sunnudagur, 8. júlí 2007

Pælingar 11

Fegurð kuldans

Þessi kuldi. Þessi sem búinn er að gera vart við sig að undanförnu.

Eftir hlýtt haustið hefur kuldinn látið á sér kræla ásamt vindinum en saman geta þeir myndað ógnvænlegt teymi sem nístir merg og bein.
Þá hugsar maður gjarnan eitthvað á þessa leið: “Hvurn fjandann á það að þýða að búa hérna á þessu klakaboxi?”
En andartaki síðar: “Ótrúlegt hvernig forfeðurnir gátu haft það af í þessari veðráttu, þvílíkir naglar að lifa af þegar engir voru kuldagallarnir, engin hitaveitan, ekkert rafmagnið, samgöngur hrikalegar og aldrei megavika.”

Kuldinn kallar á hugsanir sem oft eru andstæður og fá mann til að hata og elska. Kuldinn kallar fram það bláa í sálinni og í þeim lit er að finna fegurð. Dapurleiki og kuldi eru á einhvern hátt skyldir og eru ekki alslæmir. Dapurleikinn kallar fram myndir í huga manns sem einkennast af kvíðablöndnum pensilstrokum og hóflegri litanotkun ásamt þungri undiröldu sem þú vilt ekki að komist upp á yfirborðið; vonast samt stundum til að það gerist.

Kuldinn er það sem við erum – við Íslendingar. Hann hefur haldið í okkur lífinu með því að vera svona sterkur; hefur þannig reynt á okkur með áþreifanlegum hætti. Og við höfum haft betur, eða öllu heldur – forfeður okkar höfðu betur. Sigruðust á kuldanum, vosbúðinni og dapurleikanum óumflýjanlega og sköpuðu okkur það samfélag sem við búum í núna. Og þrátt fyrir ýmsa hnökra er okkar samfélag ekki slæmt miðað við mörg önnur á þessum gjöfula en illa nýtta hnetti.

Við eigum forfeðrum okkar að þakka að vera svona sterk og klikkuð þjóð; að hafa ætlað sér að tóra á þessu landi lengst í hinu dimma norðri þar sem ekkert mannlíf hefði átt að að þrífast er meira en að segja það.

Ég er ánægður með að búa hérna á þessu ljóðræna landi þar sem takast á og kallast á kuldi, vindur, depurð, þrautseigja, kraftur og fegurð. Úr þessu hefur líka skapast skrýtið, lífsglatt og sterkt fólk, sem vill ekkert miðjumoð heldur bara vera öfganna á milli.

Allt kuldanum að þakka.

Víkurfréttir, 23. nóvember 2006

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert góður penni! Ættarsómi!

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir það fröken Hróarskelda. Hvar ertu núna stödd? Kv, Svanur

Nafnlaus sagði...

Þessi er ágætur, kíktu á hann:

http://www.hi.is/~jja/

Svo setti ég myndir af ÓlEl á síðuna mína.

kv. Kalas Malas