miðvikudagur, 12. september 2007

Minnumst Biko


Fæddist 18. desember, árið 1946, í King William's Town, Eastern Cape, Suður-Afríku.

Lést 12. september, árið 1977, í fangaklefa í Pretoríu, Suður-Afríku.

Lesið um Biko: http://africanhistory.about.com/library/biographies/blbio-stevebiko.htm

Stephen Bantu Biko, kallaður Steve, lést þennan dag fyrir þrjátíu árum síðan. Hann var barinn til ólífis af lögreglumönnum í Suður-Afríku, eftir "yfirheyrslu."

Dauði hans hafði mikil áhrif í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku.

Ég man fyrst eftir nafninu Biko þegar samnefnt lag eftir Peter Gabriel var gefið út árið 1980. Lagið er frábært, í textanum er sögð grimm saga. Lagið heldur nafni Biko á lofti. Popp og pólitík fara svo sannarlega saman.

Og hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá mun rithöfundurinn J.M. Coetzee, frá Suður-Afríku, halda í dag fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands, klukkan 16, nánar tiltekið. Coetzee er gestur bókmenntahátíðar og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir fjórum árum síðan. Hann kemur sjaldan fram opinberlega. Þykir erfiður, þykir sérstakur, kannski eins og Biko heitinn, landi hans?

En skyldi Coetzee, sem fæddist sex árum áður en Biko, eitthvað í sínum fyrirlestri í dag minnast á Biko, líf hans og dauða og þá staðreynd að í dag eru 30 ár liðin frá dauða hans?

Vonandi.

2 ummæli:

Hjalti sagði...

Þarna má segja að Coetzee hafi misst af gullnu tækifæri til að komast í heimsfréttirnar.

Svanur Már Snorrason sagði...

Sorglegt að ekkert hafi verið minnst að ráði á Biko þarna um daginn. Svo á morgun eru liðin 20 frá dánardægri Jaco Pastorius - þess mikla bassaundurs. Kv