föstudagur, 30. nóvember 2007

Minningar & músík IV


Laugardaginn 29. september, 2007 -
Menningarblað/Lesbók Morgunblaðsins

Poppklassík: Eftir Svan Má Snorrason sms@utopia.is

Meistaraverkið Roxy Music

Frumburður bresku hljómsveitarinnar Roxy Music leit dagsins ljós árið 1972. Var skífan samnefnd hljómsveitinni, sem stofnuð var árið 1970. Á þessum upphafsárum skipuðu hljómsveitina þeir Bryan Ferry, sem söng og spilaði á píanó, Graham Simpson bassaleikari, Andrew Mackay, sem lék á óbó og saxófón, Brian Eno, sem fór fingrum um hljómborð auk ýmissar annarrar tilraunakenndrar hljóðsköpunar, Paul Thompson trommuleikari og Phil Manzanera sem lék á gítar.

Frá byrjun var Roxy Music oftlega kennd við svonefnt "art rock" eða listarokk á okkar ylhýra, enda komu upprunalegu meðlimir hljómsveitarinnar allir úr listaskólum. Með tímanum umbreyttist hljómsveitin smám saman í hefðbundnari hljómsveit og poppáhrifa tók að gæta, vinsældir jukust sem og sala hljómplatna.

Skífan sem hér er til umfjöllunar, Roxy Music, náði litlum sem engum almennum vinsældum. Eitt lag af henni, Virginia Plain, var þó gefið út á smáskífu og komst í fjórða sæti breska vinsældalistans. Annars var salan lítil.

Óhætt er að segja að skífa þessi sé týndur fjársjóður, ef svo mætti að orði komast. Tónlistin sem á henni ómar er ótrúlega hugmyndarík, framúrstefnuleg, tilraunakennd, kraftmikil og frábærlega flutt; sjálfstraustið geislar af hljómsveitarmönnum og hér er mörgu blandað saman í stórkostlegan kokkteil sem framkallar frábæra vímu, skilur eftir sig unaðslegt eftirbragð en nákvæmlega enga þynnku. Hljóðfæraleikurinn er þéttur og spennandi, útsetningar stundum flóknar en alltaf athyglisverðar.

Þó er það, eins og svo oft áður þar sem Bryan Ferry kemur við sögu, að hann stelur senunni. Hann er með magnaða rödd og hann getur og gerir svo margt með henni eins og komið hefur í ljós á síðustu 35 árum. Á þessari skífu nýtur hann sín sérstaklega – hann er óþekktur, ekki undir pressu og það heyrist. Frjálsræðið skilar sér vel og rödd hans hljómar töffaralega á tilraunakenndan, áreynslulausan og tilgerðarlausan hátt, þótt hún sé uppfull af töffarastælum – það er hreint út sagt yndislegt að hlusta. Ferry fer alveg að mörkum tilgerðarinnar og töffaramennskunnar, en aldrei yfir þau. Lagasmíðar skífunnar eru frábærar og þær á Ferry allar.

Oft hefur þáttur Brians Eno verið uppi á borðum þegar upphafsár Roxy Music hefur borið á góma, og hann oft mærður mikið. Eno, sem yfirgaf sveitina einni skífu eftir þessa (sú hét For Your Pleasure og kom út árið 1973), var hvorki aðalmaðurinn, aðalhugmyndasmiðurinn né drifkrafturinn í einni stórkostlegustu hljómsveit allra tíma, Roxy Music. Ó nei, þótt Eno verði alltaf minnst sem tónlistarmanns í hæsta gæðaflokki, þá er það Bryan Ferry sem á mest af heiðrinum skilið á þessum gjöfulu upphafsárum og það sýnir og sannar þessi skífa, Roxy Music.

Hún er ekkert annað en meistaraverk sem á skilda miklu meiri umfjöllun og spilun en raun hefur verið.

Lesendur góðir, ef þið viljið heyra hugmyndaríka rokktónlist í hæsta gæðaflokki þá skuluð þið verða ykkur úti um þessa skífu – Roxy Music. Ég ábyrgist þeir munu segja satt.

P.s.: Snemma árs 1970 fór Bryan Ferry í prufu hjá hinni goðsagnakenndu bresku rokkhljómsveit King Crimson. Þrátt fyrir að heillast af rödd Ferry og hæfileikum hans þótti meðlimum sveitarinnar röddin ekki passa við það sem þeir höfðu í huga. Þeir sögðu því nei við starfsumsókninni, en líka já. Þeir vildu að hæfileikar Ferry fengju að njóta sín og að hann og félagar hans, sem stuttu síðar urðu Roxy Music, kæmust á útgáfusamning. Og þegar maður fær meðmæli frá King Crimson fær maður samning.

Það hefði verið forvitnilegt að heyra hvernig King Crimson hefði hljómað með Bryan Ferry innanborðs, en ég hefði ekki fyrir nokkra muni viljað missa af því sköpunarverki er leit dagsins ljós á fyrstu skífu Roxy Music.

Engin ummæli: