miðvikudagur, 31. október 2007

Reunion 2007: Árgangur 1971 - Víðistaðaskóli

Ég, Sveinbjörn, Steini og Addi í góðum gír. Stuttu síðar fór móða á rúðunum að gera vart við sig sem og þokuslæðingur.

sunnudagur, 28. október 2007

Pælingar 17


Frítt í strætó!

Af hverju í ósköpunum er ekki frítt í strætó fyrir alla?

Ég geri mér grein fyrir því að flestir stjórnmálamenn eru ekki skörpustu hnífarnir í skúffunni, en fyrr má nú rota en dauðrota!

Jafnvel stjórnmálamenn hljóta að sjá það og skynja hversu mikilvægt skref í rétta átt það yrði að hafa frítt fyrir alla í strætó.

Í okkar ofurhraða og yfirborðskennda samfélagi, þar sem flest gengur út á sýndarmennsku og flottræfilshátt, og áhugaleysi á náttúrvernd og umhverfismálum er áberandi (áhuginn er þó er að aukast), er ég sannfærður um að MJÖG svo aukin notkun almennings á strætó myndi draga verulega úr bílaumferð; og úr mengun myndi þá draga stórkostlega - það er nú ekki lítið.

En af hverju notar fólk ekki strætó meira en raun ber vitni? Ég get bara svarað fyrir mig: Það er of dýrt í strætó og kerfið sjálft er ekki nægilega skilvirkt. Síðan er ekki nægilega töff að ferðast með strætó. Það skiptir máli því til þess að fá ungt fólk til að ferðast með strætó þarf það að vera töff. Hvernig við förum að því að gera ferð með strætó töff er svo allt annað mál.

Við þurfum að fá fólk til að draga úr því að ferðast eitt í bíl sínum til vinnu - minnka einkabílaneyslu svo um munar. Ókeypis í strætó og skilvirkt kerfi myndi gera sitt í þeim efnum. Boltinn er hjá blessuðum stjórnmálamönnunum. Ríkið og sveitafélögin verða að koma sér saman um þetta - það eina sem vantar er vilji. Það gengur ekki að eitt sveitarfélag bjóði frítt í strætó fyrir aldraða, annað frítt fyrir nemendur og svo framvegis. Hér þarf heildarsamræmingu þar sem orðin frítt og skilvirkni verða áberandi.

Vegakerfið á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu er algjörlega sprungið en með því að hafa frítt í strætó gæti skriðan farið af stað; það gæti verið upphafið að mikilli bætingu fyrir samfélagið í ákveðnum málum sem snerta okkur öll; samgöngu- og umhverfismál.

Af hverju í ósköpunum er ekki frítt í strætó fyrir alla?


Víkurfréttir, 7. júni 2007

föstudagur, 26. október 2007

Fallega Elísa


Alltaf góð og blíð og í ljúfu skapi. Elskar lífið, finnst ótrúlega gaman að vera til. Vill að allt sé að gerast alltaf. Broshýr og skemmtileg. Alltaf. Elísa.

miðvikudagur, 24. október 2007

laugardagur, 20. október 2007

Gullkorn Vals Áka


Valur Áki er, ásamt föður sínum og Rúnu ömmu, staddur á bensínstöð við Reykjarvíkurveg í Hafnarfirði. Valur Áki er með opinn glugga í aftursæti á Volvo bifreið föður síns, og verður starsýnt á sköllóttan mann. Mann sem hefur til að bera nokkuð egglaga höfuð og dælir bensíni eða dísilolíu á bíl sinn. Lætur Valur Áki þá þessi fleygu orð falla:


"Sjáðu manninn þarna! Hann er ekki með neitt hár - hann er bara með kúlu."

fimmtudagur, 18. október 2007

MEYR


Tender is the ghost

The ghost I love the most

Hiding from the sun

Waiting for the night to come

Tender is my heart

For screwing up my life

Lord I need to find

Someone who can heal my mind

sunnudagur, 14. október 2007

Pælingar 16


Tími á breytingar

Enn og aftur kosningar. Ótrúlega fallegur áróðurinn hefur kaffært fólk síðustu vikurnar. Ef allt myndi standast þar yrði Ísland að Paradís á jörðu. Svo verður þó ekki. Megnið af þessum loforðum er lygaþvættingur; ódýr leið til að fá fólk til að glenna upp augun og trúa því að hér séu til almennilegir stjórnmálamenn sem standa við loforð. En þeir eru fáir. Og enn færri verða efndirnar.

En hvað eru kosningar? Margt, auðvitað, en eins og staðan er í samfélaginu í dag eru þessar kosningar fyrst og fremst frábært tækifæri til að koma ríkjandi valdhöfum frá. Og þá sérstaklega litla stóra flokknum; þessum sem hefur ríkt í tólf ár með Sjálfstæðisflokknum og komið nánast öllum sem hann getur hafa komið á spena. Framsóknarflokkurinn, muniði?

En ekki þarf þó að sýna Sjálfstæðisflokknum neina sérstaka mildi bara vegna þess hversu spilltir Framsóknarmenn eru. Það þarf að koma Sjöllunum frá eða þá að þeir verði í ríkisstjórn sem fleiri en tveir flokkar mynda.

Eftir klúðrið á Kárahnjúkum og stuðninginn við viðbjóðslegan hernað Bandaríkjamanna í Írak er ljóst að skipta þarf um valdhafa. Miklu fleiri dæmi væri hægt að nefna en læt nægja að minna á nýlegt spillingardæmi frá Framsókn þar sem umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, var í aðalhlutverki í veitingu ríkisborgararétts til kærustu sonar síns, á mettíma. Í flestum lýðræðisríkjum hefði ráðherra uppvís af slíkum verknaði umsvifalaust sagt af sér. Í staðinn rífur umhverfisráðherra stólpakjaft, vísar meintri sök á bug og kennir fréttamönnum um.

Spilling og lítið af heiðarleika - hvað þá því að taka afleiðingum gjörða sinna.

Það er klárt mál að aðrir flokkar eiga skilið tækifæri nú, hinir tveir eru búnir að sitja að kjötkötlunum of lengi. Varla versnar þetta ástand hér þar sem vegið er að öldruðu fólki og öryrkjum og allt gert fyrir þá sem meira mega sín.

En mun ástandið batna? Það verður eitthvað öðruvísi, og það er meira en næg ástæða fyrir því að koma ríkjandi valdhöfum frá. Stundum þarf að breyta eingöngu breytinganna vegna.
Þannig er ástandið nú.

Víkurfréttir, 10.maí 2007

fimmtudagur, 11. október 2007

Dreymdi/Dreymi


Í nótt mig dreymdi á suðramrísku

Páfagauk með ístru

Og spænska borgarastyrjöldin stóð sem hæst

Stóð sem lægst

En Hemingway vildi ekkert við mig tala

Of mikill raki

(Höf. Álfrún Gunnlaugsdóttir)

mánudagur, 8. október 2007

Hann á afmæli í dag!


Valur Áki er orðinn fjögurra ára gamall. Til hamingju elsku litli stóri strákur.

miðvikudagur, 3. október 2007

Allt er við það sama


Hún stoppaði ekki þótt ég kallaði á eftir henni

Ég reyndi að stoppa í götin en kunnátta mín í þeim efnum er af skornum skammti

Datt í hug að segja eitthvað við hæfi - eitthvað asnalegt

Því var ekki vel tekið - eins og ég vel vissi - en er alveg slétt sama

Slétt sama

Ákvað þó að hlaupa einn hring kringum blokkina

Það var góð ákvörðun

Allt er við það sama

(Höf. Sigurður Pálsson)

mánudagur, 1. október 2007

Trípólí


rauður litur vínsins kallaði fram minningar um árfarvegi og stolið reiðhjól

kallar líka fram áður óbirtar myndir af sólríkum dögum sem breyttust í svartnætti

vil hins vegar ekki setja út á þá sem klæddust kjólum og máluðu sig á kvöldum þegar foreldrarnir voru ekki heima við

þátttaka, spenna, eftirvænting, rafmagn, skömm

teknar myndir, enginn veit hvar þær eru

langar að sjá þær í dag en ekki á morgun

og svo eiga þær allar

hver og ein brást mér, sveik mig, lét mér líða skringilega enda líka svo feginn

höfnun ekki alltaf slæm, vita ekki hver eða hvað

það kemur seinna eins og góður fjárhagur og hamingja og menntun og raðbýlishúsið og einkavegsjeppinn ásamt jarðarkringlunni með heita pottinum og öllum ferðunum á hóruhúsin