þriðjudagur, 12. maí 2009

Séð og Heyrt Móment 2


Fegurðardrottningin sem fitnaði


Einu sinni var lítil stúlka sem dreymdi um að verða fegurðardrottning. Draumur hennar rættist næstum því. Tvítug tók hún þátt í fegurðarsamkeppni þjóðarinnar. Var valin sokkabuxnastúlkan og var býsna sátt.

Fegurðarkeppendurnir héldu hópinn og hittust einu sinni á ári. Þar var glatt á hjalla og fegurðin blómstraði; alveg æðislegt.

En svo dundi ógæfan yfir hjá litlu stúlkunni sem dreymdi um að verða fegurðardrottning – hún fór að fitna. Réð ekki neitt við neitt og þegar hún mætti í hinn árlega fagnað, fimm kílóum þyngri en árinu áður, uppskar hún augnagotahýðingu og kuldinn í samræðunum var á við færeyska frystikistu.

Henni leið illa en skildi þá hvað lífið gengur út á; ytra útlit og yfirborðskennda framkomu sem virðist vera sjálfstraust, háa hæla og sundbol. Áttaði sig á þeim sannindum að það er ekki nóg að vera góð manneskja.

Hún lagði því mikið á sig til að ná af sér kílóunum fimm, og meira til. Ætlaði ekki að lenda í slíkri uppákomu aftur, að verða niðurlægð af bestu vinkonum sínum – enda vissi hún vel að allt þetta var henni sjálfri að kenna – að fitna er jú ein af höfuðsyndunum sjö. Eða voru þær átta?

Með strangri megrun og líkamsrækt fór allt að ganga upp, og niður. Hún var aftur meðtekin sem fullgild fyrrum fegurðardrottning – enda hafði hún iðrast og gert yfirbót.

Það er hægt að læra af þessari sögu. Draumar rætast, iðrun færir frið, sannir vinir eru gulls ígildi og fegurð lífsins er mikil. Ef þú fitnar ekki.


Séð og Heyrt (14. tbl. - 2009, 9. - 15. apríl)

laugardagur, 9. maí 2009

föstudagur, 8. maí 2009

Séð og Heyrt Móment 1


Mölbrotinn spegill

Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson voru fyrir mína tíð. Rámar í Kristján Eldjárn. Man vel eftir Vigdísi. Og kaus Ólaf Ragnar. Hef síðan þá klórað mér mikið í kollinum og velt fyrir mér frá mörgum hliðum hvers vegna forsetaembættið er yfirhöfuð til hér á landi.

Hef komist að niðurstöðu: Embættið er óþarft. Og það sem meira er – til óþurftar.

Forsetinn er sagður þjóðhöfðingi Íslands. Hann er jú vissulega kosinn af fólkinu í landinu. Öfugt við kónga- og drottningarhyskið sem liggur á mörgum þjóðum eins og mara – samfélagi þeirra til álíka mikillar þurftar og útrásarvíkingarnir og Icesave eru nú íslenska efnahagskerfinu.

En er forsetinn til þess að setja niður plöntur? Er hann til þess að ljá máls á nauðsyn aukinnar málvitundar og mæra landið? Dásama allt sem íslenskt er, hversu vitlaust og vont sem það er? Veit ekki betur en við eigum fullt af góðum garðyrkjumönnum og klárum kennurum. Og heilan haug af ímyndarfræðingum.

Þjóðhöfðingi á að hafa skýrt afmarkað valdsvið og það á að liggja ljóst fyrir hver tilgangurinn er með störfum hans. Við þurfum leiðtoga – ekki kynningarfulltrúa þeirra ríku.

Við þurfum ekki á framlengingu á konungsveldi að halda. Við þurfum enga táknmynd af því sem áður var. Hvað þá ef sú táknmynd kostar fúlgur fjár og skilar litlu öðru til útlendinga en afskræmdri mynd af samfélagi okkar og þegnum þess. Spegillinn er mölbrotinn og almenningur er á fullu að tína upp brotin, með alblóðuga fingur.

Séð og Heyrt (10. tbl. - 2009, 12. - 18. mars)

Andartök/Pistlar

Ætla að gamni að henda hér inn stuttum pistlum sem ég skrifa um það bil einu sinni í mánuði í Séð og Heyrt. Kallaðir Séð og Heyrt Móment, í blaðinu.

laugardagur, 2. maí 2009

Stefanía sagði svo vera


Stefanía sagði að það væri kalt í Alaska. Ég efast ekki um það. Hef aldrei komið þangað, langar kannski. Frekar þó á sólarströnd á Spáni - eins og staðan er nú. Staðan nú er ágæt. Og ég vísa á skáld sem tekur mikið til sín, í mínum huga, en gefur líka mikið af sér - er ekki sjálfhverfur og semur ekki ljóð um glataða eða óendurgoldna ást.

súkkatfyrstamaífjalladúfan