þriðjudagur, 30. október 2012

Timothy Dalton er minn James Bond


Timothy Dalton er minn James Bond og ef ég heyri einu sinni enn að Sean Connery sé hinn eini sanni James Bond þá gubba ég upp í mig og kyngi því öllu.

Hinn eini sanni James Bond er ekki til – bara uppáhalds.

Þegar Timothy Dalton tók við hlutverki James Bond af Roger Moore var hann svo ferskur að það brakaði í honum; frumraunin frá árinu 1987, The Living Daylights, er uppáhalds Bond-myndin mín.

En það var ekki bara Dalton að þakka þetta með ferskleikann, heldur var farið að slá hressilega í Roger Moore – hann var úldnari í View To A Kill (skemmtileg mynd) en Sean Connery (í slöppustu Bond-myndinni) í Diamonds Are Forever.

Dalton var andstaða Moore (það liggur beinast við að bera þá saman). Moore túlkaði Bond sem mjúkan glaumgosa með allt á hreinu sem skyrpti út úr sér fimmaurabröndurunum um leið og hann barðist við illfygli sem áttu það sameiginlegt að þrá heimsyfirráð, á meðan Dalton var glerharður og mun líkari þeim karakter sem Ian Fleming skapaði upphaflega í bókunum.

Dalton dró upp nýja mynd af njósnaranum – hans Bond er alvarlegur en ekki leiðinlegur, eins og flest alvarlegt fólk er. Hann barðist við trúverðuga andstæðinga - vopnasala og eiturlyfjabaróna, og var í uppreisn gegn yfirmönnum sínum.

Í hinni Bond-myndinni sem Dalton lék í, Licence To Kill, frá árinu 1989, er Bond í hefndarhug og gefur skít í M og heldur í persónulega hefndaraðgerð þar sem engu er eirt.

Dalton dregur upp mynd af njósnara sem líður ekki vel með öll drápin sem hann hefur framið; hann er öróttur að innan – fallegur að utan – og stútfullur af dimmum hugsunum – þreyttur, en samt til í einn bardaga í viðbót. Ekki hægt að biðja um meira.

Dalton brýndi hnífana og varpaði ljósi raunsæis á hlutverkið, en Moore var rómantískur, sem er glatað.

Þess má geta að Dalton lék áhættuatriðin sjálfur í myndunum tveimur; fór fram á ystu brún, eins og karakterinn upphaflega.

Timothy Dalton er eins raunverulegur sem James Bond og mögulegt er.

Timothy Dalton er minn James Bond.

Grein sem birtist í Fréttatímanum, 25. október 2012, en er hér óstytt.

Engin ummæli: