fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Minningar og músík VI

Laugardaginn 26. júlí, 2008 - Menningarblað/Lesbók Mbl.

Poppklassík: Eftir Svan Má Snorrason sms@utopia.is

Minnisvarði um ógöngur

Ég svíf um gólfið með ryksuguna á fullu. Það er föstudagur á miðjum tíunda áratug síðustu aldar – er að þrífa íbúðina sem ég bý í ásamt mömmu og Gísla bróður. Ákveð í skyndingu að skella Bítlunum undir geislann og fyrir valinu verður síðasta platan sem kom út með þeim, Let it Be. Á hverjum föstudegi eftir þetta í langan tíma, marga mánuði, jafnvel eitt ár, er þetta ferli endurtekið; ég ryksuga, dusta rykið, þríf spegla og sjónvarpsskjá, úða viðarolíu á skápa og væti tusku með vatni og legi sem ilmar af sítrónu, strýk af. Og set Let it Be í og græjurnar hækkaðar í botn því ryksugan er hávær. Góðir föstudagar.
Let it Be er sú plata Bítlanna sem ég hef mest hlustað á, er í miklu uppáhaldi. Nokkuð margir aðdáendur hljómsveitarinnar og popp- og rokkspekingar telja þessa plötu þá lökustu sem Bítlarnir sendu frá sér. Þeir um það. Þetta er ekki besta plata Bítlanna en engin plata þeirra á skilið að vera talin lökust eða léleg – þetta er jú besta, mesta, söluhæsta og áhrifamesta hljómsveit allra tíma.
Let it Be er síðasta platan sem Bítlarnir gáfu út áður en þeir lögðu upp laupana árið 1970. Þó eru lögin á henni ekki þau síðustu sem hljómsveitin tók upp því eftir að upptökum lauk á Let it Be og þangað til hún kom út tóku Bítlarnir í millitíðinni upp og gáfu út hina stórkostlegu Abbey Road, sem kom út 26. september 1969, tekin upp í febrúar til ágúst sama ár. Let it Be aftur á móti kom út 8. maí 1970 en var tekin upp í janúar 1969.
Flestir sem til sögu Bítlanna þekkja vita að meðan á upptökum Let it Be stóð var andrúmsloftið innan hljómsveitarinnar ekki upp á það besta og reyndar óralangt frá því. Eftir erfiðar upptökur var afraksturinn lagður til hliðar og hann síðar meir sendur til Bandaríkjanna þar sem upptökustjórinn Phil Spector hófst handa við að koma þessu þannig fyrir að hægt væri að gefa út á einni plötu. Það tókst en platan hljómar ekki mjög bítlalega; hún er hrárri en aðrar plötur hljómsveitarinnar og þá eru mörg laganna heldur ekki mjög bítlaleg – það er að segja ekki eins grípandi tónsmíðar og oft áður. Þetta var einskonar tilraun til afturhvarfs; þarna átti að skapa lifandi stemningu (upprunalega fæddist hugmynd hjá Paul McCartney sem snerist um að æfa hljómsveitina upp fyrir mögulega endurkomu á tónleikasviðið og gera um leið plötu) og setja í salt allar hljóðverstilraunir og tónlistarpælingar sem tengdust sýrurokki og poppi því sem var nokkuð ríkjandi á árunum 1965 til 1970.
Paul McCartney var hvorki ánægður með aðkomuna né útkomuna hjá Phil Spector og þá sérstaklega hvernig hann breytti lagi hans, „The Long and Winding Road“ – fallegu, grípandi og mjög vinsælu lagi. McCartney vildi að lagið yrði strípað niður, einfaldleikinn látinn ráða ríkjum. Spector skreytti lagið strengjum og englaröddum. Alltaf fundist útsetning Spectors góð og mun betri en á Let it Be Naked – en það er Let it Be eins og Paul McCartney vildi að Leit it Be hefði hljómað upprunalega – hún kom út árið 2003. Um þá plötu er ekki fjallað hér. Bíður betri tíma og kannski einhvers annars.
Nokkur lög urðu gríðarlega vinsæl af Let it Be, áðurnefnt the „Long and Winding Road“, „Across the Universe“, „Get Back“ og svo auðvitað titillagið – eitt vinsælasta bítlalagið af þeim öllum.
Þarna er líka að finna lög sem sjaldan heyrast á öldum ljósvakans, en hafa eitthvað mikið við sig. Lög eins og „Two Of Us“, „I´ve Got a Feeling“, „For You Blue“, „One after 909“, „Dig a Pony“ og „I Me Mine“.
Let it Be er ekkert listaverk, engar nýjar slóðir fetaðar, heldur skemmtilegur og krassandi minnisvarði um þær ógöngur sem hljómsveitin var komin í vegna andlegrar og líkamlegrar þreytu eftir alla keyrsluna síðustu árin á undan. Og fjórmenningarnir frá Liverpool komust með höfuðið hátt frá þessum ógöngum. Þeir voru orðnir leiðir hver á öðrum en samt ná þeir að búa til svo góða tónlist að ég gat hugsað mér að ryksuga og þrífa íbúðina hátt og lágt í langan tíma með hana í botni. Það segir nokkuð. Ég er ofsalega ánægður með að Let it Be skyldi hafa litið dagsins ljós. Fínn lokapunktur á ótrúlegum ferli bestu hljómsveitar allra tíma.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

skemmtilegt!

platan hefur hinsvegar ekki verið þér innblástur til uppvasks?

Nafnlaus sagði...

Jú, hún var það nú. En ætli ég hafi samt ekki hlustað mest á Bowie þegar ég sinnti uppvaskinu. Kv, Svanur

Hjalti sagði...

Þetta er fallegur pistill. Vekur upp hjá mér minningar um atburði sem ég upplifði aldrei. Finnst eins og ég hafi verið þarna á Suðurvanginum með ykkur að ryksuga.