föstudagur, 30. janúar 2015

Ljóslausu bílarnir

Sat á rúmstokknum. Saup á vatni. Horfði út um gluggann, annars hugar og fékk á tilfinninguna að allir bílarnir þarna úti væru ljóslausir. Hringlaga verkefnalistinn kallaði á mig; fékk mig til að standa upp og hugsa næsta skref. Þvottahúsið lét illa og vaskurinn í eldhúsinu beið óþolinmóður eftir heitu vatni og sápu. Mig langaði mest að fara að sofa, en fékk mig ekki til þess, ekki frekar en að sinna einhverju af verkefnalistanum. Hélt áfram að horfa út um gluggann. Ég hafði áhyggjur af ljóslausu bílunum.

miðvikudagur, 28. janúar 2015

Hringlandaháttur

Svalirnar voru staður fyrir erfiðar hugsanir og því reyndi hann að forðast þær. Eitthvað við svalirnar var kunnuglegt og kalt; eitthvað við þær kallaði á minningar af leiðinlegum atvikum; kallaði á lélegar ljósmyndir og það var eitthvað sem hann þoldi mjög illa. En það var gott að fara út á svalirnar og fá sér að reykja og drekka (þá voru svalirnar allt annar staður og með allt aðra merkingu) og spjalla við sjálfan sig eða einhvern annan. En hann þoldi illa hringlátahátt og kastaði aldrei sígarettum fram af svölunum. Það taldi hann einn af sínum stærstu kostum.

mánudagur, 26. janúar 2015

Álnavörubúðin

Hressi Bangsi vildi opna álnavörubúð og bað vin sinn Kjartan Tuskubangsa að aðstoða sig við verkið.
Kjartan Tuskubangsi tók vel í beiðnina, en sagðist þó þurfa að hugsa sig aðeins um. Það væri mikið að gera hjá honum næstu dagana, en vel líklegt væri að hann gæti frestað einu verkefninu sem hann væri að vinna að. Það lægi ekki svo mikið á að klára það. Honum fannst hugmynd Hressa Bangsa það góð að hann vildi endilega vinna að framgangi hennar.

fimmtudagur, 8. janúar 2015

Áfram

Komdu yfir götuna að skoða málverkið í glugga gallerísins. Við skulum ekki hlaupa. Það liggur ekkert á. Fáum okkur svo