sunnudagur, 14. október 2007

Pælingar 16


Tími á breytingar

Enn og aftur kosningar. Ótrúlega fallegur áróðurinn hefur kaffært fólk síðustu vikurnar. Ef allt myndi standast þar yrði Ísland að Paradís á jörðu. Svo verður þó ekki. Megnið af þessum loforðum er lygaþvættingur; ódýr leið til að fá fólk til að glenna upp augun og trúa því að hér séu til almennilegir stjórnmálamenn sem standa við loforð. En þeir eru fáir. Og enn færri verða efndirnar.

En hvað eru kosningar? Margt, auðvitað, en eins og staðan er í samfélaginu í dag eru þessar kosningar fyrst og fremst frábært tækifæri til að koma ríkjandi valdhöfum frá. Og þá sérstaklega litla stóra flokknum; þessum sem hefur ríkt í tólf ár með Sjálfstæðisflokknum og komið nánast öllum sem hann getur hafa komið á spena. Framsóknarflokkurinn, muniði?

En ekki þarf þó að sýna Sjálfstæðisflokknum neina sérstaka mildi bara vegna þess hversu spilltir Framsóknarmenn eru. Það þarf að koma Sjöllunum frá eða þá að þeir verði í ríkisstjórn sem fleiri en tveir flokkar mynda.

Eftir klúðrið á Kárahnjúkum og stuðninginn við viðbjóðslegan hernað Bandaríkjamanna í Írak er ljóst að skipta þarf um valdhafa. Miklu fleiri dæmi væri hægt að nefna en læt nægja að minna á nýlegt spillingardæmi frá Framsókn þar sem umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, var í aðalhlutverki í veitingu ríkisborgararétts til kærustu sonar síns, á mettíma. Í flestum lýðræðisríkjum hefði ráðherra uppvís af slíkum verknaði umsvifalaust sagt af sér. Í staðinn rífur umhverfisráðherra stólpakjaft, vísar meintri sök á bug og kennir fréttamönnum um.

Spilling og lítið af heiðarleika - hvað þá því að taka afleiðingum gjörða sinna.

Það er klárt mál að aðrir flokkar eiga skilið tækifæri nú, hinir tveir eru búnir að sitja að kjötkötlunum of lengi. Varla versnar þetta ástand hér þar sem vegið er að öldruðu fólki og öryrkjum og allt gert fyrir þá sem meira mega sín.

En mun ástandið batna? Það verður eitthvað öðruvísi, og það er meira en næg ástæða fyrir því að koma ríkjandi valdhöfum frá. Stundum þarf að breyta eingöngu breytinganna vegna.
Þannig er ástandið nú.

Víkurfréttir, 10.maí 2007

2 ummæli:

Unknown sagði...

jújú, passar með megas ;)

Nafnlaus sagði...

Gott mál - flott mynd. En mundu að láta þessa kóna merkja þér myndina. Voru tónleikarnir ekki góðir? Kv, Svanur