mánudagur, 7. febrúar 2011

Pæling um áþreifanlega peninga


Er óeðlilegt að ég kaupi bensín á bílinn fyrir fimm þúsundkallinn sem mamma þín og pabbi mínir gáfu mér í afmælisgjöf í gær?

Spurningunni er svarað á þann hátt að henni þyki það í hæsta máta óeðlilegt og óviðeigandi og svo spyr hún mig hvort ég hafi raunverulega gert það; keypt bensín fyrir fimmþúsundkallinn.

Ég svara því til að bensínið sé nú ekki beint ódýrt þessa dagana og því hafi ég og hún verið að keyra á nánast tómum tankinum undanfarnar vikur, alltaf takandi fyrir fimmhundruð kall og stundum minna og það geti hreint ekki farið vel með bílinn né sálarástand okkar beggja.

Hún spyr hvað ég meini með þessu en ég vil frekar ræða um fimmþúsundkallinn og hvað hann þýði sem gjöf. Einhver réttir mér fimmþúsundkall sem gjöf, í þessu tilviki foreldrar hennar, það er þakkavert og því var sinnt; það var þakkað fyrir sig með kossum og faðmlögum.

Hún setur upp fýlu- og vandlætingarsvip.

Ég hins vegar held áfram að tala.

Sko, ef ég kaupi bensín fyrir þennan fimmþúsundkall þá er það ekki endilega gjöf þeirra til mín; þau keyptu ekki handa mér bensín!

Nú hvað þá, öskrar hún á mig og öskrar svo aftur: Djöfull geturðu verið leiðinlegur og tillitslaus. Þau vildu þér bara vel með því að gefa þér þennan pening og ætluðust örugglega ekki að þú færir og keyptir bensín eða færir og verslaðir í Bónus fyrir helgina fyrir peninginn. Þú ert tillitslaus dóni, ég skil stundum ekkert í mér að nenna að hanga með þér.

Ég verð að þjást í kvöld og meginþorrann úr næstu viku sem hefst á morgun. En hvað um það – ég verð að fá að ræða um fimmþúsundkallinn, annars frýs ég eins og allar tölvurnar í gegnum tíðina sem fengu ekki næga aðhlynningu.

Ég þykist viss um að gjafir snúist ekki um formið, seðilinn, í þessu tilviki fimmþúsundkall. Hann er í ákveðnu formi og flestir vita hvernig hann lítur út. Ég er að reyna að segja minni heittelskuðu að þótt ég fari og eyði nákvæmlega þessum seðli sé það sem ég keypti fyrir hann ekki endilega afmælisgjöfin mín. Þetta snúist um ákveðna hugsun sem ekki sé tengt að nokkru leyti sjálfum seðlinum sem mér var gefinn. Ég veit reyndar ekki hvað Wittgenstein myndi segja um þessar pælingar mínar en gjarnan myndi ég vilja vita það.

Ég eyddi seðlinum í eina kippu af ódýrum bjór og síðan fóru fjögur þúsund krónur í bensín á minn gamla en góða bíl. En ég leit ekki og lít ekki á bensínið og bjórinn sem afmælisgjöfina sem tengdaforeldrar mínir gáfu mér þótt ég hafi vissulega borgað með seðli sem þau gáfu mér fyrr um daginn.

Að mínu mati er það deginum ljósara að það sem þú ætlar þér í huganum sem afmælisgjöf handa sjálfum þér fyrir fimmþúsundkallinn sé hin raunverulega afmælisgjöf þótt þú fjárfestir ekki í henni fyrr en talsvert eftir að þú fékkst umræddan seðil í hendurnar.

Djöfulsins bull er þetta, segir hún eldrauð og virkilega öskureið og gerir sig líklega til að henda í mig þungum og forláta öskubakka sem pabbi gaf mér um daginn þegar hann var að hreinsa út úr geymslunni sinni.

Þessi öskubakki er ljótur, klunnalegur og skítugur og virðist hafa verið partur af einhverskonar Keflavíkurgöngusyndrómi sem ég get ekki alveg gert grein fyrir á þessari stundu enda þarf ég að hafa mig allan við að komast undan öskubakkanum – hann myndi án efa meiða mig eða rota og í það minnsta skilja eftir stórt og mikið mar, fjölskrúðugt að lit og lögun.

En ég næ að beygja mig og öskubakkinn lendir á blessuðum heimiliskettinum sem bjóst greinilega við einhverju allt öðru og hvæsir hressilega í átt að konu minni og það hef ég hann aldrei séð gera. Hann hefur oft hvæst á mig.

Konu minni er verulega brugðið og mér sýnist sem svo að hún vorkenni kettinum mikið og að hún skammist sín mikið fyrir að hafa kastað öskubakkanum í hann en sé jafnvel orðin enn reiðari í minn garð. Það ég fæ ekki skilið því ég var bara að reyna að rökræða við hana.

Engin ummæli: