mánudagur, 21. janúar 2008
Bítlarnir & Blyton
Ímyndunarafl og bækur tengjast sterkum böndum. Og það er meginmunurinn á bókum og kvikmyndum.
Bækur krefjast fullrar einbeitningar en gefa oft mikið af sér.
Kvikmyndir eru af öðrum toga – geta vissulega gefið af sér og krefjast stundum einbeitningar en þú þarft sjaldan að nota ímyndunaraflið; kvikmyndatökuvélin sér fyrir því.
Bækur og svefn
Í æsku, þegar búið var að göslast í gegnum skóladaginn, var bókasafn skólans heimsótt. Í mínu tilviki voru bækurnar um bræðurna hugumprúðu, Frank og Jóa, afar vinsælar og bækur eftir Enid Blyton. Einnig spennusagnahöfundurinn Desmond Bagley en af þeim íslensku var Einar Már Guðmundsson vinsæll enda var hann svo fyndinn. Svo fékk annað að fljóta með.
Þegar heim var komið var heimalærdómurinn ekki efstur á lista heldur bækurnar frá bókasafninu. Og síðan sökkti maður sér ofan í ímyndaðan heim, fullmótaðan á fáeinum andartökum. Á þessum árum hlustaði ég mikið á fyrstu plötur bítlanna (fannst þær sem út komu eftir 1966 vera of skrýtnar eða þungar, en það hefur breyst) og því er það svo þegar minnst er á Enid Blyton fara bítlalög að hljóma í kollinum á mér! Skrýtið en skemmtilegt.
Ob-la-di, Ob-la-da!
Svo geta bækur - og þá sérstaklega námsbækur! - verið hið besta svefnlyf. Auðvelt að sofna út frá þeim en kannski ekki beint æskilegt. Hins vegar er það því miður svo, að mínu mati, að fáar skemmtilegar námsbækur hafa verið samdar og ég ekki man glöggt eftir neinni sem mér fannst beinlínis skemmtileg. En ég lifi í voninni og er ekki einn um það.
Það er ekkert líf í bókum!
Og síðan verður það að viðurkennast að það er ekkert líf í bókum. Innbundnar blaðsíður sem búið er að fylla af orðum safna bara ryki séu þær ekki lesnar. Ef bækur eru ekki lesnar er ævintýraheimurinn í þeim innilokaður. Það er einungis líf í þeim bókum sem lesnar eru. Og þess vegna eru bókasöfn svona mikilvæg því fæstir hafa pláss fyrir mikinn fjölda af bókum inni í híbýlum sínum og svo er alveg hryllilega leiðinlegt að þrífa og þrifnaður og bækur fylgjast að – annars verður maður étinn af maurum sem nenna ekki lengur að éta eða lesa bækurnar þínar og vilja prófa eitthvað nýtt. Það verður einhver að geyma allar þessar bækur sem gefnar eru út og verja okkur um leið fyrir innrás mauranna.
Svo sá ég lífstílsstílsþátt í sjónvarpinu þar sem bækur voru notaðar sem skraut, uppstillingar á hillum þar sem uppröðun þeirra, lögun og litur skiptu máli; ekki innihaldið. Fannst þetta sorglegt. Ég er kannski svona gamaldags en mér finnst bækur ekki vera skraut og sorgleg örlög þeirra bóka sem í þessu lenda. Örlögin þau eru til marks um hvernig yfirborðs- og sýndarmennskan getur líka náð til sjálfra bókanna. Blessuð sé minning þeirra.
Um öryggisbúnað og lestur!
Las skemmtilega dagbókargrein eftir Þráinn Bertelsson í Fréttablaðinu, 6. janúar síðastliðinn. Þar var að finna þessa bráðsmellnu klausu um bækur & líf:
“Síðan tóku við hinar hefðbundnu sprengingar á Landakotstúni. Nú eru öll börn með öryggisgleraugu og næsta ár verða allir skyldaðir til að vera með stál- eða asbesthanska líka til að sprengja ekki af sér fingur eða brenna sig.
Þrátt fyrir allan þennan öryggisbúnað varð samt smáslys á heimilinu. Litla Sól rak nefnilega horn á bókarspjaldi upp í augað á pabba sínum þegar hann ætlaði að fara að lesa fyrir hana. Þetta leit ekki vel út í fyrstu, en fór samt betur en á horfðist ef svo má að orði komast – og sýnir vitanlega að bækur eru ekki síður hættulegar en sprengiefni og sennilega væri skynsamlegt að allir notuðu öryggisgleraugu við lestur.”
Allt getur gerst við lestur bóka. En að lokum: Bækur munu halda áfram að koma út svo lengi sem mannfólkið tórir því það eru órjúfanleg tengsl þarna á milli; bækur veita okkur andlega næringu og kærkomna hvíld frá amstri hversdagsleikans – hraða hans og áreiti. Við þörfnumst þess öll.
Svanur Már Snorrason
Greinin birtist í: Bókasafnið. 31. árgangur. Maí 2007.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
amen.
ég fékk svo að lesa frank og jóa og enid blyton bækur merktar jóni, þér og gísla. Desmond Bagley fékk ég á skólabókasafninu í Víðistaðaskóla þannig að það hafa eflaust verið sömu eintökin á ferðinni, 10. árum seinna.
Desmond Bagley var einmitt í miklu uppáhaldi hjá mér. Las eiginlega ekki bækur eftir aðra spennusagnahöfunda, með örfáum undantekningum. Já, safnið í Víðó var mikið notað. Frank og Jói rúla. Kv, Svanur blaðamaður
Safnið í Setbergsskóla var ekki mikið notað, nema þegar kennararnir drógu nemendurna þangað inn nauðuga viljuga. Fólk vildi frekar vera úti í snjókasti eða hlusta á Nirvana inni í stofu. Sjálfur gerðist ég svo frægur að leggja einu sinni inn innkaupabeiðni á bókasafni Setbergsskóla. Það var bókin Saklaus í klóm réttvísinnar (saga Magnúsar Leópoldssonar). Þetta var árið 1996.
Var bókin keypt? Kv, Svanur
Já, hún var keypt. Þegar ég vann seinna við kennslu í Setbergsskóla, nánar tiltekið árið 2002, var hún enn þá til.
Nú fattaði ég allt í einu eitt merkilegt um afstöðu þriggja atburða í lífi mínu. Þeir eru:
Tími A: Ég læt kaupa ævisögu Magnúsar Leópoldssonar á Bókasafni Setbergsskóla.
Tími B: Ég er kennari í Setbergsskóla. Kíki inn á bókasafn. Ævisaga Magnúsar Leópoldssonar er enn á sínum stað.
Tími C: Ég sit og skrifa þetta komment.
Uppgötvunin er semsé sú að tíminn sem líður á milli A og B er jafnlangur og tíminn sem líður á milli B og C. Eitthvað óraunverulegt við það.
Skrifa ummæli