föstudagur, 29. janúar 2010

Séð og Heyrt Móment 14


UNGFRÚ SUÐURLAND – JÁTNINGAR

„Finnst þér ég ekki nógu sæt?" spurði unga stúlkan sem lengi hafði átt sér
þann draum að vera valin Ungfrú Suðurland.

„Jú, það er ekki það," svaraði framkvæmdastjóri keppninnar, sjúskaður og
órakaður eftir gleði gærkvöldsins. Hárið feitt, augun blóðhlaupin og hugurinn
sjúkur.

„Þú ert falleg – en ég hef ákveðnar efasemdir."

Hún fylltist skelfingu við þessi orð. Svitnaði. Hvað skyldi hann vita?

„Ég er ekkert heilög," sagði hún og um leið sperrti hann eyrun, fylltist áhuga.
„Ég hef sofið hjá alltof mörgum strákum, og tveimur stelpum líka. Ég hélt fram
hjá æskuástinni minni með besta vini hans, en ég veit ekkert út af hverju. Ég hef
farið í fóstureyðingu sem enginn veit af og ég hef oft keyrt full."

Eftir að hafa romsað þessu upp úr sér lyppaðist hún niður í sætið með tárin
í augunum og maskarann í munninum.

„Þú segir nokkuð, en ég var bara að velta fyrir mér hvort þetta væri þinn
náttúrulegi háralitur. Það eru of margar ljóshærðar stelpur í keppninni þetta
árið," sagði hann og gat ekki leynt glottinu á andstyggilegu andlitinu.

„En eftir þetta hefur efasemdunum fækkað."

Unga stelpan sem lengi hafði átt sér þann draum að vera valin Ungfrú Suðurland
skildi að með orðum sínum hafði hún afhjúpað sjálfa sig en um leið aukið
möguleika sína, stigið skref í átt að draumi sínum.

„Ég er ekki vond. En ég geri stundum hluti sem ég ætla ekki að gera."

Framkvæmdastjórinn brosti, það var glampi í augum hans.

„Sestu aðeins hjá mér. Ég held að þetta gæti verið byrjunin á stuttu og fallegu
sambandi."

(Séð og Heyrt, 3. tbl. 2010)


 



__________

Y Mynd: X-tra sterkt gúmmí - í hlutföllunum tveir á móti þessum og hinum


Y Mynd: Part II af IV


fimmtudagur, 21. janúar 2010

Séð og Heyrt Móment 13


SAMTAL UM KONUR

Karl I: Þú varst einu sinni að vinna þar sem voru nánast eingöngu konur.

Karl II: Já.

Karl I: Hvernig var það? Skilurðu konur betur eftir þá reynslu, því ég botna ekkert í þeim?

Karl II: Það var mjög sérstakt. Ég skil konur ekki mjög vel, en eftir að hafa unnið með þeim veit ég að þær eru smámunasamar. Þær velta sér mikið upp úr aukatriðum, smáatriðum, en sjá ekki heildarmyndina vel, og það hamlar þeim.

Karl I: Hvernig?

Karl II: Ef manneskja einblínir á eitthvað sem skiptir litlu máli en pælir ekki mikið í því sem heldur gangvirkinu í lagi verður allt erfitt. Þær eru stundum smeykar við karla á vinnustöðum; hræðilegast af öllu finnst þeim að þurfa að spyrja karlmann um laun. Þær halda að þær verði reknar fyrir að biðja um mannsæmandi laun en skilja svo ekkert í því af hverju karlmenn eru með hærri laun.

Karl I: Eru þær vondar við hvor aðra?

Karl II: Ekki beint, en þær stuðla að karlaveldi með því að vera afbrýðisamar og öfundsjúkar út í aðrar konur, konur sem ná langt. Reyna að halda hvorri annarri niðri. Mynda smáa hópa og eru alltaf að berjast; sjálfseyðingarhvöt þeirra er sterk. Ná sjaldan samstöðu, enda alltaf lítil stríð í gangi og þær gera aldrei almennilega út um málin.

Karl I: En það er svo góð lykt af þeim.

Karl II: Já, og svo þarf ekki nema eitt bros, og þá er maður á þeirra valdi. Eins gott að þær vita ekki af þessu.

(Séð og Heyrt, 52. tbl. 2009)

mánudagur, 4. janúar 2010

D


Nóttin er komin til að ná ykkur. Og hún hefur þúsund arma. Ljósin duga skammt og hræðslan það eina sem framundan er. Á dimmum veginum er andlitslaus maður. Einhverskonar vera sem er ekki af þessum heimi, en samt maður. Hann vísar veginn, viljir þú fara hann. Vertu fljótur að velja, annars bíður þín eitthvað verra, eða eitthvað annað.

laugardagur, 2. janúar 2010

Samtal í bílastæðahúsi


Þegar ég steig út úr bílnum reiknaði ég ekki með að hitta gamlan skólafélaga, bekkjarbróður um tíma. Ekki þarna í bílastæðahúsinu, þar reiknar maður ekki með að hitta fólk.
"Blessaður, hvað segir þú?" spurði hann og tónninn var hressandi á gervilegan hátt.

"Allt ágætt," sagði ég, það er vaninn hjá flestum að segja það, og bæta svo við:

"En hjá þér, er ekki allt gott að frétta?"

Svarið er yfirleitt: "Jú, það er allt gott að frétta, ég segi allt gott, það þýðir ekkert annað."

En ekki að þessu sinni. Þessi gamli skólafélagi og bekkjarbróðir um tíma leit djúpt í augun á mér. Í augum hans var að finna þrá eftir tjáningu og tómleika; augnaráðið blandað af fjarlægð og nálægð, ekki hægt að útskýra það öðruvísi.

"Nei, það er ekki allt gott að frétta af mér."

Hann hristi höfuðið, virtist reiður, í það minnsta svekktur. Hressi gervilegi tónninn víðsfjarri.

"Það er allt eins og það á ekki að vera. Mér líður illa, það hefur flest farið úrskeiðis undanfarin tvö ár, og ég á og er ekkert í dag. Ekkert annað en skíthæll. Hef komið illa fram við fólk í kringum mig. Það hafa allir fengið nóg af mér, og ég skil það vel; ég á skilið að það sé traðkað á mér eins og hundaskít.."

Eftir þessa ræðu varð mér orða vant um stund, horfði á manninn, gamla skólafélagann og um tíma bekkjarbóður, og vonaði að hann myndi ekki klikkast þarna. Hann var ekki þekktur fyrir að vera ofbeldismaður, þekktur fyrir að vera sterkur og góður í körfubolta. Svo allt í einu var eins og hann dytti aftur inn í stund og stað.

Og þá sagði ég snöggt: "Gaman að hitta þig, við félagarnir þurfum endilega að fara að hittast, taka nokkra öllara."

Ég sneri mér við og hugðist ganga hratt í burtu. En hann greip um öxlina á mér. Ég staðnæmdist og sneri mér við - spurði: "Er ekki allt í góðu?"
Hann var blíður á svip, og tónninn í röddinni var orðinn gervilega hressandi á ný.

"Jú, auðvitað, og mér líst vel á að við hittumst, félagarnir, sem fyrst. En ég á hvergi heima, nema þú viljir kalla herbergi á gistiheimili heimili? Getum við hist heima hjá þér, á föstudaginn?"

Hann var orðinn svo ákafur að mér var hætt að lítast á blikuna og greip því til lyginnar, sem er mér töm.

"Nei, ég er líka heimilislaus, bý tímabundið hjá tengdaforeldrum mínum, og það er ekki litið hýru auga af þeim að halda partý þar."

"En get ég ekki hringt í þig á næstunni, og við fundið út úr þessu, ég hef nú ekki yfir miklu að gleðjast?"

"Jú," sagði ég og gaf honum upp gamla gsm símanúmerið sem ég var hættur að nota og líklega einhver ókunnur kominn með.
"Hringdu bara hvenær sem er."

Hann varð eitt bros í framan og sagði hlýjum rómi: "Takk, þú ert vinur í raun. Ef það er eitthvað sem ég þarfnast núna er það traustur vinur."

"Ekkert mál, þetta verður allt í lagi," sagði ég og kvaddi hann og flýtti mér eins hratt og mér var unnt í burtu. Hef síðan ekki stigið fæti inn í þetta bílastæðishús og sem betur fer ekki hitt þennan gamla skólafélaga og um tíma bekkjarbróður aftur. Svona á þetta nefnilega ekki að vera.

Svona á þetta að vera þegar ég hitti gamlan skólabróður og um tíma bekkjarbróður:

"Er ekki allt gott að frétta?"

"Jú, jú, það er allt fínt að frétta af, ég segi allt gott, það þýðir ekkert annað. Heyrðu, ég verð að drífa mig, gaman að hitta þig, sjáumst."