fimmtudagur, 29. mars 2012

"Ég forðast sviðsljósið og er því frekar óeðlilegur stjórnmálamaður."


Viðtal við Guðmund Rúnar Árnason, bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Birtist í DV 23. mars 2012

Guðmundur Rúnar Árnason tók við starfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar, en það hafði hann alls ekki ætlað sér. Þessi jarðbundni og þolinmóði stjórnmálafræðidoktor ræðir hér meðal annars um skoðun sína á mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið, skuldastöðu Hafnarfjarðar, aðdáun sína á Frank Zappa og það hversu gott sé að vera laus við áfengið.

"Ég er Hafnfirðingur í öllum aðalatriðum. Ég bjó fyrst við götu sem er ennþá til en nafnið ekki; gatan hét Hraunbrekka – heitir nú Hellisgata. Lengstum í æsku bjó ég hins vegar á Arnarhrauni og ég á afar ánægjulegar bernskuminningar þaðan. Ég er í raun ofstækisfullur Hafnfirðingur – það hefur aldrei komið neitt annað til greina hjá mér en að búa í Hafnarfirði: Annað er ekki inni í myndinni – ræturnar eru þarna," segir Guðmundur Rúnar sem stundaði nám í Lækjarskóla, Flensborg og síðan við Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist sem stjórnmálafræðingur.

"Síðan lá leið mín til London þar sem ég dvaldi í sex ár og tók doktorspróf í stjórnmálafræði við London School of Economics, árið 1991. Að því loknu flutti ég síðan heim í Hafnarfjörð, alkominn."

Hefurðu alltaf verið áhugasamur um stjórnmál og stjórnmálafræði?

"Ég fékk snemma áhuga á stjórnmálum, en áhuginn á stjórnmálafræði kom til þegar ég var í Flensborg. En mig dreymdi lengi um að verða garðyrkjumaður."

Af hverju léstu ekki þann draum rætast?

"Ég sótti á sínum tíma um að vera utanskóla, þegar ég var í háskólanum hér heima, en fékk það ekki, og þá einhvernveginn gufaði sá draumur upp."

Ertu með græna fingur?

"Já, já, ég er duglegur í garðinum heima og finnst fátt skemmtilegra en að stunda garðyrkju."

Guðmundur Rúnar segist fljótt hafa fundið sig á vinstri vængnum í stjórnmálunum.

"Það gerðist nú bara einhvernveginn sjálfkrafa, og kemur ekki til af því að ég hafi verið alinn upp þannig. Heima hjá mér var nánast aldrei rætt um stjórnmál, en ég hneigðist strax til vinstri um leið og ég fékk stjórnmálaáhuga. Ég veit ekki til þess að það hafi verið út af því að einhver hafi haft þau áhrif á mig – það samræmdist einfaldlega því hvernig ég hugsaði."

Varstu virkur í stjórnmálum á þínum yngri árum?

"Við vorum nokkrir félagar sem stofnuðum stjórnmálafélag í Flensborg sem hét Röðull, vorum til vinstri. Síðan var ég virkur í Alþýðubandalaginu í Hafnarfirði um það leyti sem ég var að útskrifast úr Flensborg – og þar fann ég minn farveg í stjórnmálunum."

Sástu það fyrir þér, eftir námið í London, að þú myndir verða stjórnmálamaður?

"Nei. Ég ætlaði að vera fræðimaður, en var aldrei neitt sérstaklega spenntur fyrir því að vera kennari; prófaði það í tvö ár: Kenndi bæði við Háskóla Íslands og Tækniskólann – en kennslan höfðaði ekki til mín."

Stefndi aldrei á bæjarstjórastólinn

Guðmundur Rúnar hóf síðan fyrir alvöru að skipta sér af hafnfirskum stjórnmálum árið 1998.

"Ég tók þátt í stofnun Fjarðarlistans fyrir bæjarstjórnarkosningarnar árið 1998, en þá var reynt að koma hér á sameiginlegu framboði vinstri manna, sem rann út í sandinn á síðustu stundu. Þá stofnuðum við Fjarðarlistann – úr Alþýðubandalaginu, hluta af Alþýðuflokknum og Kvennalistanum. Sá framboðslisti var svolítill forveri Samfylkingarinnar. Ég sat í þriðja sæti og varð varabæjarfulltrúi það kjörtímabilið því við fengum tvo fulltrúa kjörna. Síðan verð ég bæjarfulltrúi árið 2002, en þá fyrir hönd Samfylkingarinnar, en Fjarðarlistinn rann inn í hana ásamt Alþýðuflokknum og við náðum þá meirihluta. Ég hef því verið bæjarfulltrúi í níu ár og búinn að prófa flest; verið formaður í bæjarráði – forseti bæjarstjórnar – formaður í fjölskylduráði í átta ár, verið í menningarmálum og fræðslunefnd. Og nú er ég hér sem bæjarstjóri, en það stóð aldrei til."

Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var Guðmundur Rúnar í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar en bæjarstjórinn sem þá var, Lúðvík Geirsson, lagði sæti sitt að veði með því að vera í sjötta sæti, en sex bæjarfulltrúa þarf til að mynda hreinan meirihluta. Lúðvík náði ekki kjöri og Guðmundur Rúnar tók því við af Lúðvík sem bæjarstjóri, án þess að hafa nokkurn tímann ætlað sér það.

"Ég var í fyrsta sæti, en í mínum huga og okkar, var Lúðvík oddviti listans – þetta var sama módel og þegar Ingibjörg Sólrún setti sig í baráttusæti á sínum tíma – lagði allt undir eins og Lúðvík."

Lásuð þið ekki vitlaust í andrúmsloftið í samfélaginu fyrir kosningarnar, teflduð þið ekki alltof djarft með þessu?

"Miðað við það sem við ætluðum okkur, jú."

Þið voruð með sjö bæjarfulltrúa af ellefu, verulega sterkan meirihluta. Voruð þið í Samfylkingunni ekki bara orðin alltof góð með ykkur?

"Við svo sem gerðum okkur grein fyrir því að sjö bæjarfulltrúar væru eitthvað sem við gætum ekki búist við að ná aftur, bara miðað við söguna – gerðum okkur kannski ekki miklar vonir að ná slíkum árangri tvennar kosningar í röð. Og við vissum að það að ná inn sex bæjarfulltrúum yrði snúið, og það hafðist ekki."

Brá ykkur við þá niðurstöðu?

"Auðvitað var það áfall fyrir okkur að tapa tveimur bæjarfulltrúum, en við vorum eftir sem áður stærsti stjórnmálaflokkurinn í bænum, og vorum áfram kjölfestan í bæjarstjórninni og mynduðum meirihluta með bæjarfulltrúa VG."

En eftir á að hyggja, voru þetta mistök að tefla fram Lúðvík, starfandi bæjarstjóra síðustu níu ára, í sjötta sætið?

"Ætli það sé ekki best að svara því þannig að ef við hefðum vitað fyrirfram hvernig kosningarnar færu hefðum við trúlega ekki gert þetta svona."

Þótt Guðmundur Rúnar hafi ekki stefnt á bæjarstjórastólinn segist hann ekki hafa hikað við að taka starfið að sér þegar þessi staða kom upp.

"Auðvitað hafði ég undir niðri gert mér grein fyrir því að þetta gæti gerst. En samt sem áður leit ég alltaf á það sem fjarlægan möguleika að ég yrði bæjarstjóri og það kitlaði mig aldrei – hefur aldrei verið mitt markmið. En örlögin höguðu því þannig og ég ber mig ekkert illa undan því."

En hvernig hefur þér verið tekið sem bæjarstjóra og hvernig hefur þér líkað starfið?

"Mér hefur verið tekið mjög vel af öllu starfsfólki hjá bænum, og bæjarbúum – þeim sem ég hef verið í samskiptum við. Hins vegar hefur þetta stundum verið þungt; verkefni erfið og aðstæður erfiðar í kjölfar hrunsins."

Þú tekur ekki beint við í neinni blómatíð?

"Nei, mikil ósköp. Það eru erfiðir tímar og það setur svip sinn á starfið og rekstur bæjarins: Skuldastaðan jókst við hrunið – erlendar skuldir stökkbreyttust og við erum ennþá að vinna úr því. Síðan eru margvíslegir erfiðleikar hjá fjölmörgum fjölskyldum sem leita hingað eftir liðsinni, og misjafnt hvernig hægt er að verða við því. Það er örugglega mikið skemmtilegra að taka við í blómatíð – en ég er ekkert viss um að minn karakter hefði endilega fallið jafnvel að því."

Þú ert ekki karakter sem hefur sig í frammi – þú ert ekki mikið fyrir sviðsljósið?

"Nei, alls ekki. Ég forðast sviðsljósið og er því líklega frekar óeðlilegur stjórnmálamaður."

Hvernig karakter ertu?

"Ég bý við mikið jafnaðargeð, og konan mín segir að minn helsti kostur, og um leið helsti ókostur, sé þolinmæðin. Ég held að það sé kostur við þær aðstæður sem nú ríkja."

Erlendu lánin bænum erfið

Nú hefur erfið skulda- og fjárhagsstaða Hafnarfjarðar verið talsvert til umræðu að undanförnu. Hvað veldur helst þessari stöðu?

"Skuldastaðan er tengd breytingum á erlendum lánum – við hrun krónunnar þá stökkbreyttust þau og jukust um einhverja átta, níu milljarða á nánast einni nóttu. Síðan kemur verðbólguskot, og þá hækka innlendu skuldirnar líka: Um leið dragast tekjur bæjarins saman. Þá vorum við búin að fjárfesta í lóðum úti á Völlum – bæði íbúðalóðum og atvinnulóðum – og greiða fyrir þær – það var búið að úthluta þeim – og búið að fá greitt fyrir talsverðan hluta af lóðunum. Þá peninga urðum við bara að endurgreiða úr kassanum, á fjórða milljarð króna. Þetta er búin að vera röð áfalla – mörg þung högg á stuttum tíma. Í kjölfar þessara áfalla höfum við náð góðum árangri í rekstrinum og sú vinna byrjaði strax eftir hrun. Við hins vegar lögðum það alltaf til grundvallar að verja störfin og þjónustuna. Í fjárhagsáætlunini á þessu ári var í raun búið að klippa það allt saman; það var ekki gengið lengra nema að fækka fólki og draga saman í þjónustu, og við þurftum að gera það og höfum gert það. Það er ömurlegt að þurfa að segja upp fólki, en þessar aðgerðir hafa skilað sér í rekstrinum."

Er búið að skera inn að beini í rekstri bæjarins?

"Ef við skerum meira niður fer það að bitna með sjáanlegum hætti á þjónustu við bæjarbúa, þannig að fólk finni virkilega fyrir því."

Íslensk stjórnmál einkennast um margt af hörðum deilum og gjarnan eru stór orð látin falla, ekki bara í hita leiksins, heldur virðist það einfaldlega vera mjög algengt, jafnvel regla miklu fremur en undantekning. Til dæmis segja Sjálfstæðismenn hér í bæ einfaldlega að þetta sé allt ykkur í Samfylkingunni að kenna, að þið rekið bæjarapparatið ekki nógu vel, eða bara hreinlega illa.

"Það er alveg rétt, eins og þú segir, að það er auðvitað svolítið einkenni á stjórnmálaumræðu á Íslandi í dag að hún er mjög óvægin og hún er oft mjög rætin og ekki alltaf mjög heiðarleg. Menn hafa ekki verið almennt tilbúnir til að horfast í augu við lærdómana sem má draga af hruninu og hægt er að lesa um í rannsóknarskýrslunni – það eru margir ennþá í bullandi afneitun; eru í ábendingarleiknum alveg á fullu. Margt hefur einfaldlega versnað í umræðunni eftir hrun – neikvæð umræða hefur aukist og neikvæðar hliðar íslenskrar stjórnmálaumræðu orðið sýnilegri. Það er í senn hræðilegt og slítandi að taka þátt í þessu – mjög slítandi."

Hið háa alþingi virðist nú stundum vera eins og stjórnlaus leikskóli.

"Það er enginn leikskóli sem er á þessu plani."

Hvernig finnst þér Samfylkingin, þinn flokkur, hafa staðið sig í landstjórninni? – flokkurinn var nú við völd fyrir hrun og er enn við völd eftir hrun.

"Mér finnst flokkurinn hafa staðið sig ótrúlega vel við skelfilegar aðstæður. Þetta var auðvitað ekkert venjulegt sem menn tóku við eftir hrun – þetta var einfaldlega þrotabú. Og þó að mörgum finnist það ganga hægt og illa þá eru hlutirnir samt sem áður, á þrjóskunni og harðfylgninni, á leið í rétta átt. Ég dáist nú að Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir ótrúlega þrautseigju, þótt sumir láti stílinn hennar fara í taugarnar á sér. Það sama má segja um Steingrím J. Sigfússon – sem býr nú við afar erfitt heimilisástand í sínum flokki. Ég segi hiklaust að það er ekki hægt annað en að dást að þessu fólki fyrir þolinmæði og eljusemi. Og ekki kemur maður auga á neina raunverulega valkosti."

En nú var Samfylkingin við völd ásamt Sjálfstæðisflokknum frá árinu 2007 til 2009 og hlýtur að eiga sinn þátt í öllu þessu hruni?

"Ég er þeirrar skoðunar að þá hafi verið gerð ýmis mistök. Ég er á því að þá hafi Samfylkingin verið alltof viljug til að dansa eftir línu Sjálfstæðisflokksins – og það er hluti af skýringunni hvernig fór. Árið 2007 var erfitt að sjá fyrir sér annað stjórnarmynstur þótt þessir flokkar hafi á ýmsan hátt verið svarnir óvinir. Stóru mistök þeirrar stjórnar fólust ekki í því sem hún gerði heldur miklu frekar í því sem hún gerði ekki; það var stöðugt verið að benda á hættumerki – verkalýðshreyfingin benti stöðugt á þessi hættumerki, en stjórnin brást ekki við – steig ekki á bremsurnar."

Evran og ættleiðingar

Þá að umræðunni um Evrópusambandið – einni heitustu umræðu stjórnmálasögunnar hér á landi. Vilt þú ganga í Evrópusambandið?

"Ég er nú búinn að vera þeirrar skoðunar alveg frá því í kringum 1990 að Íslandi, íslenskum almenningi, og íslensku launafólki, væri betur borgið ef Ísland væri í Evrópusambandinu. Og ég hef ekkert skipt um skoðun, fjarri því. En ég er ekki tilbúinn að skrifa upp á hvað sem er – áskil mér rétt til að skipta um skoðun ef samningurinn verður vondur. En ég tel gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að komast í gjaldmiðilssamstarf – fá evruna. Þótt evran rekist nú í ólgusjó held ég að það muni lagast. Upptaka evrunnar mun með tíð og tíma gefa íslenskum almenningi og fyrirtækjum aðgang að ódýrara lánsfé og losa Íslendinga við verðtrygginguna. Sjálf verðtryggingin er ekki vond, hún er bara eðlileg afleiðing af óstöðugum gjaldmiðli, og að mörgu leyti skjól skuldarans, segi ég, því það myndi ekkert heimili eða fyrirtæki standa af sér verðbólguholskeflu með óverðtryggðar skuldbindingar og breytilega vexti – það stæði enginn undir því. Innganga í Evrópusambandið yrði að mínu mati mjög góð fyrir neytendur, og þá held ég að það væri mjög gott fyrir íslensk stjórnmál; það er mikið agaleysi í íslenskum stjórnmálum og í íslensku þjóðfélagi sem ég held að myndi ekki líðast í samstarfi eins og Evrópusamstarfinu. Næsta skref er einfaldlega að fá samning í hendurnar og bera hann undir þjóðina – ekkert vit í öðru. Það er ábyrgðarlaust að halda því fram að það sé einhver valkostur að draga umsóknina til baka – það þarf að ljúka málinu með þjóðaratkvæðagreiðslu."

En þá frá stjórnmálamanninum Guðmundi Rúnari í átt að fjölskyldumanninum, tónlistarpælaranum og Facebook-aðdáandanum Guðmundi Rúnari. Hann er kvæntur Ingibjörgu Jónsdóttur, félagsfræðingi, og eiga þau saman einn son, Jón Steinar, og tvær dætur, Ágústu Mithilu og Þórdísi Timilu, sem þau ættleiddu frá Indlandi, en fyrir átti Guðmundur Rúnar son úr fyrra hjónabandi – Ólaf Kolbein. Guðmundur Rúnar segir það töluvert ólíkt að eignast börn með hefðbundnum hætti og því að ættleiða.

"Dæturnar voru fjögurra og sex mánaða þegar þær komu hingað, en það liðu tvö ár á milli komu þeirra. Eftir fyrri ferðina til Indlands sóttum við strax um aftur – það kom ekkert annað til greina. Ættleiðingarferlið er langt og strangt, en það er mjög útbreiddur misskilningur að það sé allt á færi Íslendinga einna. Það er ekki eingöngu vegna aðgerða á Íslandi sem ættleiðing er svona tímafrekt ferli heldur ekki síður vegna aðgerða og ákvarðana í upprunalöndunum, og líka vegna þess að aðstæður víða, til dæmis í Kína og á Indlandi, hafa breyst; efnahagsástand í þessum löndum hefur lagast mikið. Og þar sem ég þekki til á Indlandi, veit ég að þar eru reglur um það að fyrst á að leita eftir ættleiðingu innanlands, og eftirspurnin þar hefur stóraukist. Hérna heima eru gerðar talsverðar kröfur til fólks sem vill ættleiða, og ég held að það sé bara gott. Þetta á að vera erfitt. Þetta snýst um rétt barnsins – ekki rétt fólks til að verða foreldrar. Og það skiptir máli að það sé vel að málum staðið, sem ég tel að sé að mörgu leyti á Íslandi."

Er allt öðruvísi upplifun að eignast börn með hefðbundnum hætti, ef svo mætti segja, heldur en að sækja þau út – ættleiða?

"Já, hún er að mörgu leyti öðruvísi. En manni þykir auðvitað alveg jafn vænt um börnin sín – hvort sem þau eru ættleidd eða ekki. Það er hins vegar dálítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvað af muninum kemur til út af því að maður er bara eldri og hugsanlega þroskaðri. Ég held að það skipti svolitlu máli. Hitt einhvernveginn gerðist bara – hin börnin mín urðu til án mikillar umhugsunar, svo sannarlega velkomin, en það var ekki þannig að það væri tekin ákvörðun um að eignast barn. Ættleiðing aftur á móti er röð af meðvituðum ákvörðunum – þú ákveður að eignast barn og setur í gang þá vinnu – þannig að þú ert einhvernveginn mun meðvitaðri um það sem er að gerast og það hlaðast upp miklar tilfinningar og spenna í kringum það. En það er ekkert nema jákvætt í því – kærleikurinn er sá sami - það er að segja þegar það gengur, en ég get líka ímyndað mér að það sé mjög erfitt – mikil vonbrigði hjá fólki – þegar það tekst ekki."

Þakklátur SÁÁ

Guðmundur Rúnar hætti að drekka fyrir hartnær einum og hálfum áratug síðan og segir lífið án áfengis mun betra en lífið með því. En var það erfið ákvörðun að hætta að drekka og fara í meðferð?

"Ég hætti að drekka árið 1997 og það var ekki erfið ákvörðun eftir að ég áttaði mig á vandanum. Fyrir alkóhólista er miklu erfiðara að drekka en drekka ekki. Og lífið er miklu betra án áfengis fyrir mig og fjölskylduna, ég líki því nú ekki saman."

Var áfengið orðið þér fjötur um fót?

"Já, annars hefði ég ekki velt því fyrir mér. Maður fer ekki að velta þessum hlutum fyrir sér, hvað þá að fara í meðferð, nema af því að drykkjan er farin að hafa óþægileg og neikvæð áhrif á lífið og tilveruna. Fyrir mér er lífið allt annað og miklu betra án áfengis."

Ferðu oft á AA fundi?

"Ég hef tekið það í lotum – ég er til dæmis ekki virkur í AA núna – en þetta fer auðvitað dálítið eftir því hvernig maður er stemmdur. En stundum þarf maður á því að halda að fara á fundi."

Ertu sáttur við meðferðarúrræði á Íslandi – til dæmis SÁÁ?

"Já, í það minnsta fékk ég alveg feikilega góða þjónustu þar, og ég veit að ég get alltaf leitað þangað, og það er gríðarlega mikils virði. Ég var nú bara á stórum fundi hjá SÁÁ um daginn þar sem voru allir bæjarstjórar hérna á Stór-Reykjavíkursvæðinu: Ég sagði einmitt á þeim fundi að ég vildi eiginlega ekki hugsa það til enda hvernig íslenskt samfélag væri ef SÁÁ hefði ekki notið við síðustu þrjátíu árin. Frábært og ómetanlegt starf sem þar er og hefur verið unnið."

Frank Zappa, Facebook og Sjón

Og þá að tónlistinni – ég hef heyrt að þú hafir alltaf verið mikill tónlistaraðdáandi og sért sérlegur Frank Zappa aðdáandi.

"Zappa stendur mér nærri og ég uppgötvaði hann einhverntímann upp úr 1970 – í gegnum Þráinn Hauksson landslagsarkitekt og gamlan félaga minn. Ég á örugglega allt sem Zappa gaf út og sitthvað fleira. Svo naut ég þess í London árið 1988 að sjá hann á tónleikum í síðustu ferðinni sem hann fór með hljómsveit – og það var stórkostleg upplifun – konan mín fór með mér og skemmti sér gríðarlega vel."

En hvað er það við Frank Zappa sem heillar þig svo algjörlega?

"Það er í raun mjög auðvelt að útskýra það: Hann höfðar til mín – það er ekkert öðruvísi. Það er einnig svo margt við Zappa sem er spennandi; tónlistin sjálf – textarnir sem eru skemmtilega ögrandi. Það er þjóðfélagsádeilan, fordómaleysið, það er allt látið flakka, það eru engin vígi heilög, það er enginn tvískinnungur og engin skinhelgi og svo var hann einfaldlega stórkostlegur tónlistarmaður; bæði sem tónskáld og hljóðfæraleikari. Hvað viltu eiginlega meira? Hann gerði nánast allar tegundir af tónlist og allt frábærlega: Með því að sökkva sér ofan í Zappa finnur hver tónlistaráhugamaður eitthvað við sitt hæfi – alveg sama á hverju hann hefur áhuga."

Hvað með lestur bóka – ertu lestrarhestur?

"Ég les mikið, les nær eingöngu skáldsögur. Ég nenni ekki að lesa reyfara – þeir höfða ekki til mín. Ég les verk eftir bæði íslenska höfunda og erlenda; hef gríðarlega gaman af þessum gömlu snillingum okkar – og síðan hef ég mjög gaman af Einari Má og Einari Kárasyni, Gyrði Elíassyni, Braga Ólafssyni – Jón Kalmann er algjör snillingur og svo er Bergsveinn Birgisson, hann er algjörlega frábær höfundur. Svo las ég snilldarverk um daginn. Var í útilegu og gleymdi að hafa með mér bók og fór í kaupfélagið á Selfossi - þar var stór bókahilla – en aðeins ein bók sem ég hafði ekki lesið, en hafði áhuga á að lesa – allar aðrar bækur í hillunni voru þess eðlis að annaðhvort langaði mig ekki að lesa þær eða ég var búinn að lesa þær. Nema þessi, Skugga-Baldur eftir Sjón, og er alveg stórkostleg bók. En annars er uppáhalds rithöfundurinn minn frá Ástralíu, heitir Peter Carey – mikill örlagasnillingur. Ég mæli með að þeir sem þekkja ekki til hans kynni sér hann, magnaður rithöfundur."

Hefurðu áhuga á að skrifa sjálfur – ertu að skrifa?

"Ég á það eftir. Mig hefur oft langað til þess, en ekki fundið mér tíma til þess. Ég finn þann tíma síðar."

Að lokum, Guðmundur Rúnar – þú ert bæjarstjóri sem ert virkur á samskiptavefnum Facebook. Af hverju?

"Ég er stundum virkur á þeim vef og það gefur mér ýmislegt; til dæmis mikil samskipti við fólk sem ég hefði annars ekki samskipti við; ég er búinn að finna fullt af gömlum kunningjum, skyldmennum sem eru fjarlæg, gamla skólafélaga og jafnvel fræga tónlistarmenn í útlöndum. Ég er til að mynda í samskiptum á Facebook við Hollendinginn Jan Akkerman sem er mjög háttskrifaður tónlistarmaður og reyndar marga aðra. Þetta er frábært apparat sem býður upp á marga möguleika í samskiptum við annað fólk sem voru ekki til staðar áður."

Texti: Svanur Már Snorrason

1 ummæli:

Unknown sagði...

Skemmtilegt viðtal, ætla að kíkja á Peter Carey :)