föstudagur, 4. janúar 2008

Pælingar 21


Keep on rockin´ in the FREE world

Geri mér grein fyrir því að með því að minnast hér á “Jesúauglýsinguna” er ég að bera í bakkafullan lækinn. En samt.

Þessi auglýsing frá Símanum hefur vakið athygli; mikið verið um hana rætt og ritað, og sitt sýnist hverjum. Trúarbrögð eru viðkvæmt málefni og auðvelt að fá viðbrögð fólks og athygli með því að hafa þau sem þema í auglýsingu. Og það er klárlega það sem markaðs- og auglýsingamenn eru að gera með þessari auglýsingu. Sumir segja líka að öll athygli sé af hinu góða. Er ekki sammála því.

En ég ætla ekki að ræða um sjálfa auglýsinguna. Það er búið að gera nóg af því og ekkert nema gott um það að segja.

Ég vil frekar vekja athygli á opinni umræðu. Það er jákvætt hjá okkur - þeim sem byggja þetta ágæta og harðbýla land - að geta rætt um slík mál, án þess að grípa til ofbeldis og/eða líflátshótana. Ég er auðvitað að vísa í mál sem margir muna eftir - enda ekki langt um liðið; allt brjálæðið þegar hinn danski Jótlandspóstur birti skopmyndir af Múhameð spámanni. Ég er ekki að taka undir slíka myndbirtingu, en viðbrögðin voru þó ótrúlega öfgafull og ekki sæmandi fyrir okkur sem þykjumst vera (og erum í flestum tilvikum) hugsandi verur. Sem betur fer erum við hér á Fróni ekki í þessum pakka. Vil meina að við aðhyllumst frekar opnar umræður og við þeim segi ég: Já takk.

Umræða og umræðupólitík er ekki alltaf að skila miklu en í flestum tilvikum skilar þetta einhverju jákvæðu. Hótanir og ofbeldi gera þveröfugt.

Umræða má ekki halda aftur af framförum, athöfnum og framkvæmdum - frekar stuðla að betri ákvörðunum og þar með ættu framkvæmdirnar að verða vitrænni. Þess vegna fögnum við opinni umræðu - hvort sem umræðuefnið er Jesú og Júdas eða fáránleiki forræðishyggju. Höfnum ofbeldi og líflátshótunum.

Er það ekki annars?

Víkurfréttir, 20. september 2007

2 ummæli:

Hjalti sagði...

Jú.

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra, góði vinur. Kv, Svanur