miðvikudagur, 5. janúar 2011

Húnvetningur í Garðabæ



Í desember á síðasta ári var rithöfundurinn og Garðbæingurinn góðkunni, Steinar J. Lúðvíksson, ráðinn til þess að rita sögu Garðabæjar og búa hana til prentunar. Steinar, sem sent hefur frá sér fjölda bóka, starfar að verkinu undir stjórn ritnefndar sem er kjörin af bæjarstjórn og er verkið unnið í samstarfi við hana.
Steinar hefur unnið mikið starf við ritun sögu bæjarins og hann skrifaði til að mynda bækurnar Bær í blóma, en sú fyrri kom út árið 1992 og sú seinni árið 2001 á 25 ára afmæli bæjarins. Garðapósturinn tók Steinar tali.

Til að byrja með, Steinar, hversu lengi hefur þú búið í Garðabæ, hvar bjóstu áður og hvaðan af landinu ertu?


“Ég er Húnvetningur að ætt og uppruna og átti heima fyrir norðan fram að því að ég fór í framhaldsskóla en þá fluttist ég til Reykjavíkur. Konan mín, Gullveig Sæmundsdóttir, er úr Hafnarfirði og þar í bæ byrjuðum við búskap okkar í leiguhúsnæði. Fyrir tilviljun bauðst okkur lóð í Garðahreppi sem við keyptum óséða. Við byggðum síðan – fyrsta og eina húsnæðið sem við höfum átt – og fluttum árið 1969. Ég hef stundum sagt að ég hafi orðið Garðbæingur daginn sem ég flutti hingað, svo vel hef ég kunnað við mig í bænum.”

Það má með sanni segja að þú hafir fengist við skriftir nánast alla þína starfsævi.

“Já, ég er búinn að fást við að skrifa alla mína starfsævi. Var í á annan áratug blaðamaður á Morgunblaðinu, sem var afar skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Varð síðan ritstjóri hjá Frjálsu framtaki, síðar Fróða, og hafði umsjón með útgáfu fyrirtækisins, bæði tímarita og bóka. Jafnhliða þessu aðalstarfi fór ég ungur að skrifa bækur og hef ritað á fjórða tug, bæði bækur safnfræðilegs eðlis og ævisögur auk þess sem ég hef þýtt nokkrar bækur. Bæði blaðamennskan, ritstjórnin og bókaskrifin hafa verið afskaplega gefandi og skemmtilegt starf.”

Nú ert þú að skrifa um sögu Garðabæjar. Þegar þú tókst að þér þetta viðamikla verkefni varstu þá alveg viss strax frá upphafi hvernig þú myndir byggja bókina upp og um hvað yrði helst fjallað?

“Þegar ég tók að mér að rita sögu Garðabæjar var ég búinn að gera mér ramma verksins í hugarlund. Raunar var um tvo kosti að velja. Annar var sá að leggja megináherslu á sögu bæjarfélagsins sem er ekki löng í árum talin, en hinn var að fjalla um sögu byggðarlagsins frá fyrstu tíð. Í samráði við ritnefnd verksins, sem er skipuð góðu og áhugasömu fólki, þeim Laufeyju Jóhannsdóttur, Ólafi G. Einarssyni og Sigurði Björgvinssyni, var ákveðið að fara lengri leiðina, ef svo má að orði komast, það er, rekja söguna alveg frá landnámsöld, en sú saga er mjög margþætt og einstaklega áhugaverð. Þetta eykur vitanlega umfang verksins mjög mikið, en gerir það líka miklu skemmtilegra fyrir mig og vonandi aðra.”

Hvernig gengur sú vinna og hvenær er áætlað að bókin muni líta dagsins ljós?

“Mér sýnist ljóst að verkið verði tvö til þrjú bindi og á þessu stigi er ekki hægt að segja nákvæmlega hvenær því verður lokið. Það fer eftir svo mörgu.”

Varstu strax ákveðinn í því að taka að þér þetta verkefni, þurftirðu ekki að hugsa þig um tvisvar?

“Áður en það kom til tals að ég tæki þetta verkefni að mér var ég búinn að taka ákvörðun um að hætta störfum hjá Fróða ehf. Þar voru að gerast hlutir sem voru mér ekki geðfelldir. Ég stóð frammi fyrir nokkrum valkostum en þegar mér bauðst tækifæri til að vinna Garðabæjarsöguna þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Fyrir þann sem hefur gaman af því að grúska og skrifa er þetta óskaverkefni og get ég hiklaust sagt að þetta er eitt áhugaverðasta og skemmtilegasta verkefni sem ég hef nokkru sinni fengist við.”

Megum við eiga von á að þú skrifir út frá eigin reynslu sem íbúi og þátttakandi í hinu og þessu starfi tengdu Garðabæ?

“Ég lít fyrst og fremst á þetta ritverk sem sagnfræðilegt verk, einkum þó þann hluta þess sem fjallar um fortíðina. Síðan reynir á að koma þeim texta þannig frá sér að lesendur geti haft bæði gagn og ekki síður gaman af því að lesa hann. Auðvitað kemur það mér til góða að vera Garðbæingur og hafa fylgst með bæjarlífinu í svona langan tíma. Ég þekki hér til mikinn hluta þess tíma sem þéttbýli hefur verið í Garðabæ. Áður fyrr var það svo að maður þekkti flesta bæjarbúa með nafni og það auðveldar manni að vinna seinni hluta sögunnar að vita hverjir komu mest að málum.”

Heldurðu að Garðbæingar muni koma til með að taka bókinni fagnandi og að hún ýti kannski undir stolt þeirra af sögu bæjarins og bara bænum sjálfum eins og hann er í dag?

“Mér dettur satt að segja ekki í hug að byggðasaga á borð við þá sem ég er að vinna að liggi á náttborðum fólks og sé lesin eins og reyfari. Til þess er raunar ekki leikurinn gerður, heldur er tilgangurinn fyrst og fremst að safna saman fróðleik um byggðina og geyma hann í ritverkinu þannig að þeir sem þurfa á þessum upplýsingum að halda hafi gott aðgengi að honum á einum stað. Ég er hins vegar fullviss um að ef vel tekst til þá getur svona ritverk eflt þekkingu bæjarbúa á rótum samfélags síns og þeirri þróun sem orðið hefur á svæðinu.”

Hvað finnst þér persónulega vera áhugaverðast í sögu Garðabæjar, þróun hans og uppbyggingu og hvernig sérðu fyrir þér bæinn á næstu árum; mun hann halda áfram að vaxa og dafna?

“Þegar maður fer að grúska í gögnum og gamalli tíð er fjölmargt sem kemur á óvart og maður hafði ekki hugmynd um. Ég hafði til að mynda ekki gert mér grein fyrir því að allt fram á nítjándu öld bjó fleira fólk á þessu svæði en í sjálfri Reykjavík. Ég hafði heldur ekki gert mér grein fyrir því ægivaldi sem kóngur og kirkja höfðu á svæðinu í langan aldur, en hið geistlega og veraldlega vald átti allt landsvæðið hér með einni undantekningu. Athyglisvert er hve allt mannlíf á svæðinu mótaðist af þessu og hvaða áhrif Bessastaðavaldið hafði á líf fólks. Einnig er mikil saga sem fylgir því að þetta svæði, Álftneshreppur, skiptist í þrjú sveitarfélög og hvernig Garðahreppur verður að tiltölulega fámennum sveitarhrepp í marga áratugi. Síðan er önnur saga hvernig þéttbýlið verður hér til og hvernig það þróast. Ég er raunar þeirrar skoðunar að þróun þéttbýlisins hafi verið tekin í afar skynsamlegum þrepum og með framsýni og fyrirhyggju hafi verið séð svo til að hér í Garðabæ geti verið um fyrirmyndarbæjarfélag að ræða um langa framtíð.”

Er fólk stolt af því að vera Garðbæingar og er samstað bæjarbúa mikil þegar eitthvað bjátar á?

“Auðvitað mótast Garðabær verulega af nágrenninu við höfuðborgina. Flestir Garðbæingar eiga rætur að rekja annað en til bæjarins síns. Það er fyrst núna um þessar mundir að hægt er að tala um stóra kynslóð innfæddra Garðbæinga. Kannski er þróunin líka sú að líta beri á höfuðborgarsvæðið sem eitt atvinnu- og menningarsvæði. En ég er þess fullviss að það fer fleirum eins og mér að jafnskjótt og flutt er til bæjarins er eins og við höfum alltaf átt hér heima. Flestir íbúar hér segja með stolti að þeir séu Garðbæingar. Bæjarvitundin er alltaf að aukast og kemur það fram á mörgum sviðum.”

Hvernig finnst þér menningarlífið vera í bænum miðað við nágrannasveitafélögin?

“Miðað við það sem áður sagði um höfuðborgarsvæðið er óhætt að segja að félags- og menningarlíf í Garðabæ sé mjög öflugt og fjölþætt. Það mætti nefna til ótalmargt, svo sem öflugan tónlistarskóla og tónlistarlíf og gott bókasafn. Stór hluti þess sem kalla má menningarlíf felst líka í íþrótta- og skólastarfi, en hér í bæ hefur verið staðið vel að báðum þeim þáttum. Sjálfum finnst mér fornminjarnar að Hofsstöðum og uppsetning og aðgengi að þeim vera stórmerkilegt og hef raunar verið talsmaður þess að farið verði í slíkar framkvæmdir að Görðum þar sem líklegt er að önnur tveggja landnámsjarða á svæðinu hafi verið.”

Viðtal tekið fyrir Garðapóstinn, en nákvæma dagsetningu hef ég ekki fundið að svo stöddu.

Engin ummæli: