laugardagur, 22. nóvember 2008

Laufblöð

Prinsessa, þú frelsaðir mig ekki þegar ég bað þig um það. Prinsessa, af hverju ekki? Geturðu svarað. Ég get svarað. Vil það ekki. Hugsanirnar féllu líkt og laufblöð af trjánum í október en ég náði hins vegar að koma í veg fyrir að þær fykju burt. Negldi þær niður á spýtu sem ég fann í gjótunni við húsið mitt. Naglana keypti ég í Byko fyrir löngu síðan. Þessi spýta verður haldreipi mitt á næstunni enda þarf ég að komast út úr þungum hugsunum. Viltu koma með mér prinsessa? Ég er búinn fylla tankinn og brauðristin er í skottinu en samlokugrillið er hætt að virka. Viltu koma með mér í ferðalag þar sem enginn sérstakur áfangastaður er í sigtinu - þar sem nestið er af skornum skammti og loforðin engin? Það gæti verið gaman. Ég vil hafa þig með mér.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað þýðir þetta eiginlega

Svanur Már Snorrason sagði...

Það sem þú vilt að þetta þýði

Nafnlaus sagði...

Valur Áki kom með flott gullkorn áðan:

,,Rúna Lind, stundum þá drepast á mér fæturnar þegar ég er mikið að hlaupa, þær bara alveg drepast."

Finnst líka svo mikið æði að hann segir alltaf "Rúna Lind".

P.S. Hvenær ætlarðu að skrifa bók Svanur?

Nafnlaus sagði...

Maður verður oft hlessa. Eða hlussa. Sko. Hvað þetta þýðir? Eða hvað á þetta að þýða? Laufblöð. Leðurhanski. Teikning af löngu látinni skrípafígúru þar fyrir neðan. Aldrei man ég eftir honum með pípu. Ma, ma, maður spyr: Hvað er í pípunni? Þessi prinsessa er reyndar miklu meira heillandi en Freysteinn. En hvernig er hún klædd? Sko, þessi tilfinning vaknar eins og ljóði Einars Más: Einhvern veginn finnst mér að allir skrifstofumenn heiti Snorri. En um leið bendir prósinn á Bifreiðina sem hemlar hjá rjóðrinu eftir Stefán Hörð Grímsson. Hér er ort um áfangastað, piknikkferð en fortíðina vantar með þrældómsoki forfeðranna. En ég sé reyndar Freystein á bak við eina birkihrísluna í skógarrjóðrinu. Hann felur sig þar ásamt Lerekete. Kveðja, Hrossi.

Hjalti sagði...

Ég vil að þetta þýði:

Það er alveg hrikalegt ástand í þjóðfélaginu í dag og enginn hefur almennilegt kaup og fólk lepur dauðann úr skel.