It´s Miller Time!
Sjónvarp versnandi fer. Síðastliðið laugardagskvöld á sjónvarpsstöðinni Sirkus, var á dagskrá þáttur sem bar heitið Miller Music Tour 2006. Ég tek það fram að ég horfi sjaldan á Sirkus af þeirri ástæðu að þar er oftast boðið upp á rusl – í besta falli heilalausa afþreyingu sem fær mann til að gleyma sér eitt andartak. En nafnið á þessum þætti vakti forvitni mína - Miller Music Tour 2006. Sá fyrir mér tónleika, en svo var nú ekki.
Þarna var á ferð þáttur um hóp af ungu fólki frá ýmsum löndum sem ferðaðist milli borga í Bandaríkjunum í risastórri flugvél í boði bjórverksmiðjunnar Miller.
Komið var við í New York, þaðan haldið til Miami og síðan til Milwaukee, en þar eru höfuðstöðvar brugghússins. Allir drukku Miller bjór af miklu kappi, voru hamingjusamir og höfðu aldrei upplifað annað eins. Dvalist var á lúxushótelum og þetta voru dagar víns og rósa, nei, ég meina, dagar bjórs og rósa. Og svo voru allir illa svekktir er svallinu lauk, því þá þurfti jú að takast á við afleiðingar neyslunnar og blákaldan veruleikann. Frá því var ekki sýnt.
Hinn ofurfjölhæfi, fyrrum rauðhærði og afar geðprúði fjölmiðlamaður, Ásgeir Kolbeinsson, var fulltrúi okkar Íslendinga í þættinum, ásamt tveimur snótum sem ég hef ekki séð áður og náði ekki nöfnunum á; þau stóðu sig eins og hetjur – skemmtu sér vel og þess var gætt að það kæmi oft fram.
Að horfa á þennan þátt var allt að því súrrelísk upplifun; risastór áfengisauglýsing í formi þáttargerðar í sjónvarpi sem sýna átti fram á hversu dásamlegt lífið væri ef þú myndir nú sturta hraustlega í þig bjór af Miller tegund sem mest og sem oftast. Miklu meira en óbein áfengisauglýsing og eins langt frá því að kallast alvöru þáttargerð og mögulegt er.
Hver þarf RÚV þegar slíkt menningarlegt hnossgæti er borið fram fyrir almenning?
It´s Miller Time!
Víkurfréttir, 1. febrúar 2007
Sjónvarp versnandi fer. Síðastliðið laugardagskvöld á sjónvarpsstöðinni Sirkus, var á dagskrá þáttur sem bar heitið Miller Music Tour 2006. Ég tek það fram að ég horfi sjaldan á Sirkus af þeirri ástæðu að þar er oftast boðið upp á rusl – í besta falli heilalausa afþreyingu sem fær mann til að gleyma sér eitt andartak. En nafnið á þessum þætti vakti forvitni mína - Miller Music Tour 2006. Sá fyrir mér tónleika, en svo var nú ekki.
Þarna var á ferð þáttur um hóp af ungu fólki frá ýmsum löndum sem ferðaðist milli borga í Bandaríkjunum í risastórri flugvél í boði bjórverksmiðjunnar Miller.
Komið var við í New York, þaðan haldið til Miami og síðan til Milwaukee, en þar eru höfuðstöðvar brugghússins. Allir drukku Miller bjór af miklu kappi, voru hamingjusamir og höfðu aldrei upplifað annað eins. Dvalist var á lúxushótelum og þetta voru dagar víns og rósa, nei, ég meina, dagar bjórs og rósa. Og svo voru allir illa svekktir er svallinu lauk, því þá þurfti jú að takast á við afleiðingar neyslunnar og blákaldan veruleikann. Frá því var ekki sýnt.
Hinn ofurfjölhæfi, fyrrum rauðhærði og afar geðprúði fjölmiðlamaður, Ásgeir Kolbeinsson, var fulltrúi okkar Íslendinga í þættinum, ásamt tveimur snótum sem ég hef ekki séð áður og náði ekki nöfnunum á; þau stóðu sig eins og hetjur – skemmtu sér vel og þess var gætt að það kæmi oft fram.
Að horfa á þennan þátt var allt að því súrrelísk upplifun; risastór áfengisauglýsing í formi þáttargerðar í sjónvarpi sem sýna átti fram á hversu dásamlegt lífið væri ef þú myndir nú sturta hraustlega í þig bjór af Miller tegund sem mest og sem oftast. Miklu meira en óbein áfengisauglýsing og eins langt frá því að kallast alvöru þáttargerð og mögulegt er.
Hver þarf RÚV þegar slíkt menningarlegt hnossgæti er borið fram fyrir almenning?
It´s Miller Time!
Víkurfréttir, 1. febrúar 2007