Það er vont að vera með hausverk, komast ekki í vinnu, liggja eins og hrúgald, og fá yfir sig skammir, allt um leið. Það er betra að borða grjónagraut og lifrarpylsu og hlusta á Alvin og Íkornana syngja. Enn betra er þegar hlutirnir ganga upp; verkefni leysast án mikilla vandkvæða en þó þannig að sköpun og örvun komi þar við sögu. Spili rullu. Best af öllu er þó að eiga góðar stundir með konu og börnum, þegar enginn er að tuða og væla eða búa til vandamál. Vandamál okkar sem lifum í dag felast einmitt í því að við erum snillingar og Heimsmeistarar í að búa til vandamál. Sjáum þau víða og grípum þau gjarnan. Til hvers? Það þarf engar lausnir ef við búum okkur ekki til vandamál. Verkefni viljum við hins vegar flest kljást við og þar á sanngirni að ríkja sem og rétturinn til skoðana. Það er alveg hægt að hafa lífið þannig. Bara ef við hættum að búa til vandamál. Búum til eitthvað annað - eitthvað nothæft, eitthvað fallegt, eitthvað sem gefur af sér, eitthvað sem hljómar vel, eitthvað sem við sjáum aldrei eftir, eitthvað fyrir þig, mig, konuna og börnin, vini og vandamenn, og auðvitað mömmu og pabba. Gerum það.
2 ummæli:
Myndin og yfirskriftin kölluðu fram í huga mér lagið "Búum til betri börn" með Sverri Stormsker. Er þetta Valur Áki á myndinni? Sé svo, getur hann vart verið eldri en tvævetur þegar smellt var af.
Hann var ponsi þegar myndin var tekin... held ég geti sagt með sanni að ég hafi búið til ansi góð börn... mín mestu afrek :)
Skrifa ummæli