laugardagur, 2. janúar 2010

Samtal í bílastæðahúsi


Þegar ég steig út úr bílnum reiknaði ég ekki með að hitta gamlan skólafélaga, bekkjarbróður um tíma. Ekki þarna í bílastæðahúsinu, þar reiknar maður ekki með að hitta fólk.
"Blessaður, hvað segir þú?" spurði hann og tónninn var hressandi á gervilegan hátt.

"Allt ágætt," sagði ég, það er vaninn hjá flestum að segja það, og bæta svo við:

"En hjá þér, er ekki allt gott að frétta?"

Svarið er yfirleitt: "Jú, það er allt gott að frétta, ég segi allt gott, það þýðir ekkert annað."

En ekki að þessu sinni. Þessi gamli skólafélagi og bekkjarbróðir um tíma leit djúpt í augun á mér. Í augum hans var að finna þrá eftir tjáningu og tómleika; augnaráðið blandað af fjarlægð og nálægð, ekki hægt að útskýra það öðruvísi.

"Nei, það er ekki allt gott að frétta af mér."

Hann hristi höfuðið, virtist reiður, í það minnsta svekktur. Hressi gervilegi tónninn víðsfjarri.

"Það er allt eins og það á ekki að vera. Mér líður illa, það hefur flest farið úrskeiðis undanfarin tvö ár, og ég á og er ekkert í dag. Ekkert annað en skíthæll. Hef komið illa fram við fólk í kringum mig. Það hafa allir fengið nóg af mér, og ég skil það vel; ég á skilið að það sé traðkað á mér eins og hundaskít.."

Eftir þessa ræðu varð mér orða vant um stund, horfði á manninn, gamla skólafélagann og um tíma bekkjarbóður, og vonaði að hann myndi ekki klikkast þarna. Hann var ekki þekktur fyrir að vera ofbeldismaður, þekktur fyrir að vera sterkur og góður í körfubolta. Svo allt í einu var eins og hann dytti aftur inn í stund og stað.

Og þá sagði ég snöggt: "Gaman að hitta þig, við félagarnir þurfum endilega að fara að hittast, taka nokkra öllara."

Ég sneri mér við og hugðist ganga hratt í burtu. En hann greip um öxlina á mér. Ég staðnæmdist og sneri mér við - spurði: "Er ekki allt í góðu?"
Hann var blíður á svip, og tónninn í röddinni var orðinn gervilega hressandi á ný.

"Jú, auðvitað, og mér líst vel á að við hittumst, félagarnir, sem fyrst. En ég á hvergi heima, nema þú viljir kalla herbergi á gistiheimili heimili? Getum við hist heima hjá þér, á föstudaginn?"

Hann var orðinn svo ákafur að mér var hætt að lítast á blikuna og greip því til lyginnar, sem er mér töm.

"Nei, ég er líka heimilislaus, bý tímabundið hjá tengdaforeldrum mínum, og það er ekki litið hýru auga af þeim að halda partý þar."

"En get ég ekki hringt í þig á næstunni, og við fundið út úr þessu, ég hef nú ekki yfir miklu að gleðjast?"

"Jú," sagði ég og gaf honum upp gamla gsm símanúmerið sem ég var hættur að nota og líklega einhver ókunnur kominn með.
"Hringdu bara hvenær sem er."

Hann varð eitt bros í framan og sagði hlýjum rómi: "Takk, þú ert vinur í raun. Ef það er eitthvað sem ég þarfnast núna er það traustur vinur."

"Ekkert mál, þetta verður allt í lagi," sagði ég og kvaddi hann og flýtti mér eins hratt og mér var unnt í burtu. Hef síðan ekki stigið fæti inn í þetta bílastæðishús og sem betur fer ekki hitt þennan gamla skólafélaga og um tíma bekkjarbróður aftur. Svona á þetta nefnilega ekki að vera.

Svona á þetta að vera þegar ég hitti gamlan skólabróður og um tíma bekkjarbróður:

"Er ekki allt gott að frétta?"

"Jú, jú, það er allt fínt að frétta af, ég segi allt gott, það þýðir ekkert annað. Heyrðu, ég verð að drífa mig, gaman að hitta þig, sjáumst."

2 ummæli:

Berglind Björk Halldórsdóttir sagði...

Vildi bara gefa eitthvað thumbs upp á þessa sögu, en sá fítus er reyndar ekki fyrir hendi hér ;-)

Kv. ókunnug

Svanur Már Snorrason sagði...

Takk fyrir það. Gaman að vita að einhver lesi þetta, og hafi gaman af :)

Bestu kveðjur,

Svanur