Til örlítillar
athugunar og umfjöllunar
er hér smásagan Undir Eldfjalli eftir Svövu Jakobsdóttur sem er
að finna í samnefndri bók sem kom út árið 1989 hjá Forlaginu
og inniheldur sex smásögur.
I
Hjónin, Gerður og Loftur, sem komin
eru á efri ár hafa nýlega fest kaup á landskika sem er rétt
undan eldfjallinu fræga, Heklu; - þau hafa hugsað sér að græða
skikann upp og byggja sér þar bústað. Þegar sagan hefst liggja
þau við í tjaldi á nýkeyptu eignarlandinu og eru að bíða
eftir komu sonar síns sem heitir Yngvi og konu hans, Heiðu, og
barni þeirra sem er varla meira en nokkurra mánaða gamalt. Þau
bíða spennt eftir komu þeirra og áliti á þessum kaupum og
virðist það skipta þau hjónin þó nokkuð miklu máli hvaða
álit ungu hjónin fá á ráðagerðum þeirra og þó alveg
sérstaklega eftir skoðun sonarins. Það er eins og þau vilji fá
staðfestingu á því að það, sem þau ætla sér með kaupum á
landinu, sé bæði gott og rétt:
Yngvi þagði svo lengi
að vart var einleikið. Svo slakaði hann á einbeitingunni,
svipurinn óræður, í mótsögn við léttleika raddblæsins þegar
hann kvað upp dóminn: Til ills fórum vér um góð héruð.
Merkikerti sagði móðir hans. Hann ætlaði þá ekki að láta
neitt uppskátt. Nú yrði að draga þetta upp úr honum, hvað
honum raunverulega fyndist. (13-14)
Í sögunni er fylgt sjónarhorni
Gerðar og verður hún lesandanum nokkurskonar leiðarvísir í
gegnum landskikann og náttúru hans og söguna sjálfa (Í fimm af
þeim sex sögum sem eru í bókinni er sjónarhorn konu notað).
II
Þegar við kynnumst persónum
sögunnar og fylgjum þeim síðan um landskikann virðist sem svo að
eitthvað kraumi undir niðri á milli eldri hjónanna annarsvegar og
sonarins hinsvegar. Ekki þannig að það sé bein óvild þeirra í
millum en eitthvað er það þó sem sækir þannig á hugann og
veldur því að maður fær á tilfinninguna að eitthvað óbeint
sé að, einkum og sér í lagi gagnvart Yngva, en skynjar það
einnig úr huga Gerðar og Lofts. Það er einna líkast því að
Yngva sé illa við þetta brölt foreldra sinna og finnist þau vera
komin yfir þann aldur að vera að taka á sig nær óvinnandi
verkefni þegar þau gætu og ættu frekar að una vel sínum hag
heima hjá sér þar sem garðurinn er fullræktaður og aðeins þarf
að halda við:
Og í svipleiftri, í
sömu mund og Loftur dró hann burtu og sagðist ætla að sýna
honum tætturnar, hafði Gerður séð inn í hug hans og varð
undrun slegin. Sonur þeirra hafði áhyggjur af þeim! Þungar
áhyggjur. Hann óttaðist að þau væru ekki fær um þetta! (16)
Kannski má segja að í vantrú
Yngva á fyrirætlunum foreldra sinna felist raunsæi blandað
kærleik; auðvitað vill hann þeim ekki illt, en hann metur stöðuna
þó kalt: Landskikinn er örfoka svæði undir eldfjalli og þau
komin á efri árin. Ef til vill finnst honum að hlutverki þeirra
sem ræktenda sé lokið; hann er floginn úr hreiðrinu og búinn að
koma sér ágætlega fyrir og – eins og áður er vikið að – þá
er fullræktaður og fallegur garður heima fyrir hjá þeim. Hann er
sjálfur byrjaður að rækta garðinn sinn, kominn með konu og
barn, finnst ef til vill að nú sé sinn tími í garð genginn hvað
þetta varðar, en tími kominn á þau að slaka á og njóta
elliáranna sem framundan eru í kyrrð og rólegheitum. Það er
eins og honum finnist þau vera að ryðjast inn í hans hlutverk –
hlutverk sem hann hafði tekið við af þeim:
… hjálpi
mér, hugsaði Gerður, þetta er svipurinn sem hann fæddist með …
undrandi, ráðvilltur, áhyggjufullur … hvað hafði hann brotið
af sér?
Og
stamaði: Ég meinti bara … Ég meinti bara … Þetta er verra en
ég bjóst við! (16)
III
Gerður og Loftur eru einskonar
landnemar sem horfa ekki með hryllingi til allrar vinnunnar sem
framundan er heldur með tilhlökkun þess manns sem horfir bjartsýnn
og jákvæður fram á veginn – burtséð frá aldri og fyrri
störfum. Þau hafa gróðursett þúsund birkiplöntur og maður
skynjar að áður en um langt líður verði þarna allt komið á
fullt. Þau eru í raun og veru að leggja til atlögu við óblíð
náttúruöflin, en það kemur fram í sögunni að fyrr á tímum
hafi verið þarna gróðursælt og fallegt land sem nánast hafi
þurrkast út gróðurfarslega á skömmum tíma í umbrotum
náttúrunnar. Nálægð hinna óblíðu náttúruafla –
eyðileggingaraflanna – virðist fremur hvetja en letja; - kannski
tengist þetta hinni eilífu baráttu mannsins við náttúruna og
tilraunum hans til að temja hana – ná valdi yfir henni og stjórn.
En hvort heldur það er nú málið eða eitthvað annað, þá eru
þau hjónin meðvituð um fallvaltleika lífsins og tengsl þess við
náttúruna:
Það var blæjalogn og
skafheiðríkt, einn af þessum sjaldgæfu hitabreyskjudögum sem
gefur ekki á Íslandi nema fyrir einstaka náð. Aldrei gerir fólk
ráð fyrir tveim þess konar dögum í röð, hvað þá þrem. Hver
slíkur dagur er hinn síðasti. Nauðugur viljugur nærist því
fögnuður þessara fögru daga á djúplægum grunni um fallvellti
lífsins. Á morgun skellur á slagveður! (9)
En þrátt fyrir allt þetta og
efasemdir Yngva eru þau ekki tilbúin að leggja árar í bát –
þau vilja halda áfram að skapa og byggja upp. Þau virðast sátt
við lífsbaráttuna eins og hún hefur verið og er og það er
meginorsökin fyrir því að þau eru í sátt við sjálfa sig og
umhverfi sitt. Sáttin við sjálfa sig veldur því að þau eru
reiðubúin að takast á við ný verkefni; þau girnast ekki
rólegheit og kyrrstöðu þótt komin séu nokkuð til aldurs, þau
vilja lifa lífinu lifandi meðan heilsa og kraftar endast. Þannig
koma þau mér fyrir sjónir, hjónin Gerður og Loftur.
IV
Eins og áður sagði er það
sjónarhorn Gerðar sem höfundur notar í sögunni; - um leið og
hún fylgir Yngva og Heiðu um landskikann, þá sýnir hún
lesandanum náttúruna sem er næstum því við hvert fótmál og
það er greinilegt að Gerður er mjög næm á hana. Hún virðist
skynja vel það líf sem þarna lifir og hún sér fyrir þá
möguleika sem þarna eru fyrir hendi til starfs og ræktunar þrátt
fyrir hraun og hrjóstur. Á þessum landskika ber margt fyrir augu
sem vitnar um hina eilífu hringrás sköpunar og eyðileggingar:
Undir
barðinu breytti landið um svip. Þar rann lækjarspræna sem spratt
undan hraunbrúninni í norðri. Vöxtur lyngs og víðikjarrs á
lækjarbakkanum kom á óvart og gladdi hraunþreytt augu, en handan
lækjar blasti við gamalt valllendi sem hrossanálar höfðu lagt
undir sig þó seigur grávíðirinn tregðaðist við. Fjær
skiptust á móar og þunngrónar hraunöldur. Í fjarska, langt utan
girðingar, trónaði grá melbunga alauð, yfirgefin af öllum nema
þyrpingum af kolsvörtum dröngum, líkastir skessum sem dagað
hefði uppi á þingi. (21)
V
Sumir menn vilja ávallt feta troðnar
slóðir og ekki taka mikla áhættu. Yngvi virðist vera einn af
þeim. Þar með er ekki sagt að hann sé verri maður eða heigull
því að hann hefur tekist á við nám og starf og á þar að auki
góða fjölskyldu. Hann hugsar ólíkt foreldrum sínum en skoðanir
hans á brölti þeirra á landskikanum jaðra við forsjárhyggju –
og það er ekki af hinu góða. Honum finnst sennilega að athæfi
þeirra hæfi ekki aldrinum en gleymir því að aldur er, oft og
tíðum, ekki endilega mælikvarði á getu fólks. Hinar troðnu
slóðir mannanna geta í sumum tilvikum snúist í andhverfu sína,
til dæmis gagnvart dýrum, og orðið hið mesta hættusvæði þar
sem enginn er óhultur og hættur leynast við hvert hjólfar, en
geta þó um leið orðið táknrænar fyrir leit mannsins að vísum
vegi og öruggu skjóli; - en sértu ósáttur við framgöngu þína,
líf þitt og starf, þá ertu hvergi óhultur:
Sandlóuungarnir.
Einkennilegt háttalag á þessum ungum. Þau höfðu sjálf orðið
fyrir þessu. Örsmáir fuglsungar, nýskriðnir í heiminn, virtust
sækja í hjólförin … eða lentu þangað óvart … og hlupu
síðan langar leiðir undan bílnum, ruglaðir og sprengmóðir,
riðandi á mjóum, veikburða títlunum. (11)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli