sunnudagur, 15. september 2013

Breyttir tímar

Bókasafn er staður þar sem öllum á að líða vel: fullorðnum, unglingum og börnum.
Og í dag er raunin sú.
En það hefur margt breyst í áranna rás þegar að bókasöfnum kemur; þegar ég var lítill var mín tilfinning að bókasafnið væri staður fyrir útvalda; námsfólk, fræðimenn og grúskara – fullorðna. Ekki börn og unglinga.
Sem barn og unglingur var tilfinningin sú að maður væri ekki neitt sérstaklega velkominn á safnið, og það mátti hvorki heyrast hósti né stuna. Bókasafnið minnti mig oft á grafhýsi þar sem varðveittar voru bækur sem einungis fáir máttu lesa.
En batnandi mönnum er best að lifa, og í dag er staðan allt önnur og betri.
Bókasöfn í dag eru lifandi og hlýlegir staðir, öllum opnir – þangað eru allir velkomnir.
Þessar breytingar tóku sinn tíma, en sem betur fer heyra úreldar og leiðinlegar hugmyndir um bókasöfn sem stað fyrir fáa útvalda fortíðinni til.
Í dag er bókasafn ekki síst staður barna og unglinga, og þau finna það sjálf; finna að þau eru velkomin. Og þangað sækja þau líka í stórum stíl. Dvelja þar með vinum, skoða bækur og önnur gögn, sér til gamans og fræðslu.
Á bókasafninu er líka alltaf eitthvað í gangi. Í sumar, hjá okkur í Hafnarfirði, var til dæmis sumarlestur barnanna, frá júní og fram í miðjan ágúst, þar sem allir fengu umbun fyrir þátttökuna. Þar eru börn hvött til lesturs, og ekki bara þau hraðlæsu – hæglæs og lesblind börn eru hvött áfram, enda eiga þau jafnmikið erindi á bókasafnið. Og úrvalið er mikið; skáldsögur, ljóð, fræðsluefni, hljóðbækur, tímarit og teiknimyndabækur, Andrésblöð og ég veit ekki hvað og hvað. Allt sem ýtir undir aukinn áhuga á lestri er hið besta mál.
Þá er vert að geta þess að börn og unglingar eru dugleg að koma á safnið til að afla sér upplýsinga og heimilda varðandi ritgerðarskrif og önnur verkefni í skólanum. Einnig er boðið upp á sögustundir á barna- og unglingadeildinni, og leikskóla- og grunnskólakennarar eru duglegir við að koma í heimsókn með bekkina sína. Og þá er svo sannarlega líf og fjör á bókasafninu, eins og það á að vera.
Í gamla daga var stórt nei svarið við spurningunni: eiga börn og unglingar erindi á bókasöfn?
Í dag er svarið já. Já með stóru joði.
Í dag er bókasafnið ígildi góðrar félagsmiðstöðvar, og það kostar ekkert inn fyrir börn og unglinga.
Verið velkomin, öll.



Svanur Már Snorrason, þjónustufulltrúi á Bókasafni Hafnarfjarðar, rithöfundur og fyrrv. ritstj.

(Morgunblaðið, 10. september 2013)

Engin ummæli: