þriðjudagur, 8. febrúar 2011

Saga úr sveit


Birgir og Ísleifur koma inn í herbergið.
 
Birgir: Við verðum að biðja ykkur báða um að fara.
 
Ísleifur: Við verðum.
 
Þorgeir og Steini líta á hvorn annan og kinka kolli og fara.
 
Birgir: Þeir eru ágætir menn en þessi staður og þessi stund getur reynst þeim hættuleg.
 
Ísleifur: Þeir vita það.
 
Birgir: Ætli það sé til eitthvað að borða?
 
Ísleifur: Já.
 
Birgir: Ég myndi ekki slá hendinni á móti svo sem einni Sóma samloku með roast beaf, remolaði og steiktum.
 
Ísleifur: Það myndi ég ekki heldur gera. Mér er það þó til efs að ísskápurinn hafi að geyma slíkt góðgæti.
 
Þorgeir stingur inn höfðinu og segir: Það eru til samlokur, ég fór í Bónus í gær. Keypti fullt af samlokum með roast beaf, remolaði og steiktum. Verið ekki feimnir við þær.
 
Ísleifur: Hafðu þökk fyrir. Gleymdu ekki að taka skiptimiða.
 
Birgir: Það er kalt úti. Mundirðu eftir eyrnaskjólunum?
 
Ísleifur: Hann er farinn, heyrir ekki í þér. Mér sýndist þó hann vera með eyrnaskjólin, er þó ekki alveg viss. Finnst ég vera farinn að taka ver eftir. Athyglisgáfan er eitthvað farin að svíkja mig.
 
Birgir: Það er margt sem svíkur mann þessa dagana. Fuglarnir syngja ekki jafn fallega og hér áður. Og það er búið að byggja í brekkunni.
 
Ísleifur: Þeir höfðu nú fullan rétt á því.
 
Birgir: Mikið væri gott að leggja sig núna.
 
Ísleifur: Satt segirðu. Þú veist þó að það kemur ekki til greina nú. Við verðum að hinkra aðeins lengur - þeirra tími er ekki alveg kominn en það er alveg kominn tími á okkur.
 
Birgir: Farðu nú ekki að tala um að tíminn sé afstæður, eina ferðina enn. Mér er það fullljóst og öllum hér líka. Mig langar bara til að leggja mig.
 
Ísleifur: Þetta verður allt að vera þrungið merkingu, annars er ekkert í þetta varið.
 
Birgir: Þetta verður allt að vera þrungið merkingu, annars er ekkert í þetta varið. Ég held að ég hafi heyrt þetta áður.
 
Ísleifur: Það verður að halda þér við efnið. Þú ert svo óþolinmóður aðra stundina en þreyttur hina. Það verður að halda þér við efnið. Þeirra tími er ekki kominn og við verðum að standa vaktina.
 
Birgir: Ég er orðinn leiður á þessu. Alltaf að hanga á einhverjum stöðum öðrum til verndar. Ekkert að gera, ekkert að gerast. Ég þoli þetta ekki lengur.
 
Ísleifur: Mér finnst nú fleiri en ég vera farnir að endurtaka sig.
 
Birgir: Æi, góði þegiðu nú.
 
Ísleifur: Þegiðu bara sjálfur.
 
Þögn. Síðan fallast þeir í faðma.
 
Birgir: Við skulum ekki rífast.
 
Ísleifur: Aldrei aftur.
 
Birgir: Þú veist vel hvernig ég get látið. Þeir eru misjafnir dagarnir.
 
Ísleifur: Næstum því eins og þeir eru margir. Þó ekki.
 
Þögn. Smá bið. Þeir horfa í kringum sig og uppí loftið.
 
Ísleifur: Ég held að þetta sé liðið hjá. Við getum hleypt þeim inn aftur.
 
Birgir: Heldurðu að það sé óhætt? Væri ekki nær að bíða aðeins lengur?
 
Ísleifur: Nei, þetta er allt orðið þrungið merkingu, ég finn það.
 
Birgir: Varstu að bíða eftir því? Mér er skítsama um þessa merkingu. Ég hef aldrei fundið hana og mun væntanlega ekki.
 
Ísleifur: Maður finnur ekki nema að maður leiti.
 
Birgir: Maður verður að hafa þörf fyrir að leita. Hana hef ég ekki. Og hana nú.
 
Ísleifur: Svona, hleyptu þeim inn.

Engin ummæli: