miðvikudagur, 19. desember 2007

Pælingar 19

Veðurljós

Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um Veðurstofu Íslands og kemur það ekki á óvart. Íslendingar eru veðursjúkt fólk og margir byrja öll samtöl á einhverju veðurtengdu. Svo er veðrið álíka óútreiknanlegt og þjóðarsálin. En í áðurnefndri fjölmiðlaumfjöllun hefur veðrið ekki komið við sögu.

Nei, þar var verið að fjalla um meint einelti sem á að hafa átt sér stað lengi innan veggja veðurstofunnar og flæmt frá marga veðurfræðinga. Þá var ekki alls fyrir löngu í einu slúðurblaðanna fjallað um svokallað veðurstofubarn; barn getið af tveimur veðurfræðingum, starfandi á Veðurstofu Íslands, fólki í sambúð en ekki með hvort öðru.

Nú er ég búinn að fá í huga minn aðra mynd en ég hafði áður um starfsmenn og andann á Veðurstofu Íslands.

Myndin var nokkurn veginn svona: Rólegt og vel menntað fólk með óvenjumikinn áhuga á veðri. Fólk þetta er ekki efnilegt í módelstörf og sjaldan er fjallað um það í slúðurblöðunum og enn sjaldnar fengið í viðtal í glanstímaritum. Ekki mjög töff fólk, heimspekilega þenkjandi og gjarnan með kaffifant við hönd. Lítt meðvitað um tískuna og ég hef það ávallt grunað um að vera nokkuð andfúlt – með svitablett undir höndum – þunga hárlykt (fyrir utan þá sköllóttu) og netta táfýlu.

Þessi mynd var í huga mér, svona er ég bara. En myndin hefur breyst - orðin svona:

Alvarleikinn allsráðandi, enginn hólpinn – allir með hnút í maganum og kvíðinn er daglegt brauð. Líkt og hjá málaliðum í Kongó eða almennum borgurum í Bagdad. Enginn veit hvað hver dagur mun bera í skauti sér. Kraumandi tilfinningar; illska, góðmennska, og ástríðan ríður ekki við einteyming; allir með öllum og allir á móti öllum. Og úr þessum graut koma veðurfréttirnar til okkar.

Veðurstofa Íslands er tekin við sem hið ótamda og illa keisaraveldi sem Svarthöfði ríkti eitt sinn yfir. Veðurstofa Íslands er staðurinn þar sem hlutirnir gerast. Suðupottur mannlegra tilfinninga; þeirra góðu og þeirra vondu.

Veðurstofa Íslands er hið nýja Leiðarljós.

Víkurfréttir, 10. ágúst 2007

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sveittur pistill!