Ég er í eftirpartýi hjá Guðrúnu Huldu frænku, á Álfaskeiðinu. Árið er 1995, apríl, og þrítugsafmæli Gísla Jens, bróður míns, er nýafstaðið. Haldið í reiðskemmu Sörla. Skrautlegt afmæli, er þá vægt til orða tekið. Blóðugt. Óboðnir gestir létu sjá sig. Stjáni mágur lét til sín taka sem og þeir frændur, Diddi vinur minn og Grímur, bróðir Palla píku. Löggan kom. Hollywood var ekki opið það kvöld. Eftirpartýið er líka skrautlegt og blóðugt. En í því tilviki komu tveir kvenmenn við sögu, á bílastæðinu fyrir utan. Nokkrir strákanna horfa á og hafa nokkuð gaman af. Önnur stelpan ekki. Síðan þá hefur margt breyst. Í eftirpartýinu eru margir góðir vinir og allir fullir. Þarna eru Aui og Dolli og Diddi en Örvar er ennþá í Köben að dást að Jack Nicholson og láta sig dreyma um að opna gleraugnaverslun á Suðurlandsbraut. Svo er auðvitað þarna íbúðarráðandinn, Guðrún Hulda, og einhverjar aðrar stelpur. Þarna er líka Gunni Ólafss. Hann lést snemma árs 2007 - á fertugasta og öðru aldursári. Langt, langt fyrir aldur fram. Ég og Gunni sitjum að sumbli langt fram eftir morgni og hlustum ótt og títt á Neil Young og lagið hans fallega, Philadelphia, úr samnefndri kvikmynd. Í ákveðinni endurtekningu, á ákveðnum stundum og með rétta fólkinu, er stundum sannleik að finna. Hann var þarna þessa nótt, þennan morgun. Ég sakna Gunna þótt ég hafi nú ekki hitt hann mjög oft á síðustu árunum áður en hann fór. Mjög mikið í hann spunnið, svo mikið í honum, góður maður, góður drengur, en hann lokaði margt inni. Eins og fleiri. Ég sakna Gunna. Sakna hans.
6 ummæli:
Það míkið satt í þessu. Það er efni í góða bíomynd það sem gerðist þetta kvöld. Ég var svo fullur að ég ákvað að stytta mér leið heim frá partýinu og fara framhjá gamla Haukahúsinu. Það er í raun ótrúlegt að muni nokkuð frá þessu kvöldi.
Diddi
Segðu. Þetta var skrautlegt og satt er það hjá þér að það er skrýtið að maður muni eitthvað. Oft þegar maður tók þá ákvörðun að stytta sér leið heim þá lengdist yfirleitt leiðin um miklu meira en helming! Gaman að heyra í þér, kv, Svanur
Svöluhraunið er best geymda leyndarmálið. Styttir leiðina um helming. Þegar bókin The Secret kom út var ég sannfærður um að eitthvað yrði minnst á Svöluhraunið, en svo reyndist ekki vera. Vonbrigði. Vildi gjarnan geta hafa verið með ykkur þetta kvöld, en þarna var ég of upptekinn við að undirbúa eigin fermingu, sem var 20. apríl (sumardaginn fyrsta). Vildi líka hafa kynnst Gunna Ólafs, virðist hafa verið góður gæi, blessuð sé hans minning.
Landslagið á myndinni er sunnlenskt, eða evrópskt. Ætli þetta sé ekki miðja vegu milli Stuttgart og Fljótshlíðarinnar.
Annars þakka ég fyrir sendinguna sem kom í gær. Því miður missti ég af þér Svanur, var upptekinn við að sprengja ýlur og kínverjabelti á Álfaskeiðinu. En nú er ég glaður, því líkt og John Prine og Rúnni Júl á ég gull. Bæti m.a.s. um betur með því að eiga hest og vagn að auki.
Ég fermdist líka sumardaginn fyrsta. Þá var árið 1985 og dagsetningin 25. apríl. En þetta með Svöluhraunið er góður punktur og Diddi mun eflaust nýta sér hann næst þegar viðlíka partý mun eiga sér stað þarna í nágrenni Álfaskeiðs. Það er rétt hjá þér að landslagið er sunnlenskt eða evrópskt. En þó er myndin tekin rétt við Eiða, rétt utan við Egilsstaði, síðasta sumar. Gott að myndin sé loksins komin í þínar hendur. Þangað til næstu, kærar kveðjur, Svanur
man eftir þessu þó ég hafi ekki verið viðstödd.
MalKal
Enda eftirminnilegt kvöld. Kalasarkveðjur, Svanur
Skrifa ummæli