fimmtudagur, 13. janúar 2011

“Lambið Guðs míns, sem situr á stóli Guðs míns, miskunna þú mér.”


Um Píslarsögu síra Jóns Magnússonar og hans bænaklifur

Þegar píslarsögu síra Jóns Magnússonar ber á góma er ekki óalgengt að mönnum verði á að tala um veröld myrkurs og hindurvitna, galdrafár, ofsóknir og ofstæki. Margir sjá tímabilið, sem frásögn síra Jóns spannar, eins og einn risastóran bálköst í myrkri aldarinnar þar sem konum og körlum er varpað á bálið í refsingarskyni fyrir afbrot sem okkur, er nú lifum, finnast léttvæg og lítilfjörleg.

Refsingar fyrir agabrot hér á landi gegn trúarlegum og veraldlegum yfirvöldum allt frá siðaskiptum, eða frá því Stóridómur var lögtekinn á Alþingi 1564, og fram á nítjándu öldina einkenndust af hörku, smámunasemi og jafnvel af geðþótta yfirvaldanna.

Tölur um fjölda galdrabrenna hérlendis eru nokkuð á reiki en yfirleitt er talið að þær hafi verið á bilinu tuttugu til tuttugu og fimm. Þó flestum þyki þessi tala alveg nógu há er þetta þó hlutfallslega miklu minna hér en til dæmis í Danmörku og Þýskalandi og einnig er vert að geta þess að í þeim löndum voru það nær eingöngu konur sem fóru á bálið en hér á Íslandi var aðeins ein kona brennd.

Píslarsaga síra Jóns Magnússonar er mögnuð bók. Þar fjallar höfundurinn um þær galdraofsóknir er hann telur sig verða fyrir af völdum feðga er kenndir voru við Kirkjuból í Skutulsfirði. Eftir mikið japl og jaml og fuður fékk síra Jón því framgengt, eins og alkunnugt er, að feðgarnir voru brenndir á báli. Þessi viðureign síra Jóns við þá feðga er án efa frægasta galdramál Íslandssögunnar, enda hefur töluvert verið um það fjallað bæði í ræðu og riti og sitt sýnst hverjum.

Píslarsaga síra Jóns hefur að geyma magnaðar lýsingar á líkamlegum og andlegum kvölum sem hann varð fyrir og var sannfærður um að væru af völdum galdrakunnáttu eða galdramáttar þeirra feðga. Þótt eflaust megi deila um heimildagildi píslarsögunnar í sögulegu samhengi eru kvalalýsingar síra Jóns svo sterkar og ljóslifandi að þó ekki væri nema fyrir þær einar er bókin stórmerkileg í bókmenntalegu samhengi:

Því þær kvalir, sem ég reyndi, voru ekki sama slags eða með samri pínuaðferð, heldur stórum umbreytilegar á öllum tímum, og svo eg mátti sínu sinni sitt og hvert reyna. Stundum var eg svo sem undir ofurþungu fargi kraminn og klesstur, svo sem þá maðkur er marinn eða ostur fergður, svo að megn og máttur var allur í burt tekinn, og í því fargi var þess á milli svo að finna sem líkaminn væri pikkaður með brennandi eða glóandi smánálum, svo þétt um holdið svo sem til að jafna, er menn finna til nálardofa. (78)

En þótt lýsingar síra Jóns beri vott um hræðilegar líkamlegar kvalir sem fæstir myndu vilja reyna á sjálfum sér þá finnst honum þær smáræði eitt miðað við þær andlegu þjáningar sem koma fram í formi efasemda um almættið:

Mjög þrálega var eg undirlagður mikilli fýlu og andstyggð, eftir andanum að tala, svo að Guðs heilaga orð varð í mínum huga (sjálfum mér viðbjóðslega) afbakað og til guðlastanar kreist og troðið, svo eg varð stundum önnur orð í samri meiningu að finna, en hinum, sem afbökuðust og rangfærðust, frá að víkja, svo eg skyldi ekki þeirri andstyggð mína aumu sál ofhlaða. (86)

Eftirfarandi lýsir mjög vel hvað þessar andlegu þjáningar lögðust þungt á síra
Jón; ekki einu sinni heimsyfirráð, hvað þá annað, gátu freistað hans í kvölunum:

Hversu oft hefða eg óskað mér, hefða eg um þann kost mátt velja að þó veröldin hefði mín eigin eign verið að óskiptu, hana alla á milli gefa, að eg hefða mátt líða og undirleggjast hverja helzt písl, sem mannlegur hugur eða hendur hefði kunnað upp að finna eða á leggjast, aðeins frelsaður og fríaður frá þeim innri sálarinnar kvölum, og því voru mér þær píslir, sem á holdinu lágu, fisi og hégóma léttari að reikna við hitt, sem sálina kvaldi. (86)

En þrátt fyrir hinar miklu kvalir sem á síra Jóni liggja ná þær ekki að yfirbuga hann algjörlega þótt oft hafi litlu munað. Það er hægt að merkja það á textanum að síra Jón er maður sem haldinn er trúarhita og trúarnæmi á hæsta stigi. Þrátt fyrir efasemdirnar og þær kvalir sem þeim fylgja er hann þakklátur fyrir þær stundir sem drottinn veitir honum á milli stríða:

Það bar og líka við stundum, að hríðanna slotum þeirra stóru, þá duttu í hug minn nokkur Guðs orð, sem eg viðkannaðist og mér voru alkunnug, en sú útlegging mér gafst um þeirra skilning varð mínum skilningi yfirundrunarleg, sem eg vissi, að enginn maður mundi kunna svo út að leggja, hversu vel lærður sem verið hefði, svo eg lá þá svo sem flatur í forundran Guðs dýrðar og dásemdar, svo eg þóttist í færum um að tala við þá hálærðustu, þó þeim nálægur verið hefði, um Guðs dóma og dásemdir. Hvar af allir heilskyggnir mega sjá, hversu Drottinn er stór guð og dásamlega yfirdrottnar mitt á meðal óvina sinna og kann og getur auðveldlega hjálpað, líka í hæstu neyð, þeim hann annast og að sér tekur. (94)

Ef djöfullinn hefur verið hér á ferð hefur hann komist að raun um að ekki var auðvelt að fá síra Jón á sitt band og minnir þessi barátta hans nokkuð á freistingarsögu Jesú Krists, þótt aðferðir freistarans séu ólíkar sem og persónur þær sem hann freistar í þessum tilvikum:

En djöfullinn sagði við hann: Ef þú ert sonur guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði. Og Jesús svaraði honum: Ritað er: Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Þá hóf hann hann upp og sýndi honum öll ríki heimsbygðarinnar á augabragði. Og djöfulinn sagði við hann: Þér mun eg gefa alt þetta veldi og dýrð þeirra, því að mér er það í vald gefið, og eg gef það hverjum sem eg vil. Ef þú því tilbiður frammi fyrir mér, skal það alt verða þitt. Og Jesús svaraði og sagði við hann: Ritað er: Drottin, Guð þinn, átt þú að tilbiðja og þjóna honum einum. Lúkas 4. 1.-9. (útg. 1978)

Það sem síra Jón notar sér til bjargræðis í verstu kvölunum er einmitt tilbeiðsla á drottinn almáttugan, eða það sem síra Jón kallar bænaklifur. Hann staglast á orði Guðs sér til sáluhjálpar og það er einmitt það sem virðist gera það að verkum að hann heldur velli mitt í öllum hinum djöfullegu árásum og freistingum:

- svo og þó mér væri á milli þeirra stríðu áhlaupanna vægjanlegra, - ellegar og líka þá eg fann munninn og tunguna þreytta í því klifi og bænarverki, svo að eg varð mér hæginda að leita og vörunum kyrrum að halda, þá lét eg þó samt þau bænarorð í huganum á hrærðri tungunni loða, því eg hugsaði með mér, að eg skyldi gera mér þar úr vana, til hvers eg mætti helzt taka, hvort sem árásirnar að höndum kæmi í svefni eða vöku. En þráoft bar það við, að mér var hin mesta nauðung að því verki, svo eg varð sjálfum mér þar til að nauðga rétt á móti þverum vilja. (94)

Sitt sýnist hverjum um þessa aðferð síra Jóns og mörgum finnst eflaust sem þarna sé um að ræða frekar vélræna og allt að því lífvana trú. Menn sjá kannski síra Jón fyrir sér sem hálfgert vélmenni skyrpandi út úr sér orði Guðs á frekar kaldan hátt, laust við innileika og hlýju. En hér er þó kannski miklu fremur um að ræða ákveðna aðferðarfræði hjá síra Jóni, í verstu köstunum, þar sem tungan er einfaldlega tæki til lækningar.

Um þessa aðferð síra Jóns segir Sigurður Nordal í erindi sínu Trúarlíf síra Jóns Magnússonar:

En nú er að reyna að skilja hinn þáttinn, sem mörgum mun jafnvel finnast enn fjarstæðari og ógeðfelldari en sjálfar lýsingar kvalanna og freistinganna: bænastaglið, klifunina á guðs orði með þurrum huga og steingerðu hjarta. Getur nokkuð verið óskyldara sannri, lifandi og heilbrigðri trú en þessi varaþjónusta við drottin, sem síra Jóni virtist vera slíkt sáluhjálparatriði? (31)

En menn verða að taka það með í reikninginn að síra Jón er sárþjáður á sál og líkama og vandséð er hvað skal til bragðs taka. Ekki var hægt að leita til geðlækna á þessum tíma og fá við þessum kvillum lyf í apótekum og ekki var um það að ræða að fara síðan í hópmeðferð eða eitthvað þvíumlíkt. Í grein sinni Merkingarheimur og skynjun skoðar Ólína Þorvarðardóttir einmitt Píslarsögu síra Jóns út frá læknisfræðilegu sjónarhorni og segir á einum stað:

Sú spurning hefur gerst áleitin hvort séra Jón Magnússon hafi í raun þjáðst af geðklofa, vegna þess að margt í píslarsögu hans gefur til kynna að einmitt þannig hafi verið komið fyrir honum. Óttar Guðmundsson læknir hefur sett fram þá skoðun og segir að flestir nútímalæknar hefðu látið klerkinn fá geðlyf til þess að slá á hugmyndir hans og skynvillur. (39)

Það er hægt að skoða og túlka píslarsögu síra Jóns á margan hátt, en hvað sem slíkum pælingum líður verða menn að muna að síra Jón er uppi á tímum mikils rétttrúnaðar og drottinn guð er vandlátur mjög, eða eins og segir í áðurnefndu erindi Sigurðar Nordal:

Samkvæmt hinum mikla rétttrúnaði 17. aldar lék ekki nokkur vafi á opinberuðum sannleika. Vandinn var sá einn að beygja hugsunina skilyrðislaust undir ok trúarsetninganna. Allar efasemdir voru hégómleg uppreisn villuráfandi heimsku, sem þóttist vera vizka, eða blátt áfram tálsnörur djöfulsins. (35)

Í ljósi upplýsinga um rétttrúnaðinn og hugsun almennings á þessum tíma finnst mér bænaklifur síra Jóns hvorki ógeðfellt né fjarstæðukennt. Hér er miklu fremur um að ræða síðasta hálmstráið hjá sjúkum og skynsömum manni sem ég vil meina að síra Jón hafi verið. Hann veit að það er einn hinn allraversti glæpur þessa tíma að formæla drottni almáttugum. Hann er farinn að freistast til þess í verstu kvölunum og ef hann lætur undan þeirri freistingu þýðir það ekki nema eitt: allt er tapað, ekkert er framundan nema eilíf útskúfun í helvíti.

Bænaklifið er í raun og veru það eina sem síra Jón getur gert og það gerir hann þó stundum sé honum það óljúft eins og áður hefur fram komið. Aðalatriðið er að láta ekki undan, bíta á jaxlinn í þeirri fullvissu að hans bíði eilíf himnasæla hjá drottni almáttugum standist hann þessa prófraun fordæðuskaparins.

Heimildaskrá:

Biblían. Hið íslenzka biblíufélag, Reykjavík 1978

Matthías Viðar Sæmundsson 1996. Galdur á brennuöld. Storð, Reykjavík.

Ólína Þorvarðardóttir 1992. “Merkingarheimur og skynjun. Sekt og sakleysi í Píslarsögu Jóns Magnússonar”, Tímarit máls og menningar, 53 árg. 4. Hefti.

Píslarsaga síra Jóns Magnússonar. Sigurður Nordal sá um útgáfuna, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1967.

Silja Aðalsteinsdóttir 1993. Bók af bók. Mál og menning, Reykjavík.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Þetta var mjög skemmtileg lesning, minnir á margt sem ég hef fengið nasasjón af gegnum lestur Kristínar :D
Mjög áhugaverð pæling með bænaklifið, sú gryfja sem hann lagði allt kapp á að forðast hafi verið að lastmæla Guði, minnir mjög á Jobsbók, en það var einmitt freisting hans. (Finnast ummæli konu hans alltaf jafn epísk "lastmæltu Guði og deyðu").

Ætli ég setji ekki píslarsöguna á listan yfir bækur sem væri gaman að lesa í framtíðinni :D

Svanur Már Snorrason sagði...

Takk fyrir þetta Helgi ...

Kv,

Svanur