miðvikudagur, 16. febrúar 2011

Áhrif erlendra leikmanna á íslenskan körfuknattleik


Fyrir keppnistímabilið í körfuknattleik 1975-6 var í fyrsta sinn leyfilegt að nota einn erlendan leikmann í hverju liði en eftir keppnistímabilið 1982-3 var ákveðið að banna erlendum leikmönnum að spila hér á landi. Það bann stóð til haustsins 1989 en þá var það aftur afnumið og við það situr enn í dag. Langflestir leikmennirnir hafa verið Bandaríkjamenn en þó hefur hingað slæðst einn og einn frá öðrum löndum.

Til að meta áhrif erlendra leikmanna á íslenskan körfuknattleik leitaði DV álits þeirra Gunnars Þorvarðarsonar, Jóns Sigurðssonar og Torfa Magnússonar, sem allir eru margreyndir landsliðsmenn og eiga að baki gifturíkan feril bæði sem leikmenn og þjálfarar. Þá voru þeir einnig beðnir um að segja álit sitt á því hver væri besti erlendi leikmaðurinn sem hingað hefði komið.

Gunnar Þorvarðarson

Í upphafi höfðu þessir leikmenn miklu meiri áhrif á íþróttina en þeir hafa í dag, enda voru þeir, sem komu hingað fyrstu árin, miklu betri en bestu íslensku leikmennirnir og höfðu þar af leiðandi afgerandi áhrif á hvernig liðunum vegnaði. Þeir trekktu að áhorfendur og áhorfendur fengu þá í fyrsta sinn að berja augum leikmenn sem gátu troðið með tilþrifum og voru geysilega flinkir með boltann. Margir af þessum strákum sem komu hingað voru í augum okkar íslensku leikmannanna algjörir galdramenn, ég tala nú ekki um í augum áhorfendanna.

Fyrstu árin lyftu þessir leikmenn íslenskum körfubolta á hærra plan og juku áhuga fyrir honum og margt annað jákvætt fylgdi þeim í kjölfarið. Í dag er staðan gjörólík því sem hún var fyrir aldarfjórðungi. Sem betur fer hefur getu íslenskra leikmanna fleygt mikið fram og þar spila margir þættir inní, eins og til dæmis bætt aðstaða til æfinga og leikja, meiri og betri menntun þjálfara og ekki síst það að krakkar byrja að æfa mikið fyrr en áður var. Þetta hefur orðið til þess að bilið milli íslenskra og erlendra leikmanna hefur minnkað. Í dag er staðan þannig að erfitt er að fá hingað til lands leikmenn sem eru miklu betri en þeir íslensku nema fyrir fúlgur fjár, en því miður er fjárhagsleg geta íslensku liðanna þannig að þau fá ekki hingað neina klassaleikmenn vegna þess að þau borga þeim lág laun miðað við önnur lönd en erlendir leikmenn kosta félögin núna í kringum tvær milljónir á keppnistímabili séu þau heppin. Ég er hreint ekki viss um að þeir leikmenn sem hingað fást dragi að fleiri áhorfendur eða bæti á einhvern hátt stöðu íþróttarinnar. Það væri því alveg sársaukalaust af minni hálfu þótt erlendum leikmönnum yrði bannað að spila hér í tvö til þrjú ár og peningarnir yrðu í staðinn nýttir í eitthvað annað, en það er harla ólíklegt að svo fari og er það vegna Bosmansmálsins svokallaða. Íslensku liðin myndu sennilega freistast til að fá hingað leikmenn frá evrópska efnahagssvæðinu í staðinn og ég veit ekki hvort það væri eitthvað betra.

Í mínum huga er Danny Shouse, Njarðvík, besti leikmaðurinn sem spilað hefur hér á landi en hann var afburða leikmaður og gjörsamlega óstöðvandi. Þá nefni ég Dirk Dunbar, ÍS, Petey Sessoms, Njarðvík, Darryll Wilson Grindavík og Damon Johnson sem lék með Keflavík og ÍA, svo að einhverjir fleiri séu nefndir.

Torfi Magnússon

Þegar fyrstu útlendingarnir komu hingað hafði verið stöðnun í íslenskum körfuknattleik í mörg ár þar sem ÍR og KR deildu með sér titlunum. Koma útlendinganna lyfti körfuboltanum á hærra plan og jók í beinu framhaldi áhuga og umfjöllun um íþróttina. Þessir menn komu með nýjar víddir, þeir voru allir mjög góðir og gátu miðlað okkur miklu. Áhrif fyrstu útlendinganna á leikmenn voru því mjög góð og mikil, en sérstaklega mikil á þá sem voru að þjálfa. Fram að þessu hafði þjálfun yfirhöfuð ekki verið upp á marga fiska hér, en margir sem nutu leiðsagnar þessara erlendu manna urðu seinna meir góðir þjálfarar. Aðalástæðan fyrir því að áhrifin urðu svona góð og mikil var sú að þessir leikmenn voru mjög vel valdir, - til dæmis fóru þrír menn héðan til Bandaríkjanna áður en þeir fyrstu komu til að skoða og velja leikmenn í æfingabúðum fyrir liðin hér. Í seinni tíð hefur alls ekki verið vandað nógu vel til verka varðandi val á leikmönnum og það er slæmt fyrir íþróttina. Af einhverjum orsökum var bannað að nota erlenda leikmenn árið 1983 og fannst mér það vafasöm ákvörðun. Það hefur oft verið um það talað að þeir peningar sem félögin safna til að borga þessum leikmönnum eigi frekar að fara í starf fyrir yngri flokka eða eitthvað þvíumlíkt. Staðreyndin er hins vegar sú að þótt erlendum leikmönnum sé bannað að leika hér þá er þessum peningum ekkert safnað til afnota fyrir starf í þágu yngri flokka, það er bara misskilningur.

Miklu skiptir að leikmanninum líði vel hér, enda var það svo í gamla daga, þegar þetta var að byrja, að þá var tekið á móti þessum strákum eins og einum úr fjölskyldunni og samskipti við þá voru náin og persónuleg. Margir af þeim sem spiluðu hér fyrir 20-25 árum eiga enn góða vini hér á landi og það segir meira en mörg orð. Í dag er þetta orðið miklu ópersónulegra og útlendingarnir halda sig mikið saman í hópum og hafa ekki eins mikil samskipti við íslensku leikmennina eins og áður. Þetta stafar af því að liðunum hefur fjölgað og þar af leiðandi koma fleiri leikmenn hingað og einnig vegna lélegs vals eins og áður er vikið að. En til þess að íslenskir leikmenn bæti sig verða þeir að keppa og æfa með mönnum sem eru betri en þeir.

Það er erfitt að velja einhvern einn sem þann besta og ég lít helst til leikmanna sem skilað hafa mestu fyrir félögin, eins og Ronday Robinson hjá Njarðvík, sem átti stóran þátt í mörgum titlum, og Jonathan Bow, sem hefur orðið íslandsmeistari með tveimur liðum. Þá voru þeir Danny Shouse, Njarðvík og Tim Dwyer Val frábærir; þeir skiluðu miklu fyrir heildina og það skiptir mestu máli þegar upp er staðið

Jón Sigurðsson

Koma erlendu leikmannanna hafði mikil og góð áhrif á körfuboltann í heild sinni og áhugi, aðsókn og umfjöllun jukust til muna. Þetta var í raun mikil vítamínsprauta fyrir allt félagsstarf tengt körfunni og sérstaklega gagnvart yngri flokka starfi því að fleiri krakkar fóru að æfa og öll uppbygging varð auðveldari, enda er það svo að með auknum áhuga kemur aukið fjármagn og framfarir fylgja í kjölfarið.

Að sjálfsögðu efldi þetta okkur leikmennina í meistaraflokki því að þessir leikmenn komu með margt nýtt og í raun nýjar víddir inn í íþróttina. Ég vil meina það að þessi fyrstu ár hafi körfuboltinn tekið sitt stærsta skref upp á við frá byrjun, en hápunkti þess tímabils var sennilega náð 1979 þegar KR og Valur léku hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn fyrir fullri Laugardalshöll og hafa aldrei komið jafn margir áhorfendur á körfuboltaleik.

En þetta fór fljótlega að dala, enda fóru erlendu leikmennirnir að rotta sig saman varðandi kaup og kjör og launagreiðslur fóru að mínu mati út í tóma vitleysu. Síðan tók við bann við erlendum leikmönnum í nokkur ár og ákveðinn stöðugleiki náðist en einnig fóru lið úti á landi að láta meira að sér kveða og var það hið besta mál.

Eftir að ákveðið var að leyfa erlendum leikmönnum að spila að nýju hér á landi jukust vinsældir körfuboltans mikið, en nú hélst það í hendur við gífurlegar vinsældir NBA- deildarinnar bandarísku. Markaðsvél hennar teygði anga sína út um allan heim og það komst í tísku að spila körfubolta. Þetta seinna tímabil byrjaði mjög skemmtilega og mikill áhugi og kraftur var samfara því, en það var líkt með þetta og fyrra tímabilið að senn tók að halla tók undan fæti og held ég að aðalástæðan fyrir því hafi verið slæmt val á leikmönnum. Þegar lið þurfa að flytja inn marga leikmenn á einu keppnistímabili bitnar það á félaginu í heild, ekki bara meistaraflokki, því að þessir litlu peningar sem félögin hafa handa á milli verða að nýtast vel. Eins og staðan er í dag þurfa félögin að taka sig á og vanda val erlendra leikmanna betur því að góðir og traustir erlendir leikmenn með jákvæðan persónuleika hafa góð og hvetjandi áhrif á íþróttina í heild.

Ég hef lengi sagt það og segi það enn að Jimmy Rogers, sem spilaði með Ármanni, er besti erlendi leikmaðurinn sem hingað hefur komið, frábær leikmaður sem smitaði út frá sér og skilaði miklu, en hann var einnig fyrsti erlendi leikmaðurinn sem hingað kom. Þá nefni ég einnig tvo ágæta leikmenn sem báðir voru með KR og unnu titla, þá John Hudson og Keith Vassell.

Texti: Svanur Már Snorrason

Greinin birtist í helgarblaði DV 23. september 2000.

þriðjudagur, 15. febrúar 2011

föstudagur, 11. febrúar 2011

Ef sannfæringin bilar á maður að hætta


Þröstur Helgason var um árabil einn helsti menningarpostuli landsins sem ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins. Hann hefur mikið velt fyrir sér lýðræðisumræðu og áhrifum nýrra miðla á reynsluheim fólks. Í viðtalinu gerir hann upp starfslokin á Morgunblaðinu og hvernig er komið fyrir blaðinu í dag.

SMS: Þú hefur fengist við að rannsaka hvernig ólíkir miðlar hafa áhrif á reynsluheim okkar. Á síðustu tveimur til þremur árum hefur sú óvenjulega þróun orðið að þorri íslensku þjóðarinnar á sér hliðarsjálf í einum og sama rafræna miðlinum, sem er Facebook. Hvaða áhrif heldurðu að þetta hafi á okkur til lengri tíma? Er hér ef til vill komin tilraun til að sameina þjóðarsjálfið á nýjan leik eftir stutt sundrunarskeið?

ÞH: „Ég sá um daginn frétt úr bresku blaði, minnir mig, þess efnis að skilnuðum hefði fjölgað vegna þess að gömul ástamál úr menntó eða jafnvel gaggó tækju sig upp við endurfundi á Fésbókinni. Þetta þykir mér alveg hreint lygilegt en fréttin er rétt lýsing á því hvaða áhrif nýir miðlar hafa, þeir breyta því í smáu og stóru hvernig við hegðum okkur, hugsum og skynjum. Nú hefur sú breyting orðið að auðvelt er að finna, eignast og efna til samskipta við vini á Fésbókinni. Fólk getur líka að vissu leyti endurskapað sig á Netinu, rafræna sjálfið þarf til dæmis ekki að vera jafnfeimið og óframfærið. Og sennilega má halda því fram að fólk sé almennt óheftara á Netinu en í veruleikanum. Það er ómögulegt að segja hvaða áhrif það á svo eftir að hafa á okkur til lengri tíma.
Og þjóðarsjálfið – tja, er það til? Er ekki þjóðin löngu horfin þótt fólkið sé hérna enn þá, eins og Kaurismäki varð að orði?“


Masokistinn þráir að vera staðinn að verki

SMS: Í þeirri netvæddu veröld sem Ísland er fer sjálfssköpun og tjáning innstu hugðarefna iðulega fram á opinberum eða hálfopinberum vettvangi. Af hverju stafar hún, þessi þörf mannsins fyrir að vera sífellt að opinbera sig? Er þetta þróun sem varð til með Internetinu eða var hún orðin til áður? Gera játningar í einrúmi eða fámenni ekki lengur sama gagn og áður?

ÞH: „Játningin hefur að minnsta kosti fengið nýja merkingu á seinni tímum. Virkni hennar hefur breyst. Það er ekki það sama að játa núna eða opinbera sig og var fyrir tíma rafrænna miðla. Á vissan hátt virðist rökrétt að álykta að þegar einkalífið sé orðið opinbert sé ekki lengur hægt að gera þennan greinarmun. Og játningin missi sömuleiðis gildi sitt þegar hún sé gerð frammi fyrir öllum, ef svo má segja. Og kannski er það raunin að auðveldara sé að játa frammi fyrir öllum en einum – þá verji fjarlægðin berskjaldaða sálina.
En maðurinn hefur, held ég, alltaf haft þessa þörf. Og hún tekur á sig ýmsar myndir. Masokistinn þráir ekkert heitar en að vera staðinn að verki, að vera afhjúpaður, niðurlægður. Á bak við þrá masokistans býr eitthvað sem sjálfsagt allir menn eiga sameiginlegt. Og sjálf játningin á sér djúpar rætur í kristinni siðfræði. Allt veitir þetta ákveðna svölun, hvort sem er á opinberum vettvangi eða prívat. Annars væri fólk ekki að þessu. Annars dreifði fólk ekki einkalífi sínu á Netinu.
En borgaralegur tepruskapur lætur ekki svo glatt undan. Hann á eftir að verða mörgum haldreipi enn um sinn og öðrum til ama og leiðinda. Verstur er hann blandaður yfirdrepsskap og hræsni.

SMS: Hvað heldurðu um arkífismann í samtímanum? Nú eigum við meira magn af heimildum og vitnisburðum um upplifanir fólks af samtímaveruleika en nokkru sinni áður í sögunni, en munu þessar heimildir koma sagnfræðingum framtíðarinnar að gagni? Munu þær yfirhöfuð varðveitast?

ÞH: „Sennilega verður það eitt af erfiðustu viðfangsefnum sagnfræðinga framtíðarinnar að vinna úr rafrænum heimildum. Þær eru að mörgu leyti allt annars eðlis en hinar handskrifuðu og prentuðu. Magnið er miklu meira. Þær geta líka fært okkur mun nákvæmari mynd af gjörðum einstaklinga, ferðum þeirra, neyslu og svo framvegis. Við ættum kannski að hafa það í huga að við skiljum eftir okkur rafræna slóð nánast hvar sem við förum, nánast hvað sem við gerum. Það verður hægt að draga upp svo nákvæma mynd af lífi okkar að skáldskapur, sem getur jú aldrei orðið jafnlygilegur og veruleikinn, gæti orðið að úreltu fyrirbæri. Það er þekkt að nýir miðlar úrelda gamla, eins og til dæmis tölvan ritvélina og stafræna myndavélin filmuna. Ef sagnfræðingar fá nægilega greiðan aðgang að lífi okkar kann það að ögra mjög viðmiðum skáldskaparins.
Við höfum þegar orðið vitni að afhjúpunarmætti rafrænna heimilda. Þær hafa verið grunnurinn að lögsóknum hérlendis sem erlendis, nýlega var til dæmis upplýst um svindl eins af hinum svokölluðu matsfyrirtækjum í fjármálaheiminum. Og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hefði aldrei orðið svona viðamikil og nákvæm ef ekki hefði verið fyrir rafrænar heimildir. Það er ekki síst tölvupósturinn sem kemur að gagni. Hann hefur ekki aðeins auðveldað samskipti heldur einnig aðgang annarra að þeim. Ef ég væri lögmaður myndi ég ráðleggja öllum skjólstæðingum mínum að umgangast tölvupóst eins og opinberan vettvang eða fjölmiðil. Fáir virðast hafa áttað sig á þessu.“

Fegurðin ber fólk ofurliði

SMS: Hvaða þýðingu hefur þetta nýja miðlaumhverfi fyrir lýðræðið? Er það til góðs eða ills? Umræður um samfélagsmál eru viðameiri og nákvæmari en áður hefur þekkst, til dæmis á umræðuþráðum á fréttasíðum, en eru áhrifin af þessu ef til vill ofmetin?

ÞH: „Umræður eru meiri en ég er ekki viss um að þær séu nákvæmari. Margt bendir til þess að umræðan hafi miklu frekar þynnst út. Að þetta sé meira og minna undanrenna sem berst eftir spjallþráðum og kommentakerfum. Kjarni mála er enn ræddur meðal þeirra sem hafa raunverulega yfirsýn og þekkingu á einstökum efnum. En svo virðist það hipsum haps hvort yfirsýnin og þekkingin berist til þeirra sem á endanum taka ákvörðun. Ein af orsökum hrunsins er sennilega sú að þau sem tóku ákvarðanir byggðu þær á þekkingarleysi og höfðu ekki nægilega yfirsýn, líklega illa haldin af undanrennuþambi. Að auki virðast þau ekki hafa búið við það aðhald sem almenn gagnrýnin umræða á að veita.
Hugmyndir um beint lýðræði eru byggðar á hæpnum forsendum, held ég. Þær eru illa ígrunduð rómantík fólks sem finnst það einfaldlega fallegt og rétt að almenningur fái að taka ákvarðanir um grundvallarmál. Og núna sé það orðið mögulegt vegna þess að allir hafi aðgang að öllum upplýsingum og umræðan sé orðin svo mikil og góð. Þetta er barnaskapur og það vita allir en fegurð hugmyndarinnar ber fólk ofurliði. Við erum í grunninn með mjög gott lýðræðiskerfi sem byggir á því að við ráðum okkur fulltrúa til þess að kynna sér málin sérstaklega, ræða þau og taka ákvarðanir. Þetta fólk fær – eða á að fá – aðstoð og aðhald við ákvarðanatökuna frá embættismannakerfinu, fjölmiðlunum, háskólum og öðrum rannsóknarstofnunum, svo dæmi séu tekin. Ef við viljum styrkja lýðræðið í landinu ættum við að styrkja þetta kerfi, efla Alþingi, bæta embættismannakerfið, stuðla að betri fjölmiðlun og síðast en ekki síst, byggja upp enn sterkara menntakerfi og rannsóknarstarf. Með þessu gætum við bætt umræðuna í landinu og ákvarðanatökuna og þar með lýðræðið.
Það er augljóst að allur almenningur hefur litlar forsendur til þess að taka ákvarðanir um flókin úrlausnarefni ríkisins, eins og kvótakerfi, Icesave og Evrópusambandsaðild. Sjálfur hef ég engan tíma til þess að kynna mér þessi mál til hlítar, auk þess sem ég hef ekki reynslu eða þekkingu til þess meta suma þessa hluti.
Gildismat almennings er heldur ekki gott viðmið, nema hugsanlega í undantekningartilfellum. Við sáum sorglegt dæmi um fordóma almennings í nýlegum kosningum í Sviss sem snerust um ákveðið réttindamál múslima þar í landi.Við sáum líka hvernig fór þegar almenningur var spurður álits á því hvert sé besta skáldverkið af þeim sem fengið hafa íslensku bókmenntaverðlaunin síðustu tuttugu ár. Niðurstaðan eftir netkosningu var Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason. Þótt sú bók sé ágæt þá fer því fjarri að hún sé mesta skáldverkið af þeim sem til greina komu. Hún er hins vegar sennilega sú sem hvað flestir hafa lesið enda ein vinsælasta barnabók síðustu ára. Markaðnum er ekki endilega treystandi til þess að velja besta eða réttasta kostinn. Um það eru ótal dæmi.
Opið lýðræði er delluhugmynd en það þykir því miður enn sem komið er merki um víðsýni og frjálslyndi að halda henni fram. Mér fannst það ekki til fyrirmyndar hjá Styrmi Gunnarssyni, mínum ágæta ritstjóra af Mogganum og einum harðasta talsmanni þessarar hugmyndar hérlendis, að slá um sig með slagorðum á borð við þau að það eigi að færa valdið frá flokkunum til fólksins. Hann hefði þá líka mátt nefna lobbýismann, hagsmunagæsluna og orðræðustýringuna sem fylgdi þessu fyrirkomulagi. Af því sprytti nýtt valdakerfi og í því yrði staða fólksins síst sterkari en nú.“

SMS: Þú hefur skrifað töluvert um höfundarhugtakið og hvernig það hefur breyst með nýjum félagslegum aðstæðum. Er það enn að breytast í samtíma okkar? Hvað finnst þér til dæmis um hugmyndir fólks um stafrænt frelsi?

ÞH: „Ég hef ekki svo mikinn áhuga á lögfræðilegum spursmálum um höfundinn, ef þú ert að spyrja um það. Stafrænir miðlar og stafræna frelsið, sem þú kallar svo, hefur hins vegar haft áhrif á virkni höfundarins í menningunni. Hugtök á borð við frumleika, upprunaleika og áreiðanleika, sem öll tengjast höfundarhugtakinu, hafa augljóslega aðra merkingu í þessu umhverfi. Hvernig og hvort það hefur svo bein áhrif á bókmenntirnar er annað mál og lítt rannsakað.
Reyndar eiga kenningar síðustu áratuga um eðli bókmennta að mörgu leyti betur við um nettexta og rafræna miðlun yfirleitt. Það leiðir svo hugann að því hvort hugsun fræðanna sé ef til vill mun róttækari og lengra komin en skáldskaparins. Sjálfur sæki ég hugmyndalega örvun mun meira í lestur framúrstefnulegra fræða en skáldskap. Skáldskapurinn ertir mann á annan hátt. En svo eru mörkin á milli fræða og skáldskapar alltaf að mást meir og meir út.“

Eitt mesta niðurlægingarskeiðið

SMS: Þorirðu að spá fyrir um nánustu framtíð íslenskra fjölmiðla?

ÞH: „Við lifum nú eitt mesta niðurlægingarskeið íslenskra fjölmiðla. Og það er nú ekki eins og fjölmiðlar hérlendis hafi verið á háu stigi hingað til. Það segir kannski allt sem segja þarf að DV er allt í einu orðinn álitlegasti pappírinn. DV hefur aldrei verið gott blað. Ég hef alltaf verið jafnhissa á tali um hvað Jónas Kristjánsson væri merkilegur blaðamaður og ritstjóri haldandi úti þessu lélega blaði svo árum skipti. Ég las svokallaða starfsævisögu hans sem kom út fyrir síðustu jól. Ályktunin sem Jónas dregur af ævistarfi sínu sem blaðamaður og ritstjóri er sú að blaðamenn skuli ávallt segja sannleikann og fara eftir einhverjum reglum um stíl en hann vill til dæmis að fólk skrifi ekki fleiri orð en 17 í hverri málsgrein. Þetta er sorglegt. Og vanhugsað. Um hvaða sannleika er maðurinn að tala? Og hvaða vitleysa er þetta um orðin sautján? Hvernig getur góður stíll byggst á því að telja orð? Í þessari efnisgrein eru málsgreinar sem innihalda fleiri orð en 17. Eru þær verri en hinar? Ég hef aldrei kynnst Jónasi en eftir lestur ævisögunnar, sem er vel að merkja ekkert sérstaklega vel stíluð, skil ég betur það einfeldningslega sjónarhorn sem DV hefur haft á heiminn í gegnum tíðina.“

SMS: Hvernig heldurðu að málin eigi eftir að þróast þegar lausafjárkrísa eigenda og útgefenda færist í aukana? Mun eitthvað gefa eftir?

ÞH: „Ég veit ekki hvernig hlutirnir eiga eftir að þróast á blaðamarkaði. Hann er óútreiknanlegur vegna þess að menn líta umfram allt á blöð sem valdatæki.“

SMS: Verða íslenskir fjölmiðlar framtíðarinnar markaðsmiðaðir eða pólitískir? Er hægt að vera hvort tveggja í senn?

ÞH: „Fjölmiðlar eru pólitísk fyrirbæri og í núverandi starfsumhverfi verða þeir af illri nauðsyn að vera markaðsmiðaðir.“

Á að standa á sannfæringu sinni

SMS: Og þá aðeins að Morgunblaðinu, þínum gamla vinnustað, þar sem þú vannst frá 1995 til 2009 sem blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi, þar af ritstjóri Lesbókar frá 2001 til 2009. Af hverju heldurðu að þér hafi verið sagt upp og hvernig var staðið að því?

ÞH: Útgáfa Lesbókar var alltaf spurning um metnað, burtséð frá því hverju hún skilaði í búið. Það fjaraði undan metnaðinum síðustu misserin. Menn voru með skrýtnar og óraunhæfar hugmyndir um blaðið. Þeir héldu að það væri hægt að gera það að einhverju ungdómsblaði. Kröfur um styttingu efnis og upppoppun urðu sífellt háværari. Ég reyndi að sýna þessu ákveðinn skilning en fór mínu fram í grundvallaratriðum. Maður á ekki að hlusta of mikið á hugmyndir annarra við ritstjórn blaðs. Ef manns eigin sannfæring bilar á maður frekar að hætta. Ég hafði líka lestrartölur með mér þótt eigendur og fulltrúar þeirra í daglegri stjórnun blaðsins sæu þær ekki sömu augum og ég. Lesbók var alveg fram undir það síðasta eitt mest lesna sérblað Moggans. Lengst af var einungis Sunnudagsblaðið meira lesið. Það var í raun ekki fyrr en menn fóru að fokka í blaðinu sem lesturinn tók verulegar dífur, poppið fældi gömlu lesendurna frá. Þó ber að geta þess að lestrartölur sveifluðust jafnan talsvert innan hvers árs. Lestur er ekki síður bundinn tíma en efni og miðlum. En hvort sem fólk trúir því eða ekki þá var lesturinn þessi 8 ár á bilinu 20 til 35% sem er ótrúlegt. Sambærilegir menningarþættir á Rás 1 eru allir með minna en 5% hlustun. Samt er það aðgengilegri og auðveldari neysla en lestur dagblaðs.
Á bak við uppsögnina var sem sé metnaðarleysi og delluhugmyndir um Lesbók – það er alltaf nóg af þeim – en auðvitað einnig pólitík. Á fyrsta fundi mínum með Ólafi Stephensen eftir að hann tók við sem ritstjóri Morgunblaðsins í júní 2008 sagði hann mér að eigendur blaðsins væru mjög ósáttir við svokallaða vinstrislagsíðu Lesbókarinnar. Ég yrði að gera eitthvað í því. Þarna urðu tímamót í samskiptum mínum við ritstjóra. Styrmir Gunnarsson hafði ýjað að þessu við mig en aldrei beðið mig um að gera eitt eða neitt í því. Það var þvert á móti hluti af hans ritstjórnarstefnu að ólíkar raddir fengju að heyrast í Morgunblaðinu. Öðrum þræði var það þægilegt fyrir hann að geta bent á Lesbókina og aðrar slíkar raddir ef hann var sjálfur sakaður um að reka harða hægristefnu í blaðinu. Ég spurði Óla hvað hann vildi gera í málinu. Hann stakk upp á því að við réðum Stefaníu Óskarsdóttur sem pistlahöfund. Við gerðum það. Síðan kom hrunið. Ég tók þátt í mótmælum í janúar 2009 og skrifaði á sama tíma harðan pistil um Sjálfstæðisflokkinn á miðopnu. Tíu dögum seinna var ég rekinn og einn annar blaðamaður, Halla Gunnarsdóttir sem var þingfréttaritari. Pólitískar kvartanir höfðu líka borist um hennar störf. En auðvitað voru einhverjar fjárhagslegar ástæður fyrir brottrekstri okkar Höllu, eins og Óli sagði í ágætu spjalli okkar við uppsögnina.“

SMS: Hvernig finnst þér komið fyrir Lesbókinni í dag?

ÞH: „Lesbókin er dauð, maður. Lesbókin er dauð.“

SMS: Og hvað finnst þér um ráðningu Davíðs Oddsonar sem ritstjóra blaðsins?

ÞH: „Það er brjálæðisleg hugmynd sem segir allt sem segja þarf um það hvernig þetta þjóðfélag er. Styrmir talaði alltaf mikið um hvað góð dómgreind skipti miklu máli hjá blaðamönnum. Nú er hann pistlahöfundur hjá einum dómgreindarminnsta og versta stjórnmálamanni Íslandssögunnar.“

Lágkúran sigraði Ísland

SMS: Hvað finnst þér um menningarlega fjölmiðlaumfjöllun og fjölmiðlagagnrýni á Íslandi?

ÞH: „Þú ert aldeilis hittinn í þessum spurningum. Spjallið verður nánast tómur bölmóður.

Auðvitað er menningarumfjöllun á undanhaldi eins og allir sjá. Gagnrýni er til dæmis takmörkuð. Ríkisútvarpið eitt heldur uppi merkjunum. Og þá á ég við útvarpið. Í Ríkissjónvarpinu er eiginlega ekkert og það sem verra er er að það sem er er eiginlega verra en ekkert. Ég gagnrýndi val Egils Helgasonar á ritdómurum í Kiljuna þegar í upphafi – taldi þau Pál og Kolbrúnu vera of lík hvort öðru – en eftir að hafa fylgst með þeim síðustu misseri verð ég æ meira undrandi yfir því hvað þau hafa litla færni í bókmenntagreiningu. Þau eru jú búin að vera í þessum bransa í áratugi. Egill sjálfur er góður samtalsmaður en hann er takmarkaðri bókmenntaumfjallandi en ég hélt. Um daginn kynnti hann Cormac McCarthy með þeim hætti að áhorfendur hefðu getað haldið að þar færi lélegur b-höfundur úr Hollywood-vélinni. Hann leyfir umfjölluninni að vera á einhverju kjaftastigi. Höfundum er slátrað á forsendum aldurs, kyns og menntunar. Ég varð beinlínis hryggur eftir meðferð þeirra þremenninga á Steinunni Sigurðardóttur í vetur. Ritdómararnir bera fyrir sig fáfræði þegar þeir nenna ekki að lesa nákvæmlega. Og svo flissa þau bara að öllu saman. Sorglegast er kannski að þremenningarnir virðast eiga sér næga viðhlæjendur, að minnsta kosti ef marka má allt hrósið sem Egill fær fyrir þáttinn á Fésbókinni. Fólk heldur að þetta sé góð umfjöllun. Fólk heldur að það sé þetta sem bókmenntaumfjöllun snúist um. En þar skjátlast því herfilega.“

SMS: Af hverju eru stöndugustu blöðin í dag Séð og Heyrt, Vikan og Gestgjafinn?

ÞH: „Af því að lágkúran sigraði Ísland í góðærinu.“

SMS: Hvað finnst þér um ástandið í íslenskum samtímabókmenntum? Eru þær í góðu formi?

ÞH: „Íslenskar bókmenntir eru ágætar. Við eigum nokkra mjög góða samtímahöfunda. Og svo eigum við merkilega hefð. En það væri hægt að gera svo miklu meira. Við þurfum menntamálaráðherra sem hefur raunverulega trú á bókmenntum og menningu og kjark til þess að berjast fyrir henni. Hér færi allt af stað ef við veðjuðum fyrir alvöru á ímyndunarkraftinn. Ég hef trú á Katrínu Jakobsdóttur í þessu starfi. Ef hún fær tíma er hún líkleg til þess að koma hlutum á hreyfingu.“

SMS: Hvað með sagnabókmenntirnar? Hvað með ljóðlistina?

ÞH: „Við eigum jafnvel betri ljóðskáld en sagnaskáld. Við þurfum að gefa ljóðunum meiri gaum.“

SMS: Hvaða skoðun hefurðu á hinum íslensku bókmenntaverðlaunum?

ÞH: „Þetta eru fínustu verðlaun fyrir þá sem fá þau.“

Sú yrði nú hissa hún mamma ...

SMS: Eru menningarelítur í Reykjavík – og ef svo er – tilheyrir þú einhverri?

ÞH: „Haha! Sú yrði nú hissa hún mamma ef ég tilheyrði einhverri elítu.“

SMS: Þú ert fræðimaður, kennari, fjölskyldumaður, en ertu skáld?

ÞH: „Nei, en ég var að ljúka við bók um Birgi Andrésson myndlistarmann sem kemur út í haust hjá Crymogeu. Hún fjallar um það hvernig þetta er allt að hverfa, íslensk menning, listin, ef ekki maðurinn sjálfur.
Birgir var einn merkasti listamaður okkar er hann lést fyrir aldur fram 2007. Táknfræði verka hans er greind í bókinni og skoðuð í menningarlegu, listsögulegu og hugmyndafræðilegu ljósi. Birgir er settur í samhengi við póststrúktúralískar hugmyndir um listaverkið, goðsagnir, byrjanir og endalok, merkinguna og tungumálið, sem er mikilvægur efnisþáttur í myndlist hans, og fagurfræði hvarfsins. Hugtök um þjóð og menningu eru til umfjöllunar og íslensk menningarsaga á tuttugustu öld. Konseptlist, innlend og alþjóðleg, er sömuleiðis til umræðu. Ég vona að þetta efni ásamt ítarlegri ævi- og sýningaskrá Birgis leggi grundvöll að frekari rannsóknum á list hans.
Birgir var skáld! Hann segir magnaðar sögur í þessari bók.“

Þröstur í hnotskurn

Þröstur Helgason er fæddur í Reykjavík 1967. Eiginkona hans er Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, og eiga þau þrjár dætur. Þröstur var blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi á Morgunblaðinu frá 1995 til 2009, þar af ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins átta síðustu árin. Hann hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands frá 2000, kennt námskeið við Listaháskólann, fengist við ritstjórn bóka og ritun fræðigreina. Hann er höfundur bókarinnar Einkavegir (Bjartur, 2003).
Hann er að ljúka við bók um Birgi Andrésson og list hans (Crymogea, 2010).
Þröstur stundar nú doktorsnám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og sinnir bókmenntagagnrýni og pistlaskrifum fyrir Víðsjá Ríkisútvarpsins.

Texti: Svanur Már Snorrason

(Viðtalið birtist í tímaritinu Mannlíf, júní 2010)

þriðjudagur, 8. febrúar 2011

Saga úr sveit


Birgir og Ísleifur koma inn í herbergið.
 
Birgir: Við verðum að biðja ykkur báða um að fara.
 
Ísleifur: Við verðum.
 
Þorgeir og Steini líta á hvorn annan og kinka kolli og fara.
 
Birgir: Þeir eru ágætir menn en þessi staður og þessi stund getur reynst þeim hættuleg.
 
Ísleifur: Þeir vita það.
 
Birgir: Ætli það sé til eitthvað að borða?
 
Ísleifur: Já.
 
Birgir: Ég myndi ekki slá hendinni á móti svo sem einni Sóma samloku með roast beaf, remolaði og steiktum.
 
Ísleifur: Það myndi ég ekki heldur gera. Mér er það þó til efs að ísskápurinn hafi að geyma slíkt góðgæti.
 
Þorgeir stingur inn höfðinu og segir: Það eru til samlokur, ég fór í Bónus í gær. Keypti fullt af samlokum með roast beaf, remolaði og steiktum. Verið ekki feimnir við þær.
 
Ísleifur: Hafðu þökk fyrir. Gleymdu ekki að taka skiptimiða.
 
Birgir: Það er kalt úti. Mundirðu eftir eyrnaskjólunum?
 
Ísleifur: Hann er farinn, heyrir ekki í þér. Mér sýndist þó hann vera með eyrnaskjólin, er þó ekki alveg viss. Finnst ég vera farinn að taka ver eftir. Athyglisgáfan er eitthvað farin að svíkja mig.
 
Birgir: Það er margt sem svíkur mann þessa dagana. Fuglarnir syngja ekki jafn fallega og hér áður. Og það er búið að byggja í brekkunni.
 
Ísleifur: Þeir höfðu nú fullan rétt á því.
 
Birgir: Mikið væri gott að leggja sig núna.
 
Ísleifur: Satt segirðu. Þú veist þó að það kemur ekki til greina nú. Við verðum að hinkra aðeins lengur - þeirra tími er ekki alveg kominn en það er alveg kominn tími á okkur.
 
Birgir: Farðu nú ekki að tala um að tíminn sé afstæður, eina ferðina enn. Mér er það fullljóst og öllum hér líka. Mig langar bara til að leggja mig.
 
Ísleifur: Þetta verður allt að vera þrungið merkingu, annars er ekkert í þetta varið.
 
Birgir: Þetta verður allt að vera þrungið merkingu, annars er ekkert í þetta varið. Ég held að ég hafi heyrt þetta áður.
 
Ísleifur: Það verður að halda þér við efnið. Þú ert svo óþolinmóður aðra stundina en þreyttur hina. Það verður að halda þér við efnið. Þeirra tími er ekki kominn og við verðum að standa vaktina.
 
Birgir: Ég er orðinn leiður á þessu. Alltaf að hanga á einhverjum stöðum öðrum til verndar. Ekkert að gera, ekkert að gerast. Ég þoli þetta ekki lengur.
 
Ísleifur: Mér finnst nú fleiri en ég vera farnir að endurtaka sig.
 
Birgir: Æi, góði þegiðu nú.
 
Ísleifur: Þegiðu bara sjálfur.
 
Þögn. Síðan fallast þeir í faðma.
 
Birgir: Við skulum ekki rífast.
 
Ísleifur: Aldrei aftur.
 
Birgir: Þú veist vel hvernig ég get látið. Þeir eru misjafnir dagarnir.
 
Ísleifur: Næstum því eins og þeir eru margir. Þó ekki.
 
Þögn. Smá bið. Þeir horfa í kringum sig og uppí loftið.
 
Ísleifur: Ég held að þetta sé liðið hjá. Við getum hleypt þeim inn aftur.
 
Birgir: Heldurðu að það sé óhætt? Væri ekki nær að bíða aðeins lengur?
 
Ísleifur: Nei, þetta er allt orðið þrungið merkingu, ég finn það.
 
Birgir: Varstu að bíða eftir því? Mér er skítsama um þessa merkingu. Ég hef aldrei fundið hana og mun væntanlega ekki.
 
Ísleifur: Maður finnur ekki nema að maður leiti.
 
Birgir: Maður verður að hafa þörf fyrir að leita. Hana hef ég ekki. Og hana nú.
 
Ísleifur: Svona, hleyptu þeim inn.

mánudagur, 7. febrúar 2011

Pæling um áþreifanlega peninga


Er óeðlilegt að ég kaupi bensín á bílinn fyrir fimm þúsundkallinn sem mamma þín og pabbi mínir gáfu mér í afmælisgjöf í gær?

Spurningunni er svarað á þann hátt að henni þyki það í hæsta máta óeðlilegt og óviðeigandi og svo spyr hún mig hvort ég hafi raunverulega gert það; keypt bensín fyrir fimmþúsundkallinn.

Ég svara því til að bensínið sé nú ekki beint ódýrt þessa dagana og því hafi ég og hún verið að keyra á nánast tómum tankinum undanfarnar vikur, alltaf takandi fyrir fimmhundruð kall og stundum minna og það geti hreint ekki farið vel með bílinn né sálarástand okkar beggja.

Hún spyr hvað ég meini með þessu en ég vil frekar ræða um fimmþúsundkallinn og hvað hann þýði sem gjöf. Einhver réttir mér fimmþúsundkall sem gjöf, í þessu tilviki foreldrar hennar, það er þakkavert og því var sinnt; það var þakkað fyrir sig með kossum og faðmlögum.

Hún setur upp fýlu- og vandlætingarsvip.

Ég hins vegar held áfram að tala.

Sko, ef ég kaupi bensín fyrir þennan fimmþúsundkall þá er það ekki endilega gjöf þeirra til mín; þau keyptu ekki handa mér bensín!

Nú hvað þá, öskrar hún á mig og öskrar svo aftur: Djöfull geturðu verið leiðinlegur og tillitslaus. Þau vildu þér bara vel með því að gefa þér þennan pening og ætluðust örugglega ekki að þú færir og keyptir bensín eða færir og verslaðir í Bónus fyrir helgina fyrir peninginn. Þú ert tillitslaus dóni, ég skil stundum ekkert í mér að nenna að hanga með þér.

Ég verð að þjást í kvöld og meginþorrann úr næstu viku sem hefst á morgun. En hvað um það – ég verð að fá að ræða um fimmþúsundkallinn, annars frýs ég eins og allar tölvurnar í gegnum tíðina sem fengu ekki næga aðhlynningu.

Ég þykist viss um að gjafir snúist ekki um formið, seðilinn, í þessu tilviki fimmþúsundkall. Hann er í ákveðnu formi og flestir vita hvernig hann lítur út. Ég er að reyna að segja minni heittelskuðu að þótt ég fari og eyði nákvæmlega þessum seðli sé það sem ég keypti fyrir hann ekki endilega afmælisgjöfin mín. Þetta snúist um ákveðna hugsun sem ekki sé tengt að nokkru leyti sjálfum seðlinum sem mér var gefinn. Ég veit reyndar ekki hvað Wittgenstein myndi segja um þessar pælingar mínar en gjarnan myndi ég vilja vita það.

Ég eyddi seðlinum í eina kippu af ódýrum bjór og síðan fóru fjögur þúsund krónur í bensín á minn gamla en góða bíl. En ég leit ekki og lít ekki á bensínið og bjórinn sem afmælisgjöfina sem tengdaforeldrar mínir gáfu mér þótt ég hafi vissulega borgað með seðli sem þau gáfu mér fyrr um daginn.

Að mínu mati er það deginum ljósara að það sem þú ætlar þér í huganum sem afmælisgjöf handa sjálfum þér fyrir fimmþúsundkallinn sé hin raunverulega afmælisgjöf þótt þú fjárfestir ekki í henni fyrr en talsvert eftir að þú fékkst umræddan seðil í hendurnar.

Djöfulsins bull er þetta, segir hún eldrauð og virkilega öskureið og gerir sig líklega til að henda í mig þungum og forláta öskubakka sem pabbi gaf mér um daginn þegar hann var að hreinsa út úr geymslunni sinni.

Þessi öskubakki er ljótur, klunnalegur og skítugur og virðist hafa verið partur af einhverskonar Keflavíkurgöngusyndrómi sem ég get ekki alveg gert grein fyrir á þessari stundu enda þarf ég að hafa mig allan við að komast undan öskubakkanum – hann myndi án efa meiða mig eða rota og í það minnsta skilja eftir stórt og mikið mar, fjölskrúðugt að lit og lögun.

En ég næ að beygja mig og öskubakkinn lendir á blessuðum heimiliskettinum sem bjóst greinilega við einhverju allt öðru og hvæsir hressilega í átt að konu minni og það hef ég hann aldrei séð gera. Hann hefur oft hvæst á mig.

Konu minni er verulega brugðið og mér sýnist sem svo að hún vorkenni kettinum mikið og að hún skammist sín mikið fyrir að hafa kastað öskubakkanum í hann en sé jafnvel orðin enn reiðari í minn garð. Það ég fæ ekki skilið því ég var bara að reyna að rökræða við hana.

laugardagur, 5. febrúar 2011

Krydd


"Leikurinn er að byrja," sagði hann og settist í sófann. "Ég held að KR-ingar klári þetta - fari í úrslitin og verði loksins bikarmeistar í ár. Það eru orðin tuttugu ár síðan þeir urðu bikarmeistarar, alltof langur tími."
Hann opnaði snakkpokann og handfjatlaði svo glasið sem var fullt af gosi - appelsíni.
"Ég ætla út í búð, það vantar bæði klósettpappír og Íbúfen," sagði hún mildilega. "Ertu með einhvern aur á þér, eða á ég að nota kortið?"
Hann leit upp og teygði sig í veskið sem var á borðinu fyrir framan hann. "Er fimm þúsund nóg?"
Hún hugsaði sig um og það var eins og hún gleymdi sér um stund.
"Ég ætla aðeins út í búð."
Hann leit á hana með undrunarsvip og endurtók rólega spurninguna. "Er fimm þúsund nóg?" Bætti svo strax við: "Ég er ekki með meira á mér, en þú getur alveg tekið kortið."
Hún settist hjá honum og var annars hugar, fékk sér sopa af appelsíninu og smá snakk líka.
"Það vantar bara Íbúfen og klósettpappír. Og eitthvað krydd. Ég tek bara kortið."

fimmtudagur, 3. febrúar 2011

New post


(Einu sinni kom Vondi kallinn og sagði að hann ætlaði að taka mig. Ég sagði: Farðu
Vondi kall, þú ert bara vondur. Hann sagði, ha, ha, ég fer ekki neitt. þú ert bara
asni og mamma þín er frönsk. Ég henti í hann sandi og stein og sagði: Já, mamma
mín er frönsk, ég elska hana, og ég er ekki asni, þú ert bara asni sem borðar bara
plastpoka og myglaðar rófur. Þá varð Vondi kallinn reiður og reyndi að taka mig en
ég náði rétt svo að komast undan. Hjúkk. Ég hljóp í burtu en sneri mér
fljótlega við og ullaði á Vonda kallinn og gaf honum fokkmerki.
Þá tók hann upp stóran stein og henti honum beint í hausinn á mér
og hló hátt og mikið og ætlaði að ná í mig en þá kom góður maður aðvífandi og
Vondi kallinn hljóp í burtu, enda var hann alltaf hræddur við góða menn.
Ég fékk stóran skurð á ennið og fór á slysó og þurfti að sauma ellefu spor.
Læknirinn, sem var góður og fallegur, sagði við mig að ég yrði að passa mig á Vonda kallinum,
hann væri svo vondur og ég væri svo góður.
Takk góði læknir sagði ég og var kátur þá stundina)