finnist ljótleikinn að einhverju leyti forvitnilegur. En svo eru skoðanir varðandi útlit mismunandi og eflaust finnast þeir sem finnst útlit þessarar litlu ljóðabókar vera fallegt - þetta er svo persónubundið.

Ég held að útlit bókar geti skipt miklu máli varðandi sölu hennar.

Þessi ljóðabók, Ljósar hendur, er sýnisbók á ljóðum þriggja skálda og hafði ég aðeins heyrt um eitt þeirra og lesið eitthvað eftir, Vilborgu Dagbjartsdóttur. Um hinar tvær hafði ég ekkert heyrt og ekkert eftir þær lesið. Þær heita Ágústína Jónsdóttir og Þóra Jónsdóttir. Það var gaman að uppgötva þessar tvær, og þá sérstaklega Þóru. Það mætti alveg heyrast meira í henni, en kannski hlusta ég ekki nógu vel?

Ljósar hendur

Ljósar hendur er titill á ljóðabók skáldanna Ágústínu Jónsdóttir, Vilborgar Dagbjartsdóttur og Þóru Jónsdóttur. Segja má að þetta sé tilfinninganæmt og trúarlegt heiti á innihaldsríkri bók sem kemur í smáu broti, er ríkulega myndskreytt. Aftan á bókarkápu stendur að hún hafi verið sett saman af því tilefni “hvað sumarið var indælt með sólskini, yl og gróanda”og því má segja að það stafi ljómi af heiti hennar.

Það var Þorsteinn Thorarensen sem valdi skáldkonurnar í bókina en sjálfar völdu þær hver sín ljóð.

Vilborg Dagbjartsdóttir

Valið á ljóðum Vilborgar Dagbjartsdóttur í þessa bók einkennist öðru fremur af mjög svo myndríkri og viðkvæmri náttúruskynjun. Í ljóðum hennar gætir ríkrar viðleitni til að treysta samband mannsins við umhverfi sitt og uppruna og vökva rætur þess. Vilborg er þjóðlegt og móðurlegt skáld og hinar ýmsu myndir náttúru, lands, sögu og trúar eru henni hugleiknar. Hlýju stafar frá ljóðum Vilborgar og hún höfðar nokkuð oft til barnsins sem býr í lesandanum og kveikir með honum hugrenningar um staði og stund, vekur í brjósti hans kenndir og tilfinningar sem mega helst ekki gleymast. Í Maríuljóði sínu blandar Vilborg saman bernskuminningunni á áhrifaríkan hátt, við móðurlega hlýju og trúarlegt myndmál:

Nú breiðir María ullina sína hvítu/á himininn stóra./María sem á svo mjúkan vönd/að birta með englabörnin smáu.

Fuglinn sem á hreiður við lækinn/í hlíðinni sunnan við bæinn/er kallaður eftir henni./Það er Maríuerla.

Í ljóðum Vilborgar blandast bernskan oft saman við djúpa lífsreynslu. Einn styrkleiki Vilborgar, af mörgum, í ljóðagerð hennar, snýr að ræktunarsemi mannskepnunnar við sig sjálfan, náttúruna, land og sögu. Með því að skynja og skilja hið liðna og setja það í nýtt samhengi, hlúir maðurinn að rótum sínum og er mun betur í stakk búinn að skilja heiminn í kringum sig og sitt eigið líf.

Þóra Jónsdóttir

Þá er komið að henni Þóru Jónsdóttir og fannst mér hennar kafli í bókinni hvað athyglisverðastur og ánægjulegastur. Hennar áhrifaríkustu einkenni í ljóðum þessarar bókar má finna í náttúrumyndum hennar sem oft eru dregnar upp á mörkum árstíða og ástríðna, á mörkum dags og nætur eða á mörkum hins ókomna og hins liðna. Þóru náttúrumyndir höfða afar sterkt til tilfinninga lesandans og líklega er það vegna þess hversu þær eru dregnar einföldum og skýrum dráttum - en spegla um leið dulvitund mannskepnunnar - þrár hennar og óskir, ástríður og langanir. Ágætis dæmi um það er ljóðið um strokuhestinn brúna:

Söðlaðu mér strokuhestinn brúna

Þann sem gengur einn á heiðinni/og hneggjar

með styggð í faxi/firrð í augum/og allan gang í hófum.

Í bók þessari búa flest ljóð Þóru Jónsdóttur yfir seiðmögnuðum og skemmtilegum áhrifum. Þau virðast einföld og láta ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn með auknum lestri þeirra kemur smám saman í ljós margræðni þeirra og dulúð.

Ágústína Jónsdóttir

Ég skynjaði í ljóðum Ágústínu Jónsdóttur sterka trúarlega og erótíska/kynferðislega samlifun með því öllu sem býr í heimi mannskepnunnar og móður hennar, náttúrunni. Ljóðmælandinn endurspeglar mynd sína og tilfinningar og hvatir í því öllu sem nokkurn lífsanda dregur. Víða blandar Ágústína saman í ljóðum sínum útlínum manns og náttúru og sýnir með því að allt þetta líf er af sömu rótinni runnið. Hvatalíf mannsins og frjósemi náttúrunnar myndar samfellda heild og springur út í tilfinninganæmri og stundum lostafullri upplifun. Hún yrkir um goshverinn með eftirfarandi hætti:

Bandingi/haldinn óþoli/ástríðufull kvika/rís hnígur rís

frumkraftur

Þyrstur í frelsi/lostafull togstreita/uns allar hömlur bresta/ólgulindin brýst fram/inn í þráðan heim

Þetta erótíska/kynferðislega myndar baksvið flest allra ljóða Ágústínu sem hún skynjar oft í hillingum eða draumum. Hennar ljóðmál býr fyrst og fremst yfir táknrænum áhrifamætti, því styrkur þess liggur ekki endilega í efnislegri tilvísun heldur í því sem kalla mætti, sefjunarmátt ljóðmálsins. Sem dæmi um það beitir hún trúarlegum og goðsögulegum táknum og blandar oft saman með áhrifaríkum hætti háspekilegri sinni lífssýn og erótískri upplifun. Ljóðform Ágústínu sem og tungutak er hreint og tært.


Dálítið niðurlag

Ljósar hendur er mjög vel valin sýnisbók á ljóðum þessara þriggja athyglisverðu ljóðskálda. Innihaldið, orðin, ljóðin, eru góð en það sama verður ekki sagt um útlitið. Það er hræðilegt. Algjörlega ofskreytt og það er á mörkunum að ljóðin hreinlega týnist innan um allt skrautið sem er afar ósmekklegt og er þá frekar vægt til orða tekið. Útlitið dró mig þó að bókinni en því miður held ég að það hafi ekki margið aðrir dregist að því. Það er synd því ljóðin eru góð.


Svanur Már Snorrason

mánudagur, 12. ágúst 2013

hugskeyti

sendi þér hugskeyti flugskeyti
tösku flösku
komdu í faðminn á mér
og spilum á banjó það sem eftir lifir nætur

föstudagur, 2. ágúst 2013

ALMÆTTIÐ OG FRESSKÖTTURINN 2 eftir (HEYRN)

Ljóðasafnið er frá árinu 1986. Njótið vinir mínir.





miðvikudagur, 24. júlí 2013

mánudagur, 15. júlí 2013

mánudagur, 24. júní 2013

fimmtudagur, 9. maí 2013

Þýskir höfundar - umfjöllun (bæklingur) sem ég skrifaði að mestu, en þó með hjálp Brigitte. Gert fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar



Þýskir rithöfundar




Fróðleikur og fræðsla

stutt æviágrip
helstu verk
þýðingar





Johann Wolfgang von Goethe
(1749-1832)

Það er til marks um hversu gríðarstórt nafn Goethe er í þýskri bókmenntasögu að tíminn frá því að hann gaf út sína fyrstu skáldsögu, Raunir Werthers unga, árið 1774, og þangað til hann lést, tæpum sextíu árum síðar, er gjarnan nefndur Goethe-tíminn.
Raunir Werthers unga og leikritið Der Götz von Berlichingen mörkuðu upphafið að glæstum ferli Goethes og áhrif hans bárust víða, sem og auðvitað hróður. Þessi verk færðu honum skjótfengna frægð og voru fá ef nokkur dæmi um að slíkt hafi gerst með þeim hætti áður. Höfðu þau bæði mikil áhrif á rómantísku stefnuna, en sér í lagi var það söguhetjan Werther sem vakti mikla athygli og þá sérstaklega hjá yngri kynslóðinni sem hóf af miklum móð að stæla klæðaburð hans sem og skaplyndi og tilfinningar. Hinn dapri Werther hafði ekki einungis áhrif um gervalla Evrópu heldur barst hróður hans einnig til Austurlanda; Kína og Japans - þar sem myndir af söguhetjunum Werther og Lottu voru látnar prýða handmálaða vasa.
Á efri árum lauk síðan Goethe við viðamesta verk sitt, harmleikinn Faust; 1. hluti kom út árið 1808 en 2. hluti 1832. Goethe fékkst ekki aðeins við ritstörf. Hann bjó um tíma í Weimar, sem var óumdeilanlega háborg mennta- og menningar þess tíma, og sinnti meðal annars ráðherrastörfum auk þess að hafa mikinn áhuga á náttúrufræði.
Íslenskar þýðingar: Faust, fyrri hluti (1920), Raunir Werthers unga (1987), Ævintýrið um grænu slönguna og liljuna (2001). Ýmsar ljóðaþýðingar eftir Matthías Jochumsson, Jón Helgason, Benedikt Gröndal, Yngva Jóhannesson o.fl.
Á þýsku: Die Leiden des jungen Werther (hljóðbók), Clavigo (hljóðbók),
Traue keinem, mit dem Du schläfst! (leikrit, myndefni), Werke in zwei Bänden (1981), Goethe für alle Beschreibung eines Menschenleben (hljóðbók 1991), Goethe für Kinder: ich bin so guter Dinge (1999)

Friedrich von Schiller
(1759-1805)

Schiller er eitt af höfuðskáldum þýskra bókmennta. Það mótaði hann mikið að vera þvingaður til náms í herskólanum í Württemburg. Olli það óbeit hans á harðstjórn og kynti undir áhuga á frelsishugsjónum síns tíma. Frelsishugsjónirnar túlkaði Schiller í leikritum sínum, Ræningjunum (Die Räuber, 1781), Leyndardómum og ástum (Kabale und Liebe, 1784) og harmleiknum Don Carlos (1787), sem var fyrsta leikverk hans í bundnu máli. Leikrit þessi voru skrifuð í anda Sturm und Drang stefnunnar, stefnu sem dró nafn sitt af leikriti eftir F.M. Klinger og var undanfari rómantíkurinnar. Þar var boðuð uppreisn gegn eldri bókmenntahefðum og lögð áhersla á frelsi höfunda til að lúta hugarflugi sínu og andagift. Voru Schiller og Goethe þar fremstir í flokki.
Schiller hafði auk þess mikinn áhuga á fagurfræði og heimspeki og samdi hann talsvert af sögulegum og heimspekilegum kvæðum, dramatískum ballöðum og ástarkvæðum. Auk þess skrifaði hann greinar fræðilegs efnis.
Þess má geta að Schiller og Goethe bundust miklum vináttuböndum árið 1794 sem héldust allt til dauðadags.
Íslenskar þýðingar: Mærin frá Orleans (1917), María Stúart (1955), Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins (2006). Ýmsar ljóðaþýðingar eftir Kristján fjallaskáld, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumsson og Bjarna Thorarensen.
Á þýsku: Kabale & Liebe 2003 (kvikmynd), An die Freunde (1993 ljóð, hljóðbók), Porträt Friedrich Schiller (myndband)

Grimms-bræður

Þýsku bræðurnir Jakob Ludwig Carl Grimm (1785-1863) og Wilhelm Carl Grimm (1786-1859) voru frumkvöðlar við söfnun þjóðsagna og ævintýra og
lögðu grunninn að fræðilegum rannsóknum á því sviði. Bræðranna helsta verk er safnritið
Kinder- und Hausmärchen sem út kom á árunum 1812-1822. Gefið út á íslensku undir nafninu Grimms ævintýri úrval, á árunum 1922-1937.
Þess er vert að geta að Jakob Grimm var einn af helstu frumkvöðlum samanburðarmálfræði. Setti hann fram lögmál um germönsku hljóðfærsluna sem oftlega er nefnd grimmslögmál og byggði hann þar á uppgötvunum Rasmus Rask. Meðal helstu rita Jakobs í þessum efnum er Deutsche Grammatik, sem kom út á árunum 1819-1837.
Íslenskar þýðingar: Grimms ævintýri (1998)
Á þýsku: Märchen der Brüder Grimm (1973)

Heinrich Heine
(1797-1856)

Heine er eitt allra stærsta þýska nafnið í rómantískri ljóðagerð. Hann á þó skilið að öðrum skrifum hans séu ekki síður veitt athygli því hann var mjög fjölhæfur rithöfundur sem fékkst jöfnum höndum við bundið og óbundið mál. Ritsafn Heine er stórt að vöxtum og fjölskrúðugt, en auk skáldverka skrifaði hann mikið í þýsk og frönsk blöð og tímarit en Heine bjó í París frá 1831 til dauðadags. Í þeim skrifum sínum fjallaði Heine meðal annars um bókmenntir, stjórnmál, myndlist, leiksýningar og tónlist. Hann þótti beittur og óvæginn þjóðfélagsgagnrýnandi, afar andsnúinn þjóðernishyggju, og vildi gjarnan rjúfa skilin á milli stjórnmála og lista sem mest hann mátti. Heine var einn af forystumönnum „Junges Deutschland“ en það var hópur ungra og róttækra rithöfunda í Þýskalandi sem eftir júlíbyltinguna í Frakklandi árið 1830 börðust gegn íhaldssemi síðrómantíkur.
Heine samdi mikinn fjölda kvæða sem tónskáld veittu fljótt athygli og hófu að semja lög við. Má þar nefna Robert Schumann og fleiri. Jónas Hallgrímsson þýddi mörg þeirra yfir á íslensku og þekktast af þeim er án efa Álfareiðin (Stóð ég út í tunglsljósi).
Íslenskar þýðingar: Ýmsar ljóðaþýðingar eftir Jónas Hallgrímsson, Steingrím Thorsteinsson, Grím Thomsen, Magnús Ásgeirsson o.fl.Á þýsku: Deutschland, ein Wintermärchen, (1987,ljóð, hljóðbók)

Hedwig Courths-Mahler
(1867-1950)

Hedwig Courths-Mahler hætti snemma í skóla og vann eftir það meðal annars fyrir sér sem þjónustustúlka og afgreiðsludama. Hún uppgötvaði fljótlega þá ánægju sem hún hafði af því að skrifa og óhætt er að segja að hún hafi ekki slegið slöku við í þeim efnum. Þegar hún dó, árið 1950, höfðu verið gefnar út eftir hana meira en 200 skáldsögur (afþreyingarbókmenntir) og stuttar skáldsögur (nóvellur). Aðalefnistök hennar og einkenni sagnanna voru á þá lund að fátækir verða ríkir og öðlast virðingu í samfélaginu, og hefðbundin ástarþemu. Enn í dag eru bækur Hedwig Courths-Mahlers víðlesnar og þá er vert að geta þess að nokkrar sögur hennar hafa verið kvikmyndaðar.

Thomas Mann
(1875-1955)

Thomas Mann hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1929 og hefur bókin Búddenbrooks, sem kom út 1901, oftlega verið nefnd sem eitt hans besta verk. Búddenbrooks er mikil saga sem nær yfir þrjár kynslóðir og segir af andlegri og efnahagslegri hnignun kaupmannsfjölskyldu, en verkið byggir á fjölskyldusögu Manns sjálfs. Í Búddenbrooks kemur fram höfuðviðfangsefni Manns – togstreitan milli listrænna gilda og borgaralegs lífs. Þessi togstreita er rauði þráðurinn í mörgum af þekktustu verkum hans.
Mann var fjölhæfur rithöfundur, sterkur þjóðfélagsrýnir og skrifaði frábærar ritgerðir.
Hann var talinn einkar lunkinn að greina og gagnrýna í nýju ljósi hina evrópsku og ekki síst hina þýsku sál í upphafi 20. aldarinnar; til þess notaði hann Þýskaland nútímans og biblíusögur sem og hugmyndir þeirra Goethe, Nietsche og Schopenhauer.
Íslenskar þýðingar: Maríó og töframaðurinn (1970), Felix Krull (1982), Búddenbrooks, (1999), Doktor Fástus (2000), Dauðinn í Feneyjum (2005).
Á þýsku: Doktor Faustus (1967), Buddenbrooks (1968),
Thomas Mann ein Leben (myndband)

Hermann Hesse
(1877-1962)

Hesse var Þjóðverji en gerðist svissneskur ríksborgari árið 1923. Hann hóf rithöfundarferil sinn sem ljóðskáld með ljóðasafninu Romantische Lieder, sem út kom árið 1899. Fyrstu skáldsögur Hesse eru að hluta til sjálfsævisögulegar og yfir þeim hvílir angurvær blær. Í seinni verkum Hesse kemur fram áhugi hans á sálgreiningu og austrænum trúarbrögðum sem og dulspeki. Óhætt er að segja að þekktasta verk Hesse sé skáldsagan Sléttuúlfurinn (Der Steppenwolf), sem kom út árið 1927. Í því verki er fjallað um einsemd nútímalistamannsins og dýrslegar hliðar manneðlisins. Þess má geta að andstæður andlegs og líkamlegs lífs eru iðulega umfjöllunarefni Hesse. Árið 1946 hlaut Hesse bókmenntaverðlaun Nóbels.
Íslenskar þýðingar: Sléttuúlfurinn (1998).
Anna Seghers
(1900-1983)

Anna Seghers var komin af gyðingaættum. Eftir stúdentspróf, árið 1920, lærði hún í Köln og Heidelberg, lagði stund á sögu, listasögu og kínversk fræði. Eitt af fyrstu verkum hennar, sagan Grubetsch, var birt árið 1927 undir nafninu Seghers (án fornafns) og gagnrýnendur héldu að höfundurinn væri karlkyns. Ári síðar kom svo fyrsta bókin hennar út undir nafninu Anna Seghers (Aufstand der Fischer von St.Barbara). Það sama ár gerðist hún meðlimur í kommúnistaflokknum og árið 1930 ferðast hún í fyrsta skipti til Sovétríkjanna. Á nasistatímanum var hún handtekin og höfð í haldi í stuttan tíma, bækur hennar bannaðar og brenndar. Stuttu seinna flytur hún til Sviss og þaðan til Frakklands en árið 1941 tekst fjölskyldu hennar að flýja til Mexíkó. Árið 1942 kom síðan út hennar þekktasta skáldsaga, Das siebte Kreuz, á ensku í Bandaríkjunum en á þýsku í Mexíkó. Ári síðar var svo gerð kvikmynd eftir sögunni sem varð til þess að Seghers hlaut heimsfrægð. Árið 1947 flytur hún aftur til Berlinar og fimm árum síðar verður Seghers forseti rithöfundasambands Austur-Þýskalands og gegndi hún því embætti frá 1952-78. Allt til æviloka bjó hún í Berlin og í dag er íbúð hennar safn til minningar um líf hennar og störf.
Á þýsku: Das siebte Kreuz (1993), Transit (1993)



Klaus Mann
(1906-1949)

Faðir Klaus var rithöfundurinn Thomas Mann en samband þeirra var alltaf stirt. Klaus var samkynhneigður og þurfti af þeim sökum að þola mikið mótlæti og fordóma. Hann var sviptur þýskum ríkisborgararétti árið 1933 og yfirgaf Þýskaland í kjölfarið enda yfirlýstur andstæðingur nasista. Hann flutti til Amsterdam en fékk tékkneskt ríkisfang. Árið 1936 settist hann að í Bandaríkjunum og fékk ríkisborgararétt þar í landi sjö árum síðar.
Klaus hóf ungur að skrifa og hans fyrstu verk voru útgefin áður en hann varð tvítugur. Mefístó er án efa hans þekktasta verk, skrifuð árið 1936. Bókin olli miklu fjaðrafoki enda var aðalsöguhetjan byggð á frægum þýskum leikara og fyrrum mági Klaus, Gustaf Gründgren. Ættleiddur sonur Gründgrens höfðaði mál á hendur Klaus Mann og var bókin bönnuð í Þýskalandi. Það ótrúlega er að bókin fékkst ekki útgefin þar í landi fyrr en árið 1981 og náði fljótt metsölu. Það sama ár gerði ungverski kvikmyndaleikstjórinn István Szabó kvikmynd eftir bókinni sem hlaut einróma lof og Óskarsverðlaunin sem besta erlenda myndin. Þótt Mefistó sé þekktasta skáldsaga Klaus Mann er vert að gefa öðrum verkum hans gaum og þá sérstaklega Der Vulkan sem kom út árið 1939.
Klaus Mann lést af eigin völdum árið 1949 í Cannes í Frakklandi eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af svefntöflum.
Íslenskar þýðingar: Mefistó. Saga af listamannsferli (1995).
Á þýsku: Bitter ist die Verbannung, bitterer noch die Heimkehr (myndband 1999), Flucht in den Norden (1990), Symphonie pathétique : ein Tschaikowsky-Roman (1979)
Treffpunkt im Unendlichen die Lebensreise des Klaus Mann (myndband)

Heinrich Böll
(1917-1985)

Uppvaxtarár Heinrichs Böll voru ófriðartímar; hann fæddist inn í fyrri heimsstyrjöldina og barðist í þeirri síðari sem ungur maður. Fyrir vikið eru stríðshörmungar honum hugleiknar í fyrstu skáldsögum hans – þar má nefna sögurnar Lestin kom tímanlega (Der Zug war pünktlich) og Hvar ertu Adam? (Wo warst du, Adam?). Smám saman víkkaði sjónarhornið og sögur Böll fóru í meira mæli að snúast um þá breyttu heimsmynd sem blasti við eftir stríðið. Skáldsagan Og sagði ekki eitt einasta orð (Und sagte kein einziges Wort) er könnun á fátækt og hjónabandsörðugleikum. Árið 1963 kom út skáldsagan Trúðurinn (Ansichten eines Clowns) þar sem rakin er saga látbragðslistamannsins Hans Schneir. Sagan er könnun á firringu nútímans og gjaldþroti kristins siðferðis í evrópsku samfélagi eftirstríðsáranna. Verk Bölls þróuðust með árunum út í aukna ádeilu á lögmál kapítalísmans og þau vandkvæði sem honum fylgja. Dæmi um slíka sögu er Mannorðsmissir Katrínar Blum (Die verlorene Ehre der Katharina Blum) frá 1974 sem er harkaleg ádeila á sorpblaðamennsku. Heinrich Böll fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1972.
Íslenskar þýðingar: Og sagði ekki eitt einasta orð (1983), Trúðurinn (2000), Mannorðsmissir Katrínar Blum (2003).
Á þýsku: Unberechenbare Gäste (1964), Wo warst du Adam? (1984), Frauen vor Flusslandschaft (1985), Frühe Erzählungen (hljóðbók 1987), Mein Lesebuch (1989), Die verlorene Ehre der Katharina Blum: oder Wie Gewalt entstehen und wohin sie führen kann (1992), Dr. Murkes gesammeltes Schweigen (hljóðbók 1995), Heinrich Böll (myndband),

Utta Danella
(f.1924)

Utta Danella er ein af vinsælustu og þekktustu kvenrithöfundum 20. aldar. Selst hafa rúmlega 70 milljónir eintaka af bókum hennar og nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir skáldsögum hennar. Hún sló í gegn með fjórðu skáldsögu sinni, Stella Termogen - Die Versuchungen der Jahre, árið 1960, en sú bók seldist á skömmum tíma í meira en eitt hundrað þúsund eintökum. Utta Danella er afar fjölhæfur rithöfundur; hún hefur skrifað auk skáldsagna, fræðibækur, smásögur og unglingabækur. Þá hefur hún einnig fengist við þýðingar og hefur þýtt bækur úr ensku yfir á þýsku.
Á þýsku: Der dunkle Strom (1977), Die Unbesiegte (1989), Der blaue Vogel (2001), Alles Töchter aus guter Familie (2005)




Günter Grass
(f. 1927)

Blikktromman (Die Blechtrommel) er frægasta verk Grass, oft nefnt lykilverk í evrópskum töfraraunsæisbókmenntum en alveg óhætt líka að segja að verkið sé eitt af höfuðverkum heimsbókmennta 20. aldarinnar.
Í Blikktrommunni er að finna uppgjör við lífið í Þýskalandi á tímum nasismans og óvægna spegilmynd af vestur-þýskri samtíð. Leikstjórinn Völker Schlöndorf gerði eftirminnilega kvikmynd eftir Blikktrommunni árið 1979 sem hlaut fjölda verðlauna, m.a. Gullpálmann í Cannes.
Grass hefur einnig ort ljóð og samið leikrit auk fjölda ritgerða um menningarmál og stjórnmál en hann hefur leitast við að ýta undir pólitíska virkni annarra rithöfunda. Verk Grass hafa oftar en ekki sterkar pólitískar skírskotanir og sjálfur hefur höfundurinn lengi verið virkur stuðningsmaður Jafnaðarmannaflokks Þýskalands. Þá hefur hann einnig verið virkur stuðningsmaður hinna ýmsu friðarsamtaka. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1999.
Íslenskar þýðingar: Köttur og mús (1978), Blikktromman (1998-2000), Krabbagangur (2007)
Á þýsku: Der Butt (1977), Die Blechtrommel (1984), Die Rättin (1986), Mein Jahrhundert (1999), Im Krebsgang:eine Novelle (2002)
Die Blechtrommel (myndband), Katz und Maus (myndband), Porträt Günter Grass (myndband + bók)


Christa Wolf
(f. 1929)

Christa Wolf er fædd og uppalin í Austur-Þýskalandi og var einn helsti samtímahöfundur þess ríkis á meðan það var og hét. Var hún oft í ónáð hjá yfirvöldum fyrir viðhorf og efnistök í verkum sínum. Hún nam þýsku í háskólanum í Jena og Leipzig og giftist árið 1951 rithöfundinum Gerhard Wolf.
Christa Wolf telst ein af mikilvægustu kvenrithöfundum Þýskalands í dag. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og hefur hún hlotið fjölda verðlauna fyrir þau. Auk fjölda skáldsagna hefur hún meðal annars samið smásögur, útvarpsleikrit, ritgerðir um bókmenntir og umhverfismál og svo kvikmyndahandrit. Þekktustu verk hennar eru Der geteilte Himmel, 1963, Nachdenken über Christa T, 1969, Kindheitsmuster, 1976, og Kassandra, 1983, sem kom út í íslenskri þýðingu fjórum árum síðar. Í verki sínu sínu, Kassandra, leitast Christa Wolf við að endurskapa sagnir úr grískri bókmenntahefð og skoða þær út frá femínísku sjónarhorni, og vakti það verðskuldaða athygli.
Íslenskar þýðingar: Kassandra (1987).
Á þýsku: Der geteilte Himmel (1978), Kindheitsmuster(1994), Medea: Stimmen (1998),) Leibhaftig (2002), Leibhaftig (hljóðbók 2002)





Sandra Paretti
(1935-1994)

Eftir að Sandra Paretti lauk stúdentsprófi árið 1953 lagði hún stund á tónlistarnám og síðar þýsku. Um skeið vann hún sem blaðamaður fyrir Münchener Abendzeitung. Fyrsta skáldsaga hennar, Rose und Schwert, sem út kom árið 1967, varð strax mjög vinsæl.
Bækur Söndru Paretti eru aðallegar félagslegar skáldsögur með sögulegum bakgrunni. Þær hafa verið þýddar á 28 tungumál og heildarupplag þeirra er yfir 30 milljónir eintaka, og þar með tilheyrir hún víðlesnustu höfundum þýskrar tungu.
Sandra Paretti framdi sjálfsvíg eftir að hafa greinst með ólæknandi sjúkdóm. Þann 14. mars 1994 birtist dánartilkynning sem hún hafði sjálf skrifað og greindi frá ákvörðun hennar og vakti hún að vonum mikla athygli.
Á þýsku: Tara Calese (1988)

Bernhard Schlink
(f. 1944)

Sekt og réttlæti eru meðal helstu viðfangsefna skáldsagnahöfundarins Bernhards Schlink, enda er hann menntaður lögfræðingur. Flestar sagna hans falla í flokk glæpasagna, þ.á.m. tvær þær fyrstu: Refsing Selbs (Selbs Justiz) og Gordíonshnúturinn (Die gordische Schleife).

Nú er álitið að Schlink hafi blásið nýju lífi í þýsku sakamálasöguhefðina, en saman við spennandi söguþráðinn tókst honum oft að tvinna greiningu á samfélagsvandamálum. Vatnaskil urðu á ferli Schlinks 1995 þegar bók hans Der Vorleser (Lesarinn) kom út. Þar segir frá táningsdreng sem á í ástarsambandi við konu um þrítugt, en samband þeirra fær snöggan endi þegar konan hverfur fyrirvaralaust. Nokkrum árum síðar hittast þau aftur, þá er drengurinn í laganámi og fylgist með því þegar fyrrverandi ástkona hans situr fyrir svörum sem sakborningur í dómssal. Uppgjör elskendanna tekur þannig óvænta stefnu – það reynist aðeins hluti af enn stærra uppgjöri sem snertir alla þýsku þjóðina.
Um Bernhard Schlink hefur það verið sagt að hann sé sérstaklega beittur í því að kryfja sögupersónur sínar og lýsa og greina breytni þeirra án þess þó að setjast í dómarasæti.
Íslenskar þýðingar: Lesarinn (2000), Ástarflótti (2004).
Á þýsku: Der Vorleser (1995), Liebesfluchten (hljóðbók 2000), Selbs Mord (2003)

Patrick Süskind
(f. 1949)

Patrick Süskind varð fyrst þekktur árið 1981 fyrir einleikinn Kontrabassann (Der Kontrabass) en vinsældir hans náðu nýjum hæðum fjórum árum síðar með skáldsögunni Ilmurinn. Saga af morðingja (Das Parfüm. Die Geschichte eines Mörders). Sú saga gerist í Frakklandi á átjándu öld og greinir frá dularfullum manni sem myrðir ungmeyjar til þess að geta endurskapað ilminn af þeim.
Sú mikla frægð sem Süskind hefur hlotnast með verkum sínum hefur aldrei verið honum að skapi enda leggur hann sig í líma við að forðast sviðsljós fjölmiðla, hann veitir aldrei viðtöl og tekur ekki við verðlaunum. Skáldsagnapersónur Süskinds eru um margt líkar honum sjálfum, sögur hans fjalla gjarnan um einfara sem hafna samneyti við annað fólk en eru þó haldnir þrá eftir viðurkenningu og hlýju. Bækur Süskinds eru jafnan margslungnar: Þær eru í senn skrifaðar fyrir þá sem unna snjöllum söguþræði og þá sem vilja kafa undir yfirborðið.
Íslenskar þýðingar: Ilmurinn (1987), Dúfan (1989).
Á þýsku: Der Kontrabass (1984), Das Parfüm : die Geschichte eines Mörders (1985), Die Taube (1987), Die Geschichte von Herrn Sommer (1991)

Annað: Autorenlesungen 1-6. (nokkrir þýskir höfundar, Heinrich Böll Günter Grass o.fl.) (hljóðbók)

Bókasafn Hafnarfjarðar
Strandgötu 1






Texti: Svanur Már Snorrason og Brigitte Bjarnason