miðvikudagur, 26. janúar 2011

Eir-kvót 16

"Blessuð, hún er löngu hætt með honum. Þetta var svona gaur sem hún er með í
einn tvo daga."

mánudagur, 24. janúar 2011

Eir-kvót 15

"Ef þú værir munaðarlaus og yngri myndi ég ættleiða þig." Við Röggu þegar
hún var eitthvað að ibba gogg.

laugardagur, 22. janúar 2011

föstudagur, 21. janúar 2011

Eir-kvót 14

"Finndu fyrst tóninn og syngdu svo. Ekki byrja að syngja áður en tónninn er
fundinn." Eitt af heilræðum Eir sem blaðamenn undir stjórn hans nutu, og þau voru mörg, enda Eir á góðum degi ekkert annað en frábær kennari.

Eir-kvót 13

Eir á innan við fimm sekúndum við SMS: "Tökum þetta efni í næstu viku. Hvaða vitleysa er þetta?, við tökum þetta bara núna. Hvað ertu að láta mig bíða?, okkur vantar efni. Hvað ertu að rugla? Bara gera þetta strax."

fimmtudagur, 20. janúar 2011

Eir-kvót 12

"Prótein, er það nafn á einhverri reikistjörnu?" Eir þegar Tobba og Ragga voru að ræða um mat og næringu og eitthvað svoleiðis bull.

Eir-kvót 11


"Benz er eiginlega eins og ég - gæði án tilgerðar." Við Lindu Pé í september
2010 vegna mögulegra bílakaupa hennar.

miðvikudagur, 19. janúar 2011

Eir-kvót 10

"Horfðu í augun á mér þegar þú lýgur." Við blm. S&H 7. des. árið 2009. Hvass en þó glottandi.

Eir-kvót 9

"Þetta eru bara nóboddís með kyndla. Sendu þetta á Fréttablaðið, birt með
góðfúslegu leyfi Séð og Heyrt." Við Röggu 7. janúar 2010. Vegna mynda teknar
á Vesturbæjarhátíð á þrettándanum. Enginn frægur á myndunum.

Eir-kvót 8

"Þú tekur þetta ekkert út úr ísskápnum." Klassísk setning frá Eir.

þriðjudagur, 18. janúar 2011

Eir-kvót 7

"Ég ætla ekki að éta þetta ofan í þig! Þetta hljómaði ekki alveg rétt! En
þetta var samt góð setning hjá mér." Eiríkur var þarna smá að skamma Tobbu, 7. janúar 2010.

mánudagur, 17. janúar 2011

Eir-kvót 6


"Það fer ykkur báðum miklu betur að vera svona ómáluð."
Eiríkur við Svan og Röggu klukkan níu að morgni fyrir framan kaffivélina þann 11. nóvember árið 2009.

Eir-kvót 5

"Það nennir enginn að hringja í hana lengur. Hún bíður við símann."

sunnudagur, 16. janúar 2011

Eir-kvót 4

"Það er ekki eins og fólk hlaupi út á náttfötunum til að kaupa þetta rusl."

Eir-kvót 3

"Mér líður alltaf best þegar mér líður illa."

laugardagur, 15. janúar 2011

Eir-kvót 2

"Talaðu við þessa konu, það er einhver saga þarna. Var ekki mamma hennar
geimvera?"

Eir-kvót 1


"Borða hnakkamellur kjötbollur?" spurði Eiríkur Brynju Björk er hún gúffaði í sig
kjötbollum í mötuneytinu. Varð fátt um svör.

Eir-kvót


Þegar ég vann á Séð & Heyrt undir stjórn Eiríks Jónssonar tókum við Ragga (sem nú er ritstjóri) upp á því að safna saman nokkrum góðum setningum Eiríks (held að Ragga hafi byrjað á þessu fyrr en ég var þó snöggur að átta mig á þessu og hripaði stundum niður) í skjal og þetta skjal er til ennþá og má alls ekki glatast. Ég á nokkur Eir-kvót í mínum fórum og fæ vonandi send fleiri á næstunni frá Röggu. Eiríkur gat verið alveg sérlega skemmtilegur ef sá gállinn var á honum og lágum við stundum í krampa yfir bullinu/gullinu sem kom út úr honum og ef við hefðum verið duglegri við þetta (þurftum að vinna frekar mikið) ættum við Ragga efni í góða bók sem myndi vera hundrað sinnum fyndnari en einhver Bjögga Halldórs-kvót og sögur. Við Ragga getum reyndar sagt margar skemmtilegar og sérkennilegar sögur af Eiríki og ætli við skellum ekki seinna meir í bók þar sem blandað verður saman kvótum og sögum - það verður lesning í lagi. En ég ætla að birta eitt og eitt Eir-kvót á næstunni hér á þessari mögnuðu síðu. Það fyrsta kemur fljótlega.

fimmtudagur, 13. janúar 2011

“Lambið Guðs míns, sem situr á stóli Guðs míns, miskunna þú mér.”


Um Píslarsögu síra Jóns Magnússonar og hans bænaklifur

Þegar píslarsögu síra Jóns Magnússonar ber á góma er ekki óalgengt að mönnum verði á að tala um veröld myrkurs og hindurvitna, galdrafár, ofsóknir og ofstæki. Margir sjá tímabilið, sem frásögn síra Jóns spannar, eins og einn risastóran bálköst í myrkri aldarinnar þar sem konum og körlum er varpað á bálið í refsingarskyni fyrir afbrot sem okkur, er nú lifum, finnast léttvæg og lítilfjörleg.

Refsingar fyrir agabrot hér á landi gegn trúarlegum og veraldlegum yfirvöldum allt frá siðaskiptum, eða frá því Stóridómur var lögtekinn á Alþingi 1564, og fram á nítjándu öldina einkenndust af hörku, smámunasemi og jafnvel af geðþótta yfirvaldanna.

Tölur um fjölda galdrabrenna hérlendis eru nokkuð á reiki en yfirleitt er talið að þær hafi verið á bilinu tuttugu til tuttugu og fimm. Þó flestum þyki þessi tala alveg nógu há er þetta þó hlutfallslega miklu minna hér en til dæmis í Danmörku og Þýskalandi og einnig er vert að geta þess að í þeim löndum voru það nær eingöngu konur sem fóru á bálið en hér á Íslandi var aðeins ein kona brennd.

Píslarsaga síra Jóns Magnússonar er mögnuð bók. Þar fjallar höfundurinn um þær galdraofsóknir er hann telur sig verða fyrir af völdum feðga er kenndir voru við Kirkjuból í Skutulsfirði. Eftir mikið japl og jaml og fuður fékk síra Jón því framgengt, eins og alkunnugt er, að feðgarnir voru brenndir á báli. Þessi viðureign síra Jóns við þá feðga er án efa frægasta galdramál Íslandssögunnar, enda hefur töluvert verið um það fjallað bæði í ræðu og riti og sitt sýnst hverjum.

Píslarsaga síra Jóns hefur að geyma magnaðar lýsingar á líkamlegum og andlegum kvölum sem hann varð fyrir og var sannfærður um að væru af völdum galdrakunnáttu eða galdramáttar þeirra feðga. Þótt eflaust megi deila um heimildagildi píslarsögunnar í sögulegu samhengi eru kvalalýsingar síra Jóns svo sterkar og ljóslifandi að þó ekki væri nema fyrir þær einar er bókin stórmerkileg í bókmenntalegu samhengi:

Því þær kvalir, sem ég reyndi, voru ekki sama slags eða með samri pínuaðferð, heldur stórum umbreytilegar á öllum tímum, og svo eg mátti sínu sinni sitt og hvert reyna. Stundum var eg svo sem undir ofurþungu fargi kraminn og klesstur, svo sem þá maðkur er marinn eða ostur fergður, svo að megn og máttur var allur í burt tekinn, og í því fargi var þess á milli svo að finna sem líkaminn væri pikkaður með brennandi eða glóandi smánálum, svo þétt um holdið svo sem til að jafna, er menn finna til nálardofa. (78)

En þótt lýsingar síra Jóns beri vott um hræðilegar líkamlegar kvalir sem fæstir myndu vilja reyna á sjálfum sér þá finnst honum þær smáræði eitt miðað við þær andlegu þjáningar sem koma fram í formi efasemda um almættið:

Mjög þrálega var eg undirlagður mikilli fýlu og andstyggð, eftir andanum að tala, svo að Guðs heilaga orð varð í mínum huga (sjálfum mér viðbjóðslega) afbakað og til guðlastanar kreist og troðið, svo eg varð stundum önnur orð í samri meiningu að finna, en hinum, sem afbökuðust og rangfærðust, frá að víkja, svo eg skyldi ekki þeirri andstyggð mína aumu sál ofhlaða. (86)

Eftirfarandi lýsir mjög vel hvað þessar andlegu þjáningar lögðust þungt á síra
Jón; ekki einu sinni heimsyfirráð, hvað þá annað, gátu freistað hans í kvölunum:

Hversu oft hefða eg óskað mér, hefða eg um þann kost mátt velja að þó veröldin hefði mín eigin eign verið að óskiptu, hana alla á milli gefa, að eg hefða mátt líða og undirleggjast hverja helzt písl, sem mannlegur hugur eða hendur hefði kunnað upp að finna eða á leggjast, aðeins frelsaður og fríaður frá þeim innri sálarinnar kvölum, og því voru mér þær píslir, sem á holdinu lágu, fisi og hégóma léttari að reikna við hitt, sem sálina kvaldi. (86)

En þrátt fyrir hinar miklu kvalir sem á síra Jóni liggja ná þær ekki að yfirbuga hann algjörlega þótt oft hafi litlu munað. Það er hægt að merkja það á textanum að síra Jón er maður sem haldinn er trúarhita og trúarnæmi á hæsta stigi. Þrátt fyrir efasemdirnar og þær kvalir sem þeim fylgja er hann þakklátur fyrir þær stundir sem drottinn veitir honum á milli stríða:

Það bar og líka við stundum, að hríðanna slotum þeirra stóru, þá duttu í hug minn nokkur Guðs orð, sem eg viðkannaðist og mér voru alkunnug, en sú útlegging mér gafst um þeirra skilning varð mínum skilningi yfirundrunarleg, sem eg vissi, að enginn maður mundi kunna svo út að leggja, hversu vel lærður sem verið hefði, svo eg lá þá svo sem flatur í forundran Guðs dýrðar og dásemdar, svo eg þóttist í færum um að tala við þá hálærðustu, þó þeim nálægur verið hefði, um Guðs dóma og dásemdir. Hvar af allir heilskyggnir mega sjá, hversu Drottinn er stór guð og dásamlega yfirdrottnar mitt á meðal óvina sinna og kann og getur auðveldlega hjálpað, líka í hæstu neyð, þeim hann annast og að sér tekur. (94)

Ef djöfullinn hefur verið hér á ferð hefur hann komist að raun um að ekki var auðvelt að fá síra Jón á sitt band og minnir þessi barátta hans nokkuð á freistingarsögu Jesú Krists, þótt aðferðir freistarans séu ólíkar sem og persónur þær sem hann freistar í þessum tilvikum:

En djöfullinn sagði við hann: Ef þú ert sonur guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði. Og Jesús svaraði honum: Ritað er: Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Þá hóf hann hann upp og sýndi honum öll ríki heimsbygðarinnar á augabragði. Og djöfulinn sagði við hann: Þér mun eg gefa alt þetta veldi og dýrð þeirra, því að mér er það í vald gefið, og eg gef það hverjum sem eg vil. Ef þú því tilbiður frammi fyrir mér, skal það alt verða þitt. Og Jesús svaraði og sagði við hann: Ritað er: Drottin, Guð þinn, átt þú að tilbiðja og þjóna honum einum. Lúkas 4. 1.-9. (útg. 1978)

Það sem síra Jón notar sér til bjargræðis í verstu kvölunum er einmitt tilbeiðsla á drottinn almáttugan, eða það sem síra Jón kallar bænaklifur. Hann staglast á orði Guðs sér til sáluhjálpar og það er einmitt það sem virðist gera það að verkum að hann heldur velli mitt í öllum hinum djöfullegu árásum og freistingum:

- svo og þó mér væri á milli þeirra stríðu áhlaupanna vægjanlegra, - ellegar og líka þá eg fann munninn og tunguna þreytta í því klifi og bænarverki, svo að eg varð mér hæginda að leita og vörunum kyrrum að halda, þá lét eg þó samt þau bænarorð í huganum á hrærðri tungunni loða, því eg hugsaði með mér, að eg skyldi gera mér þar úr vana, til hvers eg mætti helzt taka, hvort sem árásirnar að höndum kæmi í svefni eða vöku. En þráoft bar það við, að mér var hin mesta nauðung að því verki, svo eg varð sjálfum mér þar til að nauðga rétt á móti þverum vilja. (94)

Sitt sýnist hverjum um þessa aðferð síra Jóns og mörgum finnst eflaust sem þarna sé um að ræða frekar vélræna og allt að því lífvana trú. Menn sjá kannski síra Jón fyrir sér sem hálfgert vélmenni skyrpandi út úr sér orði Guðs á frekar kaldan hátt, laust við innileika og hlýju. En hér er þó kannski miklu fremur um að ræða ákveðna aðferðarfræði hjá síra Jóni, í verstu köstunum, þar sem tungan er einfaldlega tæki til lækningar.

Um þessa aðferð síra Jóns segir Sigurður Nordal í erindi sínu Trúarlíf síra Jóns Magnússonar:

En nú er að reyna að skilja hinn þáttinn, sem mörgum mun jafnvel finnast enn fjarstæðari og ógeðfelldari en sjálfar lýsingar kvalanna og freistinganna: bænastaglið, klifunina á guðs orði með þurrum huga og steingerðu hjarta. Getur nokkuð verið óskyldara sannri, lifandi og heilbrigðri trú en þessi varaþjónusta við drottin, sem síra Jóni virtist vera slíkt sáluhjálparatriði? (31)

En menn verða að taka það með í reikninginn að síra Jón er sárþjáður á sál og líkama og vandséð er hvað skal til bragðs taka. Ekki var hægt að leita til geðlækna á þessum tíma og fá við þessum kvillum lyf í apótekum og ekki var um það að ræða að fara síðan í hópmeðferð eða eitthvað þvíumlíkt. Í grein sinni Merkingarheimur og skynjun skoðar Ólína Þorvarðardóttir einmitt Píslarsögu síra Jóns út frá læknisfræðilegu sjónarhorni og segir á einum stað:

Sú spurning hefur gerst áleitin hvort séra Jón Magnússon hafi í raun þjáðst af geðklofa, vegna þess að margt í píslarsögu hans gefur til kynna að einmitt þannig hafi verið komið fyrir honum. Óttar Guðmundsson læknir hefur sett fram þá skoðun og segir að flestir nútímalæknar hefðu látið klerkinn fá geðlyf til þess að slá á hugmyndir hans og skynvillur. (39)

Það er hægt að skoða og túlka píslarsögu síra Jóns á margan hátt, en hvað sem slíkum pælingum líður verða menn að muna að síra Jón er uppi á tímum mikils rétttrúnaðar og drottinn guð er vandlátur mjög, eða eins og segir í áðurnefndu erindi Sigurðar Nordal:

Samkvæmt hinum mikla rétttrúnaði 17. aldar lék ekki nokkur vafi á opinberuðum sannleika. Vandinn var sá einn að beygja hugsunina skilyrðislaust undir ok trúarsetninganna. Allar efasemdir voru hégómleg uppreisn villuráfandi heimsku, sem þóttist vera vizka, eða blátt áfram tálsnörur djöfulsins. (35)

Í ljósi upplýsinga um rétttrúnaðinn og hugsun almennings á þessum tíma finnst mér bænaklifur síra Jóns hvorki ógeðfellt né fjarstæðukennt. Hér er miklu fremur um að ræða síðasta hálmstráið hjá sjúkum og skynsömum manni sem ég vil meina að síra Jón hafi verið. Hann veit að það er einn hinn allraversti glæpur þessa tíma að formæla drottni almáttugum. Hann er farinn að freistast til þess í verstu kvölunum og ef hann lætur undan þeirri freistingu þýðir það ekki nema eitt: allt er tapað, ekkert er framundan nema eilíf útskúfun í helvíti.

Bænaklifið er í raun og veru það eina sem síra Jón getur gert og það gerir hann þó stundum sé honum það óljúft eins og áður hefur fram komið. Aðalatriðið er að láta ekki undan, bíta á jaxlinn í þeirri fullvissu að hans bíði eilíf himnasæla hjá drottni almáttugum standist hann þessa prófraun fordæðuskaparins.

Heimildaskrá:

Biblían. Hið íslenzka biblíufélag, Reykjavík 1978

Matthías Viðar Sæmundsson 1996. Galdur á brennuöld. Storð, Reykjavík.

Ólína Þorvarðardóttir 1992. “Merkingarheimur og skynjun. Sekt og sakleysi í Píslarsögu Jóns Magnússonar”, Tímarit máls og menningar, 53 árg. 4. Hefti.

Píslarsaga síra Jóns Magnússonar. Sigurður Nordal sá um útgáfuna, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1967.

Silja Aðalsteinsdóttir 1993. Bók af bók. Mál og menning, Reykjavík.

þriðjudagur, 11. janúar 2011

Nú verða sagðar fréttir


Í fréttum er þetta helst

Það er búið að myrða Raunveruleikann

Hann var stunginn til bana

Búið er að handtaka Stefnumótið og færa það til yfirheyrslu grunað um verknaðinn

Fjölmörg vitni voru að morðinu

Hversdagsleikinn hefur lagt á flótta og hefur ekkert spurst til hans frá því að
morðið var framið

Hversdagsleikinn er ekki talinn tengjast morðinu heldur er frekar talið að hann sé hræddur um að eins fari fyrir
honum komi hann sér ekki í burtu

Yfirborðsmennskan og Sýndarmennskan vildu ekkert láta eftir sér hafa en fóru á kaffihús og létu eins og hálfvitar

Meira um málið í 10-fréttum

miðvikudagur, 5. janúar 2011

Húnvetningur í Garðabæ



Í desember á síðasta ári var rithöfundurinn og Garðbæingurinn góðkunni, Steinar J. Lúðvíksson, ráðinn til þess að rita sögu Garðabæjar og búa hana til prentunar. Steinar, sem sent hefur frá sér fjölda bóka, starfar að verkinu undir stjórn ritnefndar sem er kjörin af bæjarstjórn og er verkið unnið í samstarfi við hana.
Steinar hefur unnið mikið starf við ritun sögu bæjarins og hann skrifaði til að mynda bækurnar Bær í blóma, en sú fyrri kom út árið 1992 og sú seinni árið 2001 á 25 ára afmæli bæjarins. Garðapósturinn tók Steinar tali.

Til að byrja með, Steinar, hversu lengi hefur þú búið í Garðabæ, hvar bjóstu áður og hvaðan af landinu ertu?


“Ég er Húnvetningur að ætt og uppruna og átti heima fyrir norðan fram að því að ég fór í framhaldsskóla en þá fluttist ég til Reykjavíkur. Konan mín, Gullveig Sæmundsdóttir, er úr Hafnarfirði og þar í bæ byrjuðum við búskap okkar í leiguhúsnæði. Fyrir tilviljun bauðst okkur lóð í Garðahreppi sem við keyptum óséða. Við byggðum síðan – fyrsta og eina húsnæðið sem við höfum átt – og fluttum árið 1969. Ég hef stundum sagt að ég hafi orðið Garðbæingur daginn sem ég flutti hingað, svo vel hef ég kunnað við mig í bænum.”

Það má með sanni segja að þú hafir fengist við skriftir nánast alla þína starfsævi.

“Já, ég er búinn að fást við að skrifa alla mína starfsævi. Var í á annan áratug blaðamaður á Morgunblaðinu, sem var afar skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Varð síðan ritstjóri hjá Frjálsu framtaki, síðar Fróða, og hafði umsjón með útgáfu fyrirtækisins, bæði tímarita og bóka. Jafnhliða þessu aðalstarfi fór ég ungur að skrifa bækur og hef ritað á fjórða tug, bæði bækur safnfræðilegs eðlis og ævisögur auk þess sem ég hef þýtt nokkrar bækur. Bæði blaðamennskan, ritstjórnin og bókaskrifin hafa verið afskaplega gefandi og skemmtilegt starf.”

Nú ert þú að skrifa um sögu Garðabæjar. Þegar þú tókst að þér þetta viðamikla verkefni varstu þá alveg viss strax frá upphafi hvernig þú myndir byggja bókina upp og um hvað yrði helst fjallað?

“Þegar ég tók að mér að rita sögu Garðabæjar var ég búinn að gera mér ramma verksins í hugarlund. Raunar var um tvo kosti að velja. Annar var sá að leggja megináherslu á sögu bæjarfélagsins sem er ekki löng í árum talin, en hinn var að fjalla um sögu byggðarlagsins frá fyrstu tíð. Í samráði við ritnefnd verksins, sem er skipuð góðu og áhugasömu fólki, þeim Laufeyju Jóhannsdóttur, Ólafi G. Einarssyni og Sigurði Björgvinssyni, var ákveðið að fara lengri leiðina, ef svo má að orði komast, það er, rekja söguna alveg frá landnámsöld, en sú saga er mjög margþætt og einstaklega áhugaverð. Þetta eykur vitanlega umfang verksins mjög mikið, en gerir það líka miklu skemmtilegra fyrir mig og vonandi aðra.”

Hvernig gengur sú vinna og hvenær er áætlað að bókin muni líta dagsins ljós?

“Mér sýnist ljóst að verkið verði tvö til þrjú bindi og á þessu stigi er ekki hægt að segja nákvæmlega hvenær því verður lokið. Það fer eftir svo mörgu.”

Varstu strax ákveðinn í því að taka að þér þetta verkefni, þurftirðu ekki að hugsa þig um tvisvar?

“Áður en það kom til tals að ég tæki þetta verkefni að mér var ég búinn að taka ákvörðun um að hætta störfum hjá Fróða ehf. Þar voru að gerast hlutir sem voru mér ekki geðfelldir. Ég stóð frammi fyrir nokkrum valkostum en þegar mér bauðst tækifæri til að vinna Garðabæjarsöguna þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Fyrir þann sem hefur gaman af því að grúska og skrifa er þetta óskaverkefni og get ég hiklaust sagt að þetta er eitt áhugaverðasta og skemmtilegasta verkefni sem ég hef nokkru sinni fengist við.”

Megum við eiga von á að þú skrifir út frá eigin reynslu sem íbúi og þátttakandi í hinu og þessu starfi tengdu Garðabæ?

“Ég lít fyrst og fremst á þetta ritverk sem sagnfræðilegt verk, einkum þó þann hluta þess sem fjallar um fortíðina. Síðan reynir á að koma þeim texta þannig frá sér að lesendur geti haft bæði gagn og ekki síður gaman af því að lesa hann. Auðvitað kemur það mér til góða að vera Garðbæingur og hafa fylgst með bæjarlífinu í svona langan tíma. Ég þekki hér til mikinn hluta þess tíma sem þéttbýli hefur verið í Garðabæ. Áður fyrr var það svo að maður þekkti flesta bæjarbúa með nafni og það auðveldar manni að vinna seinni hluta sögunnar að vita hverjir komu mest að málum.”

Heldurðu að Garðbæingar muni koma til með að taka bókinni fagnandi og að hún ýti kannski undir stolt þeirra af sögu bæjarins og bara bænum sjálfum eins og hann er í dag?

“Mér dettur satt að segja ekki í hug að byggðasaga á borð við þá sem ég er að vinna að liggi á náttborðum fólks og sé lesin eins og reyfari. Til þess er raunar ekki leikurinn gerður, heldur er tilgangurinn fyrst og fremst að safna saman fróðleik um byggðina og geyma hann í ritverkinu þannig að þeir sem þurfa á þessum upplýsingum að halda hafi gott aðgengi að honum á einum stað. Ég er hins vegar fullviss um að ef vel tekst til þá getur svona ritverk eflt þekkingu bæjarbúa á rótum samfélags síns og þeirri þróun sem orðið hefur á svæðinu.”

Hvað finnst þér persónulega vera áhugaverðast í sögu Garðabæjar, þróun hans og uppbyggingu og hvernig sérðu fyrir þér bæinn á næstu árum; mun hann halda áfram að vaxa og dafna?

“Þegar maður fer að grúska í gögnum og gamalli tíð er fjölmargt sem kemur á óvart og maður hafði ekki hugmynd um. Ég hafði til að mynda ekki gert mér grein fyrir því að allt fram á nítjándu öld bjó fleira fólk á þessu svæði en í sjálfri Reykjavík. Ég hafði heldur ekki gert mér grein fyrir því ægivaldi sem kóngur og kirkja höfðu á svæðinu í langan aldur, en hið geistlega og veraldlega vald átti allt landsvæðið hér með einni undantekningu. Athyglisvert er hve allt mannlíf á svæðinu mótaðist af þessu og hvaða áhrif Bessastaðavaldið hafði á líf fólks. Einnig er mikil saga sem fylgir því að þetta svæði, Álftneshreppur, skiptist í þrjú sveitarfélög og hvernig Garðahreppur verður að tiltölulega fámennum sveitarhrepp í marga áratugi. Síðan er önnur saga hvernig þéttbýlið verður hér til og hvernig það þróast. Ég er raunar þeirrar skoðunar að þróun þéttbýlisins hafi verið tekin í afar skynsamlegum þrepum og með framsýni og fyrirhyggju hafi verið séð svo til að hér í Garðabæ geti verið um fyrirmyndarbæjarfélag að ræða um langa framtíð.”

Er fólk stolt af því að vera Garðbæingar og er samstað bæjarbúa mikil þegar eitthvað bjátar á?

“Auðvitað mótast Garðabær verulega af nágrenninu við höfuðborgina. Flestir Garðbæingar eiga rætur að rekja annað en til bæjarins síns. Það er fyrst núna um þessar mundir að hægt er að tala um stóra kynslóð innfæddra Garðbæinga. Kannski er þróunin líka sú að líta beri á höfuðborgarsvæðið sem eitt atvinnu- og menningarsvæði. En ég er þess fullviss að það fer fleirum eins og mér að jafnskjótt og flutt er til bæjarins er eins og við höfum alltaf átt hér heima. Flestir íbúar hér segja með stolti að þeir séu Garðbæingar. Bæjarvitundin er alltaf að aukast og kemur það fram á mörgum sviðum.”

Hvernig finnst þér menningarlífið vera í bænum miðað við nágrannasveitafélögin?

“Miðað við það sem áður sagði um höfuðborgarsvæðið er óhætt að segja að félags- og menningarlíf í Garðabæ sé mjög öflugt og fjölþætt. Það mætti nefna til ótalmargt, svo sem öflugan tónlistarskóla og tónlistarlíf og gott bókasafn. Stór hluti þess sem kalla má menningarlíf felst líka í íþrótta- og skólastarfi, en hér í bæ hefur verið staðið vel að báðum þeim þáttum. Sjálfum finnst mér fornminjarnar að Hofsstöðum og uppsetning og aðgengi að þeim vera stórmerkilegt og hef raunar verið talsmaður þess að farið verði í slíkar framkvæmdir að Görðum þar sem líklegt er að önnur tveggja landnámsjarða á svæðinu hafi verið.”

Viðtal tekið fyrir Garðapóstinn, en nákvæma dagsetningu hef ég ekki fundið að svo stöddu.