föstudagur, 29. janúar 2010

Séð og Heyrt Móment 14


UNGFRÚ SUÐURLAND – JÁTNINGAR

„Finnst þér ég ekki nógu sæt?" spurði unga stúlkan sem lengi hafði átt sér
þann draum að vera valin Ungfrú Suðurland.

„Jú, það er ekki það," svaraði framkvæmdastjóri keppninnar, sjúskaður og
órakaður eftir gleði gærkvöldsins. Hárið feitt, augun blóðhlaupin og hugurinn
sjúkur.

„Þú ert falleg – en ég hef ákveðnar efasemdir."

Hún fylltist skelfingu við þessi orð. Svitnaði. Hvað skyldi hann vita?

„Ég er ekkert heilög," sagði hún og um leið sperrti hann eyrun, fylltist áhuga.
„Ég hef sofið hjá alltof mörgum strákum, og tveimur stelpum líka. Ég hélt fram
hjá æskuástinni minni með besta vini hans, en ég veit ekkert út af hverju. Ég hef
farið í fóstureyðingu sem enginn veit af og ég hef oft keyrt full."

Eftir að hafa romsað þessu upp úr sér lyppaðist hún niður í sætið með tárin
í augunum og maskarann í munninum.

„Þú segir nokkuð, en ég var bara að velta fyrir mér hvort þetta væri þinn
náttúrulegi háralitur. Það eru of margar ljóshærðar stelpur í keppninni þetta
árið," sagði hann og gat ekki leynt glottinu á andstyggilegu andlitinu.

„En eftir þetta hefur efasemdunum fækkað."

Unga stelpan sem lengi hafði átt sér þann draum að vera valin Ungfrú Suðurland
skildi að með orðum sínum hafði hún afhjúpað sjálfa sig en um leið aukið
möguleika sína, stigið skref í átt að draumi sínum.

„Ég er ekki vond. En ég geri stundum hluti sem ég ætla ekki að gera."

Framkvæmdastjórinn brosti, það var glampi í augum hans.

„Sestu aðeins hjá mér. Ég held að þetta gæti verið byrjunin á stuttu og fallegu
sambandi."

(Séð og Heyrt, 3. tbl. 2010)


 



__________

Engin ummæli: