Óskar Hrafn situr í biðstofu Magnúsar tannlæknis og les Séð & Heyrt - Fréttatíminn liggur við hliðina og gamalt eintak af Heimsmynd sem Herdís Þorgeirsdóttir ritstýrði. Inn á biðstofuna kemur Páll Óskar og augu þeirra Óskars Hrafns mætast, en ekki er vitað hvort það sé í fyrsta sinn.
Báðir líta svo undan og Óskar Hrafn heldur áfram að rýna í Séð & Heyrt, en Páll Óskar spyr konuna í afgreiðslunni hvort hann geti komist á klósett. Konan segir honum að því miður sé það bilað en hægt sé að athuga með fyrirtækið á hæðinni fyrir neðan.
Páll Óskar segir að þetta sé allt í lagi - hann ætlaði bara aðeins að laga hárið því það er svo mikill vindur úti.
Óskar Hrafn lítur upp úr tímaritinu og beinir spurningu til Páls Óskars: Alltaf að hugsa um útlitið?
Páll Óskar fær sér sæti beint á móti Óskari Hrafni og segir eftir skamma stund: Einhver verður að gera það.
Óskar Hrafn brosir ísmeygilega en heldur svo áfram að glugga í Séð & Heyrt.
Páll Óskar stendur upp og snýr sér í hring og sest síðan niður. Spyr svo: Er ég í blaðinu?
Óskar Hrafn virðist hafa búist við spurningunni og svarar: Já, það er eitt heyrt - að þú hafir gengið yfir götu í Reykjavík með fjólubláan barnavagn og verið í gömlum strigaskóm.
Páll Óskar virðist frekar móðgaður þegar hann heyrir þetta og segir frekar hranalega: Ég var ekki í gömlum strigaskóm. Er ekkert annað um mig í blaðinu?
Magnús tannlæknir stingur inn höfðinu á biðstofunni og segir: Sælir drengir mínir - ég er víst bara með annan á dagskránni í dag. Það er komið að þér Óskar minn. Ertu nokkuð búinn að gleyma þér í sætindunum undanfarin misseri?
Páll Óskar er fljótur til svars: Hann er lítið í sætindunum þessi - bara neikvæðri gagnrýni, sem ég skal þó viðurkenna að kom mér bara vel - ég sá sjálfan mig með augum annars, eða annarra. En ég viðurkenni að það er samt eitthvað spennandi og dularfullt við hann Óskar Hrafn. En ég kemst líklega aldrei að því hvað það er.
Magnús tannlæknir labbar inná stofu sína og gefur Óskari Hrafni merki með hægri hendi að fylgja sér.
Óskar Hrafn horfir fyrst til Magnúsar en síðan til Páls Óskars og segir: Þetta er góður dagur fyrir tannviðgerðir.
Páll Óskar: Já, morgundagurinn verður það líka.
1 ummæli:
hahaha :)
Skrifa ummæli