sunnudagur, 18. nóvember 2007

Pælingar 18

Niður með skattinn!

Ég er á þeirri skoðun að almenningi finnist ekkert sárt að greiða skatta og skyldur - svo lengi sem álögin séu sanngjörn. Svo er ekki raunin hér á landi.

Einhverra hluta vegna telja íslensk stjórnvöld að best sé að skattpína almenning með svo hraustlegum hætti að fáheyrt er á þessari plánetu. Og í þokkabót hafa skattkerfið svo flókið að fáir skilja upp né niður í því.

Flókið skattkerfi með fáranlegri skattprósentu, eins og er við lýði, ætti að heyra sögunni til, svona næstum því eins og Framsóknarflokkurinn.

Til hvers að hafa flókið kerfi sem virðist ekki miða að neinu nema að herja á almenning? Til hvers að hafa kerfi sem endalausar glufur eru í og allt fullt af möguleikum á undanþágum fyrir einhverja ákveðna aðila? Pólítik?

Það var gott skref sem stigið var fyrir ekki svo löngu, þegar álögur voru lækkaðar á fyrirtæki og umhverfi þeirra gert þægilegra en áður. Enda hafa íslensk fyrirtæki mörg hver vaxið hratt síðan.

En af hverju var ekki byrjað á almenningi, fólkinu sem byggir og er landið?

Og hvað vill almenningur í þessum málum? Að mínu mati vilja flestir fá að vera í friði, hafa hlutina á tæru og einfaldleikann og öryggið í bakgrunni. Sama á við um fjármálin. Þess vegna er það þannig að ef skattar á almenning yrðu lækkaðir verulega og kerfið gert eins einfalt eins og mögulegt væri myndi ríkið bera miklu meira úr býtum en það gerir í dag. Fólk myndi ekki nenna að svindla undan skatti.

Það er nefnilega útbreiddur misskilningur að fólk vilji ekki borga skattana sína; flestir eru vel meðvitaðir um samfélagslegt mikilvægi þeirra – þeir skipta öllu í rekstri ríkisins, og við erum ríkið, og við viljum búa í góðu samfélagi. En stjórnmálamenn trúa ekki almenningi, enda, eins og áður hefur fram komið á þessum vettvangi, ekki skörpustu hnífarnir í skúffunni.

En það er möguleiki á að þeir átti sig á þessu og við verðum einfaldlega að lifa í voninni.

Mikið held ég að það væri gott að búa hér ef ég réði!

Víkurfréttir, 21. júni 2007

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já skatturinn, það voru nú margir sem sviku undan skatti í mínu ungdæmi. Man eftir manni, það var reyndar helvítis bleyða, sem flutti inn gúmmískó frá Tékklandi. Seldi þá dýrum dómum á svörtum markaði, hafði klastrað einhverri miðamynd aftan á hælinn sem á stóð Dósné Tzchek en þessar setningar hafði hann séð utan á tékkneskum klósettpappír. Íslendingar hafa alltaf snobbað fyrir því erlenda, jafnvel þótt það hafi komið úr austrinu. Nú þegar skatturinn fór að athuga málið kom í ljós, ekki einungis að karlræfillinn væri að stinga undan skatti, heldur og að téðir gúmmískór væru skorin gúmmístígvél norðan úr Miðfirði. Og þótti það ekki í frásögur færandi. Kveðja, Eiríkur.