laugardagur, 29. desember 2012

Á austurleið

Eftir að hafa fyllt bílinn af bensíni var keyrt af stað. Myndavélin með í för og óspart notuð, af fullorðnum og börnum. Áfangastaðurinn var fyrir austan - í þá átt var haldið.

miðvikudagur, 21. nóvember 2012

þriðjudagur, 30. október 2012

Timothy Dalton er minn James Bond


Timothy Dalton er minn James Bond og ef ég heyri einu sinni enn að Sean Connery sé hinn eini sanni James Bond þá gubba ég upp í mig og kyngi því öllu.

Hinn eini sanni James Bond er ekki til – bara uppáhalds.

Þegar Timothy Dalton tók við hlutverki James Bond af Roger Moore var hann svo ferskur að það brakaði í honum; frumraunin frá árinu 1987, The Living Daylights, er uppáhalds Bond-myndin mín.

En það var ekki bara Dalton að þakka þetta með ferskleikann, heldur var farið að slá hressilega í Roger Moore – hann var úldnari í View To A Kill (skemmtileg mynd) en Sean Connery (í slöppustu Bond-myndinni) í Diamonds Are Forever.

Dalton var andstaða Moore (það liggur beinast við að bera þá saman). Moore túlkaði Bond sem mjúkan glaumgosa með allt á hreinu sem skyrpti út úr sér fimmaurabröndurunum um leið og hann barðist við illfygli sem áttu það sameiginlegt að þrá heimsyfirráð, á meðan Dalton var glerharður og mun líkari þeim karakter sem Ian Fleming skapaði upphaflega í bókunum.

Dalton dró upp nýja mynd af njósnaranum – hans Bond er alvarlegur en ekki leiðinlegur, eins og flest alvarlegt fólk er. Hann barðist við trúverðuga andstæðinga - vopnasala og eiturlyfjabaróna, og var í uppreisn gegn yfirmönnum sínum.

Í hinni Bond-myndinni sem Dalton lék í, Licence To Kill, frá árinu 1989, er Bond í hefndarhug og gefur skít í M og heldur í persónulega hefndaraðgerð þar sem engu er eirt.

Dalton dregur upp mynd af njósnara sem líður ekki vel með öll drápin sem hann hefur framið; hann er öróttur að innan – fallegur að utan – og stútfullur af dimmum hugsunum – þreyttur, en samt til í einn bardaga í viðbót. Ekki hægt að biðja um meira.

Dalton brýndi hnífana og varpaði ljósi raunsæis á hlutverkið, en Moore var rómantískur, sem er glatað.

Þess má geta að Dalton lék áhættuatriðin sjálfur í myndunum tveimur; fór fram á ystu brún, eins og karakterinn upphaflega.

Timothy Dalton er eins raunverulegur sem James Bond og mögulegt er.

Timothy Dalton er minn James Bond.

Grein sem birtist í Fréttatímanum, 25. október 2012, en er hér óstytt.

þriðjudagur, 23. október 2012

Tvískiptur heimur



Gangandi íkorni

Óhætt er að segja að greining né gagnrýni á þessari skáldsögu sé ekki svo auðvelt verkefni því hún er einkennilega skrýtin.
Á yfirborðinu byggir sagan á mjög einfaldri hugmynd um strák sem leiðist tilveran í kringum og teiknar sig í bókstaflegum skilningi inn í aðra tilveru sem er ólík að því leyti að þar búa dýr en ekki menn. Að öðru leyti eru þessar tvær tilverur í lífi stráksins ekki svo ólíkar því dýrin eru gædd mannlegum eiginleikum, þau hugsa, tala, ganga eins og menn, drekka kaffi, ræða málin og yfirleitt gera alla þá hversdagslegu hluti sem einkenna svo menn og mannlegt líf. Það er ekkert dýrslegt í fari, nema það dýrslega sem einkennir manninn, þau bíta ekki gras hugsunarlaust eða bryðja hnetur án þess að vita fullkomlega af því. Allt sem þau gera einkennist af mannlegri hegðun, bæði það góða og það illa. Í raun eru dýrin menn miklu frekar en mennirnir eru dýr eins og stundum er sagt.
Sagan er tvískipt eftir efni hennar. Það eru tveir heimar í henni og tvær aðalpersónur; heimur hversdagsleikans og heimur ævintýrisins og strákur að nafni Sigmar sem vantar athygli og nafnlaus íkorni sem er ofsóttur. Í raun má sjá söguna sem tvær aðskildar sögur sem tengjast í nokkurskonar ummyndun eða draumi:

Fyrst teikna ég flugvél og hákarl lónandi í gruggugu hafi undir. Síðan færi ég mig til á blaðinu. Ég leggst þungt á tréblýantinn og vanda mig. Allt í einu er orðinn til strákofi með garðskækli við, lítil lognvær tjörn, og íkorni.
... Ég teikna ekki meira. Þess í stað færi ég mig yfir á stóra auða svæðið og byrja að skrifa það sem ég sé gerast fyrir augunum á mér; íkorninn fer að hreyfast. ... Ég skrifa, og er þegar kominn hálfur inní myndina. Þarna er hlýtt loftslag, fallegt landslag, og mig langar ekki til baka. ... Ég fer lengra, ég stíg skrefið til fulls, ég er orðinn að íkorna.
Þegar Björg kemur til að segja mér að rýma fyrir kaffibollum og kökudiskum, sér hún engan. (Gangandi íkorni, bls. 61-62).

Heimur drengsins í sögunni er ósköp venjulegur heimur og tilbreytingarlaus. Hann býr hjá eldri hjónum á sveitabæ rétt utan við þorp. Aðrar persónur koma varla við sögu. Þetta er lokaður og kyrrstæður heimur þar sem drengurinn þarf að finna upp á leikjum til að drepa tímann. Þessir leikir eru vægast sagt undarlegir, til dæmis að hanga í brúarhandriði, fara inn í gamalt tundurdufl og æpa, banka veggina í herberginu tímunum saman og gleypa högl!
Drengurinn er sífellt að prófa eitthvað sem eiginlega má ekki. Hann sýnir á sér andfélagslega hegðun, eitthvað sem kallast skrýtið í samfélaginu og aðrir viðurkenna ekki sem gott.
Heimur íkornans í sögunni er ósköp tilbreytingarlaus. Það gerist í raun lítið annað þar en samræður og kaffidrykkja. En íkornanum steðjar samt sem áður ógn af einhverju óskilgreindu, það er eins og það liggi í loftinu og bíði við hvert fótmál hans. Það er brotist inn í húsið hans, hann er eltur um húsagarða að kvöldlagi:

Hann átti skamman spöl ófarinn heim þegar út úr húsasundi stökk skuggalegur fyrirburður. Hann var með vasaljós undir hökunni og lýsti upp fésið og skerpti djöfullega drættina. Veran nálgaðist hálfbogin, smákjöltrandi. “He, he, þá er ég loksins komin, he.” Íkorninn stífnaði. “He, he, nú kemstu ekki undan.” Íkorninn skimaði angistarfullur í kringum sig. Síðan stökk hann eldsnöggt inn í nærliggjandi garð. (Bls. 84).

Það er eins og þessi óskilgreinda ógn sé eingöngu í borginni og eigi heima þar. Með henni tekst Gyrði að skapa mjög hrollvekjukennda sögu í þessu saklausa umhverfi þar sem gæludýr hittast og ræða málin yfir kaffibolla eða tei og það er í raun erfitt að trúa því að við þessar barnalegu aðstæður verði til svo mikil ógn.
Ógnin er líka til í heimi drengsins og birtist í skrýtnum leikjum hans. Þar er hætta við hvert fótmál. Í lok sögunnar sér drengurinn nafn Allans Quatermain, en það er nafn á aðalpersónu í sögunni “Námur Salómons konungs”. Þar er dauðinn við hvert fótmál í myrkvuðum frumskógum og eyðimörkum. Kannski má með þessu sjá einhverjar hliðstæður með lífi drengsins og ferðum Allans Quatermain og virkar mjög skrýtið og auðvitað skemmtilegt.
Í myndmáli bókarinnar kemur þessi ógn skýrt fram, til dæmis strax í upphafi sögunnar birtist hún í líki risaköngulóar:

Draumsólir vekja mig, andartak er ég óviss um staðsetningu mína í þessum eða hinum heiminum, ljósakrónan kemur mér á sporið; áþekk risavöxnum dordingli spinnur hún sig niður að mér. Þráðbeint. (Bls. 7).

En samt er eins og þessi ógn sé um leið barnslega saklaus. Hún gerist í höfðinu á svona tíu ára gömlum dreng og skrýtnum íkorna sem allir krakkar eiga að hafa gaman að. Lýsingar í sögunni eru mjög myndrænar og nánast allar bundnar þessari ógn; trébílar eru eins og hræddar kanínur og undir stiganum lúrir ryksugan eins og steinfiskur í sjávarhelli. Allar slíkar lýsingar ýta undir öryggisleysi drengsins og gera umhverfið spennandi og hættulegt. Þessi ótti og tilbreytingarleysið er allsráðandi og er í sterkri andstöðu við þá mynd bókarinnar sem gefur henni barnaleg einkenni og gerir hana að nokkurskonar barnabók sem hún er að vissu leyti, en þó ekki að öllu leyti því ógnin er auðvitað ekkert barnaleg. En hvort þessi ótti er bara til í höfðinu á drengnum eða í umhverfinu skal ósagt látið en á það bent að í raun skiptir það engu máli því hann er samur fyrir drengnum og íkornanum þrátt fyrir það.
Sagan heitir Gangandi íkorni og má ef til vill fullyrða að í nafninu felist tvískipting sögunnar, þar sem orðið gangandi vísar meira til mannlegra eiginleika enda er það sett saman með dýraheiti sem ýtir undir og undirstrikar mannlega eiginleika íkornans. Hann er settur saman úr manni og dýri, nokkurskonar manndýr, hvað svo sem það er og virkar mjög prófessorslegur og auðvitað saklaus í öllum gerðum og hugsunum en veruleikinn umhverfis hann er fullur af ógn.
Sagan skiptist einnig í tvennt með tilliti til frásagnarhátts. Fyrri hluti sögunnar er sagður í 1. persónu en sá síðari í 3. persónu. Þetta er auðvitað tæknilegt atriði en nauðsynlegt til aðgreiningar á heimi þessara tveggja líku en um leið ólíku persóna.
Sagan hefst og endar á sama orðinu, Draumsólir. Orðið er sterkt og hlaðið merkingu og er undirstaðan í draumi sögunnar eða veruleika. Sagan endar kannski með þeim hætti að draumsólir veki hann í annað sinn eða bara svæfa hann, þær loka frásögninni og eru nauðsynlegur hlekkur á milli þessara tveggja heima í lífi drengsins. Án þeirra verður ekkert ævintýri til og líf drengsins litlaust og án spennu – en þannig á líf ekki að vera.



miðvikudagur, 17. október 2012

laugardagur, 15. september 2012

Nancy boy

"Manstu eftir vorferðalaginu þegar við fórum í Þórsmörk?"

Ég spurði.

Hann leit við, nokkuð ringlaður að sjá.

Svaraði.

"Nei, en ég man eftir ÍSAL-ferðinni sem við fórum í og drukkum mikið og átum fullt af Íbúfeni. Við fengum hvorugur hausverk í sex vikur eftir þá nótt. Manstu það?"

Ég sagði: "Alltof langt síðan maður hefur farið í Þórsmörk. Að mínu mati fallegasti staður á Íslandi."


miðvikudagur, 22. ágúst 2012

Paul Newman - ljóð

tók paul newman

át paul newman

h
i
t
t
i

sextán manneskjur

s
 e
  m

borða aldrei mat fyrir hádegi (þeim verður óglatt af mat fyrir hádegi)

e
n

k
j
ósa

miklu fremur kaffibolla og sígarettu á þessum tíma (marga bolla, margar sígarettur)

MÉR

l
 í
s
 t

vel á þannig fólk og vill umgangast það (vonandi les það þetta)

elskaði

alltaf og mun alltaf

elska

pa
ul

newman


mánudagur, 6. ágúst 2012

Núna


einu sinni var

ég

rauðhærður

með krullur og freknur

kjaftfor með afbrigðum

en

tíminn tínir af manni

sérkennin

smátt og smátt

og allt breytist

núna

Hugsað


Eftir setu á svölunum með Rask í eyrunum og Jarðnæði í höndunum sér hann mynd af sjálfum sér og segir: "Þú ert nú ágætur líka stundum."

miðvikudagur, 18. júlí 2012

fimmtudagur, 21. júní 2012

Óskar Hrafn & Páll Óskar - leikrit


Óskar Hrafn situr í biðstofu Magnúsar tannlæknis og les Séð & Heyrt - Fréttatíminn liggur við hliðina og gamalt eintak af Heimsmynd sem Herdís Þorgeirsdóttir ritstýrði. Inn á biðstofuna kemur Páll Óskar og augu þeirra Óskars Hrafns mætast, en ekki er vitað hvort það sé í fyrsta sinn.

Báðir líta svo undan og Óskar Hrafn heldur áfram að rýna í Séð & Heyrt, en Páll Óskar spyr konuna í afgreiðslunni hvort hann geti komist á klósett. Konan segir honum að því miður sé það bilað en hægt sé að athuga með fyrirtækið á hæðinni fyrir neðan.

Páll Óskar segir að þetta sé allt í lagi - hann ætlaði bara aðeins að laga hárið því það er svo mikill vindur úti.

Óskar Hrafn lítur upp úr tímaritinu og beinir spurningu til Páls Óskars: Alltaf að hugsa um útlitið?

Páll Óskar fær sér sæti beint á móti Óskari Hrafni og segir eftir skamma stund: Einhver verður að gera það.

Óskar Hrafn brosir ísmeygilega en heldur svo áfram að glugga í Séð & Heyrt.

Páll Óskar stendur upp og snýr sér í hring og sest síðan niður. Spyr svo: Er ég í blaðinu?

Óskar Hrafn virðist hafa búist við spurningunni og svarar: Já, það er eitt heyrt - að þú hafir gengið yfir götu í Reykjavík með fjólubláan barnavagn og verið í gömlum strigaskóm.

Páll Óskar virðist frekar móðgaður þegar hann heyrir þetta og segir frekar hranalega: Ég var ekki í gömlum strigaskóm. Er ekkert annað um mig í blaðinu?

Magnús tannlæknir stingur inn höfðinu á biðstofunni og segir: Sælir drengir mínir - ég er víst bara með annan á dagskránni í dag. Það er komið að þér Óskar minn. Ertu nokkuð búinn að gleyma þér í sætindunum undanfarin misseri?

Páll Óskar er fljótur til svars: Hann er lítið í sætindunum þessi - bara neikvæðri gagnrýni, sem ég skal þó viðurkenna að kom mér bara vel - ég sá sjálfan mig með augum annars, eða annarra. En ég viðurkenni að það er samt eitthvað spennandi og dularfullt við hann Óskar Hrafn. En ég kemst líklega aldrei að því hvað það er.

Magnús tannlæknir labbar inná stofu sína og gefur Óskari Hrafni merki með hægri hendi að fylgja sér.

Óskar Hrafn horfir fyrst til Magnúsar en síðan til Páls Óskars og segir: Þetta er góður dagur fyrir tannviðgerðir.

Páll Óskar: Já, morgundagurinn verður það líka.


miðvikudagur, 16. maí 2012

sunnudagur, 15. apríl 2012

HEILABLÓÐFALLIÐ LÆKNAÐI MIG AF FÍKNINNI!






Níu líf gítargoðsagnarinnar Þorsteins Stanya Magnússonar

Þorsteinn er einn besti gítarleikari Íslands fyrr og síðar og hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur háð harða baráttu við áfengi og önnur fíkniefni áratugum saman en segir að heilablóðfall sem hann fékk fyrir tveimur árum hafi læknað sig af fíkninni. Saga Þorsteins er saga áfalla og upprisu.

Hæfileikar! „Ég er heppinn að vera á lífi, það er deginum ljósara og ég er þakklátur fyrir það,“ segir Þorsteinn, oft kenndur við hljómsveitirnar goðsagnakenndu Eik og Þey, en hann hefur spilað með öllu besta tónlistarfólki landsins og væri of langt mál að telja upp öll hans afrek á því sviði. Hans persónulega líf hefur hins vegar verið markað af mikilli fíkn og veikindum, sem og upprisu.

„Það hefur gengið á ýmsu. Ég gekk í gegnum talsverð veikindi fyrir tveimur árum; fékk heilablóðfall og var með kransæðastíflu. En það komu góðir hlutir út úr því, þótt ótrúlegt megi virðast. Heilablóðfallið losaði mig við ákveðin óþægindi – kvíða, ótta og stress, þetta skolaðist í burtu með heilablóðfallinu. Það er mjög sérstakt því ég bjóst nú við að drepast vegna þessa, eins og margir, eða verða lamaður. Reyndar missti ég vitið í tvo eða þrjá mánuði, en svo kom það aftur og ég kom betri maður en áður til baka. Heilablóðfallið varð í vinstra heilahveli, en það hefði verið verra fyrir mig að fá högg á hægra heilahvelið, því það hefur með tónlistina að gera; sem betur fer slapp ég við það. Þetta gerðist haustið 2007 og ég fór í hjartaþræðingu og ýmislegt fleira.“

Dauði og fíkn

Og þetta sem Þorsteinn kallar ýmislegt varð þess valdandi að hans erfiðasta glíma, glíman við áfengi og önnur fíkniefni, gekk mun betur – hann bar sigur úr býtum.

„Síðan ég fékk heilablóðfallið hef ég haldið mér frá áfengi og fíkniefnum; sú glíma hefur gengið miklu betur eftir heilablóðfallið. Ég talaði við heilasérfræðinginn og hann sagði bara við mig: „Þorsteinn, fíknistöðin hefur verið slegin úr þér.“ Ég svaraði bara: „þakka þér fyrir,“ segir Þorsteinn og hlær dátt.

Eins og það sé ekki nóg að fá heilablóðfall, vera með kransæðastíflu og fara í hjartaþræðingu, þá hefur Þorsteinn komist oftar í hann krappan. „Ég er nú búinn að drepast tvisvar, fyrst 2002, fékk þá hjartastopp, en hafði það af. Svo var það öndunarstopp um fimm árum áður, en þá voru komnir sjúkrabílar og strákarnir á bílnum sem kom störtuðu mér bara í gang.“

Edrú um stund

Þótt Þorsteinn hafi óumdeilanlega verið einn besti, ef ekki besti, gítarleikari landsins, veigraði fólk sér við að ráða hann í verkefni. „Það var bara vaninn hjá mér, eftir mikla neyslu var það meðferð, svo var ég edrú í smátíma, byrjaði aftur í neyslu og fór að detta út úr verkefnum, aftur og aftur og aftur. Menn voru orðnir vanir þessu hjá mér, en eru þó farnir að sjá nú að þetta gengur miklu betur hjá mér í dag og eru ekki eins hræddir að fá mig í verk. Fólk skynjar breytinguna á mér og sér hana.“

Og Þorsteinn er þakklátur, segir miklar breytingar hafa orðið á lífi sínu, breytingar til batnaðar. „Það er svo margt að gerast hjá mér, ég vinn líka að ljóðagerð og teiknimyndum með fram tónlistinni og hef mikinn áhuga á ljósmyndun og öll mín sköpun er að verða betri.“

Gítarinn of sterkur

Eftir allt sem á hefur gengið horfir Þorsteinn bjartsýnn til framtíðar, enda líka margt ógert. „Já, það er málið. Mín bíður gítarveisla með Birni Thoroddsen og Blúshátíð á Akranesi, þetta verður fyrstu helgina í nóvember. Svo var Birgir Baldursson að tala um að stofna hljómsveit með mér og Jakobi bróður. Það er heilmikið í gangi hjá mér: Ég er að fara að endurútgefa eina af gömlu plötunum mínum og er langt kominn með að vinna nýja.“

Og hvernig skyldi sú tónlist vera? „Hún er djössuð og fönkuð, ég hef alltaf verið fönkari, alveg síðan á hippaárunum.“

Þorsteinn segir samskiptasíðuna Facebook hafa hjálpað sér mikið. „Meira en nokkurn grunar; þar er svo margt tónlistarfólk sem komið er í samband við mig með samstarf og vinnu í huga. Til dæmis erum ég og Pálmi Gunnarsson komnir í samband, einnig ég og Kjartan Valdimarsson og svo erum við Haraldur Þorsteinsson, úr Eik, að vinna að verkefni.“

Þorsteinn er því með réttu kallaður goðsögn í lifanda lífi, gítargoðsögn. „Bubbi sagði á afmælistónleikunum sínum að ég væri lifandi goðsögn og það er að miklu leyti rétt hjá honum, Árni Matt sagði að ég væri á heimsmælikvarða eftir þá tónleika.

Foreldrar mínir ætluðu mér að verða prestur en það varð nú aldeilis ekki. Ég varð bara ástfanginn af gítarnum; maður getur ekkert að þessu gert - ég hef reynt að vinna venjulega vinnu en það gekk aldrei - gítarinn var of sterkur.“


TÓNLISTARGÚRÚINN ÁRNI MATT UM ÞORSTEIN:

„Ég hef þekkt Steina síðan um það leyti sem Eikin varð til og við kíktum stundum í glas eða eitthvað annað, oft fullmikið skrall reyndar. Síðan hefur sambandi verið slitrótt.

Sem gítarleikari standa fáir Steina á sporði í frumleika og tónhugsun þó að eflaust séu einhverjir til sem spili skalana hraðar en hann. Mér er það til að mynda minnisstætt þegar Bubbi Morthens hélt afmælistónleika sína í Laugardalshöllinni 2006. Þar var mikið í gangi og margir fremstu tónlistarmenn þjóðarinnar fóru á kostum, afbragðsspilamenn og sjóaðir. Einn bar þó af, einn var á heimsmælikvarða, eins og heyrðist á fyrstu tónunum úr hljóðfæri hans - Þorsteinn Magnússon, Steini Stanya, í Eik.

Sem ég stóð og horfði á hann spila rifjaðist upp fyrir mér sagan af því er Fats Waller var að spila á búllu og Art Tatum gekk í salinn. Þá stóð Waller upp til að víkja fyrir Tatum og sagði: „Ég er píanóleikari, en guð er á staðnum.““


LJÓÐ EFTIR ÞORSTEIN:


Þorsteinn er hæfileikaríkur listamaður og ljóð hans má finna á vefsíðunni ljod.is.

Leit

Með lokuð augu ég löngum stari
og leita að hinu eina svari.
Úr luktum munni spurninga spyr.

Með lokuð eyru ég ligg og hlera,
langar að vita hvað ber að gera
við lífið handanvið dauðans dyr.

Er þetta kannski alltsaman blekking?
Ekkert í lífinu nýtanleg þekking?
Á engu gerandi endanleg skil?

Með lokuðum huga ég læsi mig inni
í lífinu sjálfu, skelinni minni
sem hvort eð er hvergi er til ...


TEXTI: SVANUR MÁR SNORRASON
MYNDIR: HEIÐA HELGADÓTTIR

Séð & Heyrt, október 2009

föstudagur, 6. apríl 2012

fimmtudagur, 29. mars 2012

"Ég forðast sviðsljósið og er því frekar óeðlilegur stjórnmálamaður."


Viðtal við Guðmund Rúnar Árnason, bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Birtist í DV 23. mars 2012

Guðmundur Rúnar Árnason tók við starfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar, en það hafði hann alls ekki ætlað sér. Þessi jarðbundni og þolinmóði stjórnmálafræðidoktor ræðir hér meðal annars um skoðun sína á mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið, skuldastöðu Hafnarfjarðar, aðdáun sína á Frank Zappa og það hversu gott sé að vera laus við áfengið.

"Ég er Hafnfirðingur í öllum aðalatriðum. Ég bjó fyrst við götu sem er ennþá til en nafnið ekki; gatan hét Hraunbrekka – heitir nú Hellisgata. Lengstum í æsku bjó ég hins vegar á Arnarhrauni og ég á afar ánægjulegar bernskuminningar þaðan. Ég er í raun ofstækisfullur Hafnfirðingur – það hefur aldrei komið neitt annað til greina hjá mér en að búa í Hafnarfirði: Annað er ekki inni í myndinni – ræturnar eru þarna," segir Guðmundur Rúnar sem stundaði nám í Lækjarskóla, Flensborg og síðan við Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist sem stjórnmálafræðingur.

"Síðan lá leið mín til London þar sem ég dvaldi í sex ár og tók doktorspróf í stjórnmálafræði við London School of Economics, árið 1991. Að því loknu flutti ég síðan heim í Hafnarfjörð, alkominn."

Hefurðu alltaf verið áhugasamur um stjórnmál og stjórnmálafræði?

"Ég fékk snemma áhuga á stjórnmálum, en áhuginn á stjórnmálafræði kom til þegar ég var í Flensborg. En mig dreymdi lengi um að verða garðyrkjumaður."

Af hverju léstu ekki þann draum rætast?

"Ég sótti á sínum tíma um að vera utanskóla, þegar ég var í háskólanum hér heima, en fékk það ekki, og þá einhvernveginn gufaði sá draumur upp."

Ertu með græna fingur?

"Já, já, ég er duglegur í garðinum heima og finnst fátt skemmtilegra en að stunda garðyrkju."

Guðmundur Rúnar segist fljótt hafa fundið sig á vinstri vængnum í stjórnmálunum.

"Það gerðist nú bara einhvernveginn sjálfkrafa, og kemur ekki til af því að ég hafi verið alinn upp þannig. Heima hjá mér var nánast aldrei rætt um stjórnmál, en ég hneigðist strax til vinstri um leið og ég fékk stjórnmálaáhuga. Ég veit ekki til þess að það hafi verið út af því að einhver hafi haft þau áhrif á mig – það samræmdist einfaldlega því hvernig ég hugsaði."

Varstu virkur í stjórnmálum á þínum yngri árum?

"Við vorum nokkrir félagar sem stofnuðum stjórnmálafélag í Flensborg sem hét Röðull, vorum til vinstri. Síðan var ég virkur í Alþýðubandalaginu í Hafnarfirði um það leyti sem ég var að útskrifast úr Flensborg – og þar fann ég minn farveg í stjórnmálunum."

Sástu það fyrir þér, eftir námið í London, að þú myndir verða stjórnmálamaður?

"Nei. Ég ætlaði að vera fræðimaður, en var aldrei neitt sérstaklega spenntur fyrir því að vera kennari; prófaði það í tvö ár: Kenndi bæði við Háskóla Íslands og Tækniskólann – en kennslan höfðaði ekki til mín."

Stefndi aldrei á bæjarstjórastólinn

Guðmundur Rúnar hóf síðan fyrir alvöru að skipta sér af hafnfirskum stjórnmálum árið 1998.

"Ég tók þátt í stofnun Fjarðarlistans fyrir bæjarstjórnarkosningarnar árið 1998, en þá var reynt að koma hér á sameiginlegu framboði vinstri manna, sem rann út í sandinn á síðustu stundu. Þá stofnuðum við Fjarðarlistann – úr Alþýðubandalaginu, hluta af Alþýðuflokknum og Kvennalistanum. Sá framboðslisti var svolítill forveri Samfylkingarinnar. Ég sat í þriðja sæti og varð varabæjarfulltrúi það kjörtímabilið því við fengum tvo fulltrúa kjörna. Síðan verð ég bæjarfulltrúi árið 2002, en þá fyrir hönd Samfylkingarinnar, en Fjarðarlistinn rann inn í hana ásamt Alþýðuflokknum og við náðum þá meirihluta. Ég hef því verið bæjarfulltrúi í níu ár og búinn að prófa flest; verið formaður í bæjarráði – forseti bæjarstjórnar – formaður í fjölskylduráði í átta ár, verið í menningarmálum og fræðslunefnd. Og nú er ég hér sem bæjarstjóri, en það stóð aldrei til."

Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var Guðmundur Rúnar í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar en bæjarstjórinn sem þá var, Lúðvík Geirsson, lagði sæti sitt að veði með því að vera í sjötta sæti, en sex bæjarfulltrúa þarf til að mynda hreinan meirihluta. Lúðvík náði ekki kjöri og Guðmundur Rúnar tók því við af Lúðvík sem bæjarstjóri, án þess að hafa nokkurn tímann ætlað sér það.

"Ég var í fyrsta sæti, en í mínum huga og okkar, var Lúðvík oddviti listans – þetta var sama módel og þegar Ingibjörg Sólrún setti sig í baráttusæti á sínum tíma – lagði allt undir eins og Lúðvík."

Lásuð þið ekki vitlaust í andrúmsloftið í samfélaginu fyrir kosningarnar, teflduð þið ekki alltof djarft með þessu?

"Miðað við það sem við ætluðum okkur, jú."

Þið voruð með sjö bæjarfulltrúa af ellefu, verulega sterkan meirihluta. Voruð þið í Samfylkingunni ekki bara orðin alltof góð með ykkur?

"Við svo sem gerðum okkur grein fyrir því að sjö bæjarfulltrúar væru eitthvað sem við gætum ekki búist við að ná aftur, bara miðað við söguna – gerðum okkur kannski ekki miklar vonir að ná slíkum árangri tvennar kosningar í röð. Og við vissum að það að ná inn sex bæjarfulltrúum yrði snúið, og það hafðist ekki."

Brá ykkur við þá niðurstöðu?

"Auðvitað var það áfall fyrir okkur að tapa tveimur bæjarfulltrúum, en við vorum eftir sem áður stærsti stjórnmálaflokkurinn í bænum, og vorum áfram kjölfestan í bæjarstjórninni og mynduðum meirihluta með bæjarfulltrúa VG."

En eftir á að hyggja, voru þetta mistök að tefla fram Lúðvík, starfandi bæjarstjóra síðustu níu ára, í sjötta sætið?

"Ætli það sé ekki best að svara því þannig að ef við hefðum vitað fyrirfram hvernig kosningarnar færu hefðum við trúlega ekki gert þetta svona."

Þótt Guðmundur Rúnar hafi ekki stefnt á bæjarstjórastólinn segist hann ekki hafa hikað við að taka starfið að sér þegar þessi staða kom upp.

"Auðvitað hafði ég undir niðri gert mér grein fyrir því að þetta gæti gerst. En samt sem áður leit ég alltaf á það sem fjarlægan möguleika að ég yrði bæjarstjóri og það kitlaði mig aldrei – hefur aldrei verið mitt markmið. En örlögin höguðu því þannig og ég ber mig ekkert illa undan því."

En hvernig hefur þér verið tekið sem bæjarstjóra og hvernig hefur þér líkað starfið?

"Mér hefur verið tekið mjög vel af öllu starfsfólki hjá bænum, og bæjarbúum – þeim sem ég hef verið í samskiptum við. Hins vegar hefur þetta stundum verið þungt; verkefni erfið og aðstæður erfiðar í kjölfar hrunsins."

Þú tekur ekki beint við í neinni blómatíð?

"Nei, mikil ósköp. Það eru erfiðir tímar og það setur svip sinn á starfið og rekstur bæjarins: Skuldastaðan jókst við hrunið – erlendar skuldir stökkbreyttust og við erum ennþá að vinna úr því. Síðan eru margvíslegir erfiðleikar hjá fjölmörgum fjölskyldum sem leita hingað eftir liðsinni, og misjafnt hvernig hægt er að verða við því. Það er örugglega mikið skemmtilegra að taka við í blómatíð – en ég er ekkert viss um að minn karakter hefði endilega fallið jafnvel að því."

Þú ert ekki karakter sem hefur sig í frammi – þú ert ekki mikið fyrir sviðsljósið?

"Nei, alls ekki. Ég forðast sviðsljósið og er því líklega frekar óeðlilegur stjórnmálamaður."

Hvernig karakter ertu?

"Ég bý við mikið jafnaðargeð, og konan mín segir að minn helsti kostur, og um leið helsti ókostur, sé þolinmæðin. Ég held að það sé kostur við þær aðstæður sem nú ríkja."

Erlendu lánin bænum erfið

Nú hefur erfið skulda- og fjárhagsstaða Hafnarfjarðar verið talsvert til umræðu að undanförnu. Hvað veldur helst þessari stöðu?

"Skuldastaðan er tengd breytingum á erlendum lánum – við hrun krónunnar þá stökkbreyttust þau og jukust um einhverja átta, níu milljarða á nánast einni nóttu. Síðan kemur verðbólguskot, og þá hækka innlendu skuldirnar líka: Um leið dragast tekjur bæjarins saman. Þá vorum við búin að fjárfesta í lóðum úti á Völlum – bæði íbúðalóðum og atvinnulóðum – og greiða fyrir þær – það var búið að úthluta þeim – og búið að fá greitt fyrir talsverðan hluta af lóðunum. Þá peninga urðum við bara að endurgreiða úr kassanum, á fjórða milljarð króna. Þetta er búin að vera röð áfalla – mörg þung högg á stuttum tíma. Í kjölfar þessara áfalla höfum við náð góðum árangri í rekstrinum og sú vinna byrjaði strax eftir hrun. Við hins vegar lögðum það alltaf til grundvallar að verja störfin og þjónustuna. Í fjárhagsáætlunini á þessu ári var í raun búið að klippa það allt saman; það var ekki gengið lengra nema að fækka fólki og draga saman í þjónustu, og við þurftum að gera það og höfum gert það. Það er ömurlegt að þurfa að segja upp fólki, en þessar aðgerðir hafa skilað sér í rekstrinum."

Er búið að skera inn að beini í rekstri bæjarins?

"Ef við skerum meira niður fer það að bitna með sjáanlegum hætti á þjónustu við bæjarbúa, þannig að fólk finni virkilega fyrir því."

Íslensk stjórnmál einkennast um margt af hörðum deilum og gjarnan eru stór orð látin falla, ekki bara í hita leiksins, heldur virðist það einfaldlega vera mjög algengt, jafnvel regla miklu fremur en undantekning. Til dæmis segja Sjálfstæðismenn hér í bæ einfaldlega að þetta sé allt ykkur í Samfylkingunni að kenna, að þið rekið bæjarapparatið ekki nógu vel, eða bara hreinlega illa.

"Það er alveg rétt, eins og þú segir, að það er auðvitað svolítið einkenni á stjórnmálaumræðu á Íslandi í dag að hún er mjög óvægin og hún er oft mjög rætin og ekki alltaf mjög heiðarleg. Menn hafa ekki verið almennt tilbúnir til að horfast í augu við lærdómana sem má draga af hruninu og hægt er að lesa um í rannsóknarskýrslunni – það eru margir ennþá í bullandi afneitun; eru í ábendingarleiknum alveg á fullu. Margt hefur einfaldlega versnað í umræðunni eftir hrun – neikvæð umræða hefur aukist og neikvæðar hliðar íslenskrar stjórnmálaumræðu orðið sýnilegri. Það er í senn hræðilegt og slítandi að taka þátt í þessu – mjög slítandi."

Hið háa alþingi virðist nú stundum vera eins og stjórnlaus leikskóli.

"Það er enginn leikskóli sem er á þessu plani."

Hvernig finnst þér Samfylkingin, þinn flokkur, hafa staðið sig í landstjórninni? – flokkurinn var nú við völd fyrir hrun og er enn við völd eftir hrun.

"Mér finnst flokkurinn hafa staðið sig ótrúlega vel við skelfilegar aðstæður. Þetta var auðvitað ekkert venjulegt sem menn tóku við eftir hrun – þetta var einfaldlega þrotabú. Og þó að mörgum finnist það ganga hægt og illa þá eru hlutirnir samt sem áður, á þrjóskunni og harðfylgninni, á leið í rétta átt. Ég dáist nú að Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir ótrúlega þrautseigju, þótt sumir láti stílinn hennar fara í taugarnar á sér. Það sama má segja um Steingrím J. Sigfússon – sem býr nú við afar erfitt heimilisástand í sínum flokki. Ég segi hiklaust að það er ekki hægt annað en að dást að þessu fólki fyrir þolinmæði og eljusemi. Og ekki kemur maður auga á neina raunverulega valkosti."

En nú var Samfylkingin við völd ásamt Sjálfstæðisflokknum frá árinu 2007 til 2009 og hlýtur að eiga sinn þátt í öllu þessu hruni?

"Ég er þeirrar skoðunar að þá hafi verið gerð ýmis mistök. Ég er á því að þá hafi Samfylkingin verið alltof viljug til að dansa eftir línu Sjálfstæðisflokksins – og það er hluti af skýringunni hvernig fór. Árið 2007 var erfitt að sjá fyrir sér annað stjórnarmynstur þótt þessir flokkar hafi á ýmsan hátt verið svarnir óvinir. Stóru mistök þeirrar stjórnar fólust ekki í því sem hún gerði heldur miklu frekar í því sem hún gerði ekki; það var stöðugt verið að benda á hættumerki – verkalýðshreyfingin benti stöðugt á þessi hættumerki, en stjórnin brást ekki við – steig ekki á bremsurnar."

Evran og ættleiðingar

Þá að umræðunni um Evrópusambandið – einni heitustu umræðu stjórnmálasögunnar hér á landi. Vilt þú ganga í Evrópusambandið?

"Ég er nú búinn að vera þeirrar skoðunar alveg frá því í kringum 1990 að Íslandi, íslenskum almenningi, og íslensku launafólki, væri betur borgið ef Ísland væri í Evrópusambandinu. Og ég hef ekkert skipt um skoðun, fjarri því. En ég er ekki tilbúinn að skrifa upp á hvað sem er – áskil mér rétt til að skipta um skoðun ef samningurinn verður vondur. En ég tel gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að komast í gjaldmiðilssamstarf – fá evruna. Þótt evran rekist nú í ólgusjó held ég að það muni lagast. Upptaka evrunnar mun með tíð og tíma gefa íslenskum almenningi og fyrirtækjum aðgang að ódýrara lánsfé og losa Íslendinga við verðtrygginguna. Sjálf verðtryggingin er ekki vond, hún er bara eðlileg afleiðing af óstöðugum gjaldmiðli, og að mörgu leyti skjól skuldarans, segi ég, því það myndi ekkert heimili eða fyrirtæki standa af sér verðbólguholskeflu með óverðtryggðar skuldbindingar og breytilega vexti – það stæði enginn undir því. Innganga í Evrópusambandið yrði að mínu mati mjög góð fyrir neytendur, og þá held ég að það væri mjög gott fyrir íslensk stjórnmál; það er mikið agaleysi í íslenskum stjórnmálum og í íslensku þjóðfélagi sem ég held að myndi ekki líðast í samstarfi eins og Evrópusamstarfinu. Næsta skref er einfaldlega að fá samning í hendurnar og bera hann undir þjóðina – ekkert vit í öðru. Það er ábyrgðarlaust að halda því fram að það sé einhver valkostur að draga umsóknina til baka – það þarf að ljúka málinu með þjóðaratkvæðagreiðslu."

En þá frá stjórnmálamanninum Guðmundi Rúnari í átt að fjölskyldumanninum, tónlistarpælaranum og Facebook-aðdáandanum Guðmundi Rúnari. Hann er kvæntur Ingibjörgu Jónsdóttur, félagsfræðingi, og eiga þau saman einn son, Jón Steinar, og tvær dætur, Ágústu Mithilu og Þórdísi Timilu, sem þau ættleiddu frá Indlandi, en fyrir átti Guðmundur Rúnar son úr fyrra hjónabandi – Ólaf Kolbein. Guðmundur Rúnar segir það töluvert ólíkt að eignast börn með hefðbundnum hætti og því að ættleiða.

"Dæturnar voru fjögurra og sex mánaða þegar þær komu hingað, en það liðu tvö ár á milli komu þeirra. Eftir fyrri ferðina til Indlands sóttum við strax um aftur – það kom ekkert annað til greina. Ættleiðingarferlið er langt og strangt, en það er mjög útbreiddur misskilningur að það sé allt á færi Íslendinga einna. Það er ekki eingöngu vegna aðgerða á Íslandi sem ættleiðing er svona tímafrekt ferli heldur ekki síður vegna aðgerða og ákvarðana í upprunalöndunum, og líka vegna þess að aðstæður víða, til dæmis í Kína og á Indlandi, hafa breyst; efnahagsástand í þessum löndum hefur lagast mikið. Og þar sem ég þekki til á Indlandi, veit ég að þar eru reglur um það að fyrst á að leita eftir ættleiðingu innanlands, og eftirspurnin þar hefur stóraukist. Hérna heima eru gerðar talsverðar kröfur til fólks sem vill ættleiða, og ég held að það sé bara gott. Þetta á að vera erfitt. Þetta snýst um rétt barnsins – ekki rétt fólks til að verða foreldrar. Og það skiptir máli að það sé vel að málum staðið, sem ég tel að sé að mörgu leyti á Íslandi."

Er allt öðruvísi upplifun að eignast börn með hefðbundnum hætti, ef svo mætti segja, heldur en að sækja þau út – ættleiða?

"Já, hún er að mörgu leyti öðruvísi. En manni þykir auðvitað alveg jafn vænt um börnin sín – hvort sem þau eru ættleidd eða ekki. Það er hins vegar dálítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvað af muninum kemur til út af því að maður er bara eldri og hugsanlega þroskaðri. Ég held að það skipti svolitlu máli. Hitt einhvernveginn gerðist bara – hin börnin mín urðu til án mikillar umhugsunar, svo sannarlega velkomin, en það var ekki þannig að það væri tekin ákvörðun um að eignast barn. Ættleiðing aftur á móti er röð af meðvituðum ákvörðunum – þú ákveður að eignast barn og setur í gang þá vinnu – þannig að þú ert einhvernveginn mun meðvitaðri um það sem er að gerast og það hlaðast upp miklar tilfinningar og spenna í kringum það. En það er ekkert nema jákvætt í því – kærleikurinn er sá sami - það er að segja þegar það gengur, en ég get líka ímyndað mér að það sé mjög erfitt – mikil vonbrigði hjá fólki – þegar það tekst ekki."

Þakklátur SÁÁ

Guðmundur Rúnar hætti að drekka fyrir hartnær einum og hálfum áratug síðan og segir lífið án áfengis mun betra en lífið með því. En var það erfið ákvörðun að hætta að drekka og fara í meðferð?

"Ég hætti að drekka árið 1997 og það var ekki erfið ákvörðun eftir að ég áttaði mig á vandanum. Fyrir alkóhólista er miklu erfiðara að drekka en drekka ekki. Og lífið er miklu betra án áfengis fyrir mig og fjölskylduna, ég líki því nú ekki saman."

Var áfengið orðið þér fjötur um fót?

"Já, annars hefði ég ekki velt því fyrir mér. Maður fer ekki að velta þessum hlutum fyrir sér, hvað þá að fara í meðferð, nema af því að drykkjan er farin að hafa óþægileg og neikvæð áhrif á lífið og tilveruna. Fyrir mér er lífið allt annað og miklu betra án áfengis."

Ferðu oft á AA fundi?

"Ég hef tekið það í lotum – ég er til dæmis ekki virkur í AA núna – en þetta fer auðvitað dálítið eftir því hvernig maður er stemmdur. En stundum þarf maður á því að halda að fara á fundi."

Ertu sáttur við meðferðarúrræði á Íslandi – til dæmis SÁÁ?

"Já, í það minnsta fékk ég alveg feikilega góða þjónustu þar, og ég veit að ég get alltaf leitað þangað, og það er gríðarlega mikils virði. Ég var nú bara á stórum fundi hjá SÁÁ um daginn þar sem voru allir bæjarstjórar hérna á Stór-Reykjavíkursvæðinu: Ég sagði einmitt á þeim fundi að ég vildi eiginlega ekki hugsa það til enda hvernig íslenskt samfélag væri ef SÁÁ hefði ekki notið við síðustu þrjátíu árin. Frábært og ómetanlegt starf sem þar er og hefur verið unnið."

Frank Zappa, Facebook og Sjón

Og þá að tónlistinni – ég hef heyrt að þú hafir alltaf verið mikill tónlistaraðdáandi og sért sérlegur Frank Zappa aðdáandi.

"Zappa stendur mér nærri og ég uppgötvaði hann einhverntímann upp úr 1970 – í gegnum Þráinn Hauksson landslagsarkitekt og gamlan félaga minn. Ég á örugglega allt sem Zappa gaf út og sitthvað fleira. Svo naut ég þess í London árið 1988 að sjá hann á tónleikum í síðustu ferðinni sem hann fór með hljómsveit – og það var stórkostleg upplifun – konan mín fór með mér og skemmti sér gríðarlega vel."

En hvað er það við Frank Zappa sem heillar þig svo algjörlega?

"Það er í raun mjög auðvelt að útskýra það: Hann höfðar til mín – það er ekkert öðruvísi. Það er einnig svo margt við Zappa sem er spennandi; tónlistin sjálf – textarnir sem eru skemmtilega ögrandi. Það er þjóðfélagsádeilan, fordómaleysið, það er allt látið flakka, það eru engin vígi heilög, það er enginn tvískinnungur og engin skinhelgi og svo var hann einfaldlega stórkostlegur tónlistarmaður; bæði sem tónskáld og hljóðfæraleikari. Hvað viltu eiginlega meira? Hann gerði nánast allar tegundir af tónlist og allt frábærlega: Með því að sökkva sér ofan í Zappa finnur hver tónlistaráhugamaður eitthvað við sitt hæfi – alveg sama á hverju hann hefur áhuga."

Hvað með lestur bóka – ertu lestrarhestur?

"Ég les mikið, les nær eingöngu skáldsögur. Ég nenni ekki að lesa reyfara – þeir höfða ekki til mín. Ég les verk eftir bæði íslenska höfunda og erlenda; hef gríðarlega gaman af þessum gömlu snillingum okkar – og síðan hef ég mjög gaman af Einari Má og Einari Kárasyni, Gyrði Elíassyni, Braga Ólafssyni – Jón Kalmann er algjör snillingur og svo er Bergsveinn Birgisson, hann er algjörlega frábær höfundur. Svo las ég snilldarverk um daginn. Var í útilegu og gleymdi að hafa með mér bók og fór í kaupfélagið á Selfossi - þar var stór bókahilla – en aðeins ein bók sem ég hafði ekki lesið, en hafði áhuga á að lesa – allar aðrar bækur í hillunni voru þess eðlis að annaðhvort langaði mig ekki að lesa þær eða ég var búinn að lesa þær. Nema þessi, Skugga-Baldur eftir Sjón, og er alveg stórkostleg bók. En annars er uppáhalds rithöfundurinn minn frá Ástralíu, heitir Peter Carey – mikill örlagasnillingur. Ég mæli með að þeir sem þekkja ekki til hans kynni sér hann, magnaður rithöfundur."

Hefurðu áhuga á að skrifa sjálfur – ertu að skrifa?

"Ég á það eftir. Mig hefur oft langað til þess, en ekki fundið mér tíma til þess. Ég finn þann tíma síðar."

Að lokum, Guðmundur Rúnar – þú ert bæjarstjóri sem ert virkur á samskiptavefnum Facebook. Af hverju?

"Ég er stundum virkur á þeim vef og það gefur mér ýmislegt; til dæmis mikil samskipti við fólk sem ég hefði annars ekki samskipti við; ég er búinn að finna fullt af gömlum kunningjum, skyldmennum sem eru fjarlæg, gamla skólafélaga og jafnvel fræga tónlistarmenn í útlöndum. Ég er til að mynda í samskiptum á Facebook við Hollendinginn Jan Akkerman sem er mjög háttskrifaður tónlistarmaður og reyndar marga aðra. Þetta er frábært apparat sem býður upp á marga möguleika í samskiptum við annað fólk sem voru ekki til staðar áður."

Texti: Svanur Már Snorrason

þriðjudagur, 27. mars 2012

http://eirikurjonsson.is/fegurdardrottningin-sem-fitnadi/

http://eirikurjonsson.is/fegurdardrottningin-sem-fitnadi/

fimmtudagur, 23. febrúar 2012

stelpan í hamborgarasjoppunni


hversdagsleikinn er eins og seglbátur sem enginn vill kaupa né sökkva

en stelpan í hamborgarasjoppunni er sæt

setur lítið af grænmeti en mikið af sósu á borgarann og brosir þannig að

djúpsteikingarlyktin hverfur á augabragði

ég legg í stæðið og bölva því að eiga ekki tómatsósu í hanskahólfinu

laugardagur, 28. janúar 2012

barbara carrera - a poem


af hverju ertu svona dökkhærð, barbara carrera?

hver gerði þig svona fallega og kynæsandi?

ég skal lofa að hætta að hugsa um þig og gúggla þig

ef þú hittir mig einu sinni

(fyrir utan hugann)

og útskýrir málið fyrir mér

þú ert bond-stelpan mín að eilífu og engin kemst nálægt þér í fegurð og þokka, og illsku

svo málarðu flottar myndir

en áttu nokkuð ennþá heima í Nicaragua?

langar að koma þangað og hitta þig og tala um sean connery

svo ætla ég að kyssa þig