mánudagur, 12. nóvember 2007

Í Viðtali Við Víkurfréttir



Fullt nafn: Svanur Már Snorrason

Fæðingardagur og ár: 25. maí, 1971

Atvinna: Starfsmaður á Bókasafni Hafnarfjarðar. Af og til er ég blaðamaður

Maki: Ásdís Erla Valdórsdóttir, landsbyggðarmær

Börn: Elísa Rún, 8 ára, og Valur Áki, 4 ára

Áhugamál: Ljósmyndun, tónlist, bókmenntir, íþróttir og margt fleira

Hvaða bók ertu að lesa og hvaða bók langar þig að lesa?
Skáldsöguna Trúðurinn eftir Heinrich Böll og leikritið Dagur vonar eftir Birgi Sigurðsson. Blikktromman eftir Günter Grass hefur lengi verið á óskaleslistanum

Hvað er það fyrsta sem kemur upp í hugann á morgnanna?
Meiri svefn. Eftir það kemur sterkt kaffi upp í hugann

Ef þú gætir unnið við hvað sem er, hvað væri það þá og af hverju?
Eitthvað skapandi, uppbyggilegt og gefandi. Ekki bara fyrir mig heldur sem flesta. Er hægt að biðja um meira?

Hvað er það allra skemmtilegasta sem þú gerir?
Vera með fólki sem mér þykir vænt um og líður vel með. Svo er alltaf gaman í körfu

Hvað er það sem fer mest í taugarnar á þér?
Baktal, rógur og slúður á vinnustöðum er eitur í mínum beinum. Svo er öfundsýki svo sannarlega ekki af hinu góða

Hvað er næst á dagskrá hjá þér? Almenn bæting, alltaf pláss fyrir hana

Hvað gerir þú til að láta þér líða vel?
Eitthvað sem fær mann til að slaka á og gleyma öllu amstri og leiðindum. Aðferðirnar eru mismunandi

Hvað er með öllu ónauðsynlegt að þínu mati?
Hungurdauði í heimi allsnægta. Ójöfnuður líka

Ef þú værir bæjarstjóri í einn dag hvað væri það fyrsta sem þú myndir gera?
Hækka launin svo um munar hjá starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar. Gera svo göng undir Reykjavíkurveg hjá umferðarljósunum rétt við Nóatún. Oft hættuleg umferðin þar fyrir lítil börn

Ef þú gætir verið einhver einstaklingur úr veraldarsögunni, hver myndirðu vera og af hverju?
Mig hefur aldrei langað til að vera neinn annar en ég er. Hins vegar væri heimurinn mun betri ef það myndu fleiri hugsa og framkvæma eins og Mahatma Gandhi gerði

Gætir þú lifað án síma, tölvu og sjónvarps? Færi létt með það

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur gert?
Spurði eitt sinn mann sem ég þekki lítillega hvenær kona hans ætti von á sér. Hún var ekki ólétt! Langaði að kasta mér út um næsta glugga

Ein góð saga úr „bransanum“:
Þegar FH varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti í meistaraflokki karla í knattspyrnu, árið 2004, var ég sendur til Akureyrar fyrir Fréttablaðið og DV til að skrifa um leik FH og KA. Titillinn varð staðreynd og tímapressan var fáránlega mikil enda þurfti að rigga upp vitrænni umfjöllun í tvö blöð á nánast engum tíma. Einar Óla, ljósmyndari og toppmaður, var með mér í för og honum hafði fyrr um daginn dottið það “snjallræði” í hug fyrr um daginn, án þess að láta mig vita, að flýta fluginu okkar heim – gert með góðum huga en ég mun aldrei skilja hvers vegna hann gerði það. Tímapressan jókst sem þessu nam og við vorum karlmenn á barmi taugaáfalls þetta kvöldið. Veit ekki hvernig, en þetta hafðist

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það var helvíti gaman að sjá þetta í Víkurfréttum. Einn daginn verð ég vonandi svona merkilegur og fæ viðtal.

Nafnlaus sagði...

Þú ert merkilegur. Og þú munt fá viðtal og viðtöl. Gangi þér sem best í háloftunum mister Top Gun :)

Kv, Svanur

Nafnlaus sagði...

skemmtilegt viðtal :)

Hjalti sagði...

Já, ég er viss um að Marteinn Áki verður einn daginn jafnmerkilegur og Snorri Már og fær sams konar viðtal. Þetta er jú allt innbyggt, innbyggt í bílana.

Nafnlaus sagði...

Þú hittir naglann, naglann á höfuðið Hjalti. Á eitístímabilinu var Snorri Már Skúlason, ásamt kollega sínum Skúla Helgasyni (no relation to Throstur), ein af sjónvarpshetjunum mínum. Var Snorri Már, ásamt kollega sínum Skúla Helgasyni (no relation to Throstur), með umsjón tónlistarþáttar á RÚV er hét Skonrokk. Lögðu þeir félagar mikla áherslu á svokallað "gáfumannapopp" og þóttu frekar framsæknir (miðað við tímabilið, sjáðu nú til). Svo hef ég oft verið kallaður Snorri af kennurum í gegnum tíðina og markast það líklega af tvennu: Nafni föður míns og einhverskonar góðlátlegri stríðni. Með allra bestu kveðju, Svanur Már, eða þannig...

Ps: Telur þú Hjalti að Marteinn Áki sé gott efni í orrustuflugmann?

Nafnlaus sagði...

Svaraðu Hjalti, Svaraðu kallinu, bið að heilsa Hebba. En hvað með Matta Top Gun?

Kv, Svanur

Hjalti sagði...

Afsakið seinaganginn (krabbaganginn).

Marteinn Áki er mjög efnilegur orustuflugmaður, hann þarf bara aðeins að vinna í tvíhöfðunum, fá sér Ray Bahn-sólgleraugu og þá er þetta komið. Vonum bara að hann endi ekki sem legkökuétandi viðundur í Vísindakirkjunni eins og forveri hans sem þótti kúlaðastur allra árið 1990 eða hvenær sem það var, sirka um það leyti sem Svanur var að vaxa upp úr hárlakkinu og farinn að mæta á nýdanskrartónleika (lét þó ógert að fara á Stutts frakka-tónleikana).

Marteinn Áki verður vonandi ekki í flugflota Kínverjana þegar þeir taka völdin hér.

Orð dagsins (5. desember) er hóteldós.

Annars finnst mér að þú, Svanur Már Snorrason, ættir að taka listræna mynd og kalla hana Seinagangur/krabbagangur. Láta hana svo inn á bloggið. Sem stendur sé ég bara ekkert annað í stöðunni.

Bið að lokum að heilsa fólkinu á BSH, einkum Ásdísi Huld, sem mér vitanlega er ekkert skyld Þresti Helgasyni.