þriðjudagur, 18. september 2007

Pælingar 15

Táknmynd af táknmynd

Hef lengi þótt pínu vænt um Richard Nixon, fyrrum forseta Bandaríkjanna. Jimmy Carter líka en það er á einhvern hátt eðlilegra. Lítil hlýja í garð Ronald Reagan og Bushfeðga, þótt pabbinn hafi verið skárri. Bill Clinton hátt skrifaður.

Bandaríkjaforsetar hafa lengi vakið áhuga minn og markast það fyrst og fremst af stöðu Bandaríkjanna sem ofurveldis. Hversu lengi í viðbót þeir verða það og hvaða þjóð tekur við af þeim er erfitt að segja um. Bandaríkjaforsetar hafa mikil völd og brúa á einhvern mystískan hátt bilið á milli viðbjóðanna og letihauganna sem telja sig hafa blátt blóð í æðum, og almúgans.

Forseti hefur unnið fyrir nafnbótinni en það er ekki hægt að segja það sama um fólk sem kallað er konungborið. Ég get ekki leynt andúð minni á því fólki; fætt með silfurskeið í kjafti, gerir ekkert af viti og heldur í þokkabót að það sé á allan hátt merkilegri en ég og þú. En það er enginn merkilegri en ég og þú.

Íslendingar hafa átt forseta frá árinu 1944, en ekki er hægt að bera það saman við embætti Bandaríkjaforseta, svo dæmi sé tekið.

Hér er forseti einskonar óskhyggja um persónugerða táknmynd þjóðar. Ekki meira. Hann er nánast valdlaus og erfitt að benda með skýrum hætti á fyrir nákvæmlega hvað embættið stendur fyrir. Ég á erfitt með að koma auga á tilgang þess að halda uppi með miklum kostnaði, greiddum af almannafé, manneskju sem er forseti og lítið annað. Jú, kannski kynningarfulltrúi, lóbbýisti – maður sem markaðssetur landið, fljúgandi á Sagadeluxeclass - á rokna launum - til ótal landa.

Ég held að Einar Bárðarson gæti gert þetta manna best og það væri í raun nóg að setja hann á launaskrá, hlaða á hann verkefnum og nota peningana sem fara í forsetaembættið til þess að bæta heilbrigðiskerfið. Einar myndi síðan örugglega skila hagnaði sem færi í annað þjóðþrifaverk – samgöngumálin.

Og nú erum við farin að horfa fram á framfarir en ekki táknmynd af táknmynd af draumi sem aldrei hefur ræst.

Víkurfréttir, 19.apríl 2007

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr Heyr.. ekkert smá frábær grein. Algjörlega sammála þér ;)
Góða helgi einn í kotinu.
Kv. Guðbjörg

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir það. Kv Svanur